Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Fréttir 29. mars 2017
Sjálfboðaliðar í þágu náttúru eru ekki ódýrt vinnuafl
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Sjálfboðaliðar Umhverfisstofnunar hafa unnið samtals 1.750 dagsverk síðastliðin ár, að 80 verkefnum á 29 mismunandi friðlýstum svæðum. Þar má nefna náttúrulega göngustíga, endurheimt landslags og verndun líffræðilegrar fjölbreytni.
„Ég er mjög stoltur af því umfangsmikla sjálfboðaliðastarfi sem fram fer árlega,“ segir René Biasone, umsjónarmaður sjálfboðaliðastarfs hjá Umhverfisstofnun.
René segir í pistli á heimasíðu Umhverfisstofnunar mikilvægt að koma því á framfæri í hverju sjálfboðaliðastörf í þágu náttúruverndar felist. „Margar skilgreiningar eru til og ekkert alhliða samkomulag. En flestir eru sammála um að það að vera sjálfboðaliði þýði að sá hinn sami leggi sitt af mörkum til að mæta viðurkenndri þörf/nauðsyn, með samfélagsábyrgum viðhorfum, og án þess að vinna í hagnaðarskyni,“ segir René.
Vinna að ólíkum verkefnum
Hann bendir á að sjálfboðaliðar Umhverfisstofnunar, sem vinni t.d. að endurheimt landslags með því að afmá för vegna utanvegaaksturs, gegni mikilvægu hlutverki, sem vart væri hægt að inna af hendi með öðrum hætti. Margir sjálfboðaliðar séu nemendur í náttúrufræði, líffræði, landafræði eða jarðfræði. Sumir stefni að landvörslu í þjóðgörðum. Með því að þjóna náttúrunni sem er almenningi í hag öðlist þau þekkingu. Sem dæmi um ólík verkefni sjálfboðaliða nefnir René endurheimt landslags og víðernis, verndun fuglalífs og gróðurs með stýringu gesta í óbyggðum og verndun líffræðilegrar fjölbreytni.
Umhverfisstofnun rökstyðji starfsemina með 1. grein náttúruverndarlaga þar sem segir að auðvelda eigi umgengni og kynni almennings af náttúru landsins og menningarminjum sem henni tengjast og efla þekkingu og fræðslu um náttúruna. Þjóðgarðar hafi þessi hlutverk vel skilgreind í 47. grein.
Innlendir leggja líka lið
Víða í heiminum, sérstaklega í Evrópu, reka ýmsar opinberar stofnanir sjálfboðaliðastarfsemi líkt og hér á landi. „Sjálfboðaliðastarf í þágu náttúru er alls ekki „ódýrt vinnuafl“. Skipulagning verkefna, ráðningaferli sjálfboðaliða, búnaður s.s. fatnaður, tjaldgræjur, verkfæri og öryggisbúnaður kosti sitt sem og gisting, matur, þjálfun sjálfboðaliða og liðstjóra. Þá nefnir hann að sjálfboðaliðar séu líka innlendir. „Á árinu 2016 hafa 104 sjálfboðaliðar frá 13 mismunandi löndum unnið á Íslandi, m.a. íslenskir nemendur við FÁ og MH, ásamt kennurum þeirra.“