Sjálfboðaliðar við hreinsunarstörf
Talsvert brotnaði af trjám í Laugalandsskógi á Þelamörk í Hörgársveit í norðanáhlaupinu á dögunum. Þau tepptu umferð um göngustíga og gátu valdið hættu.
Ingólfur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyjafjarðar, segir að svo hafi háttað til að starfsmenn félagsins voru önnum kafnir við alls kyns verkefni, keppst er við að grisja frá stígum fyrir veturinn, byggja upp leiksvæði og einnig er verið að reisa nýja tjaldskemmu sem á að hýsa sögunaraðstöðu félagsins ásamt því að skjóta skjólshúsi yfir nýja snjótroðarann. Hann verður að líkindum settur í skip í Þýskalandi í kringum næstu mánaðamót.
Skógarhjónin og bjargvættirnir Sigurður Sæmundsson, stjórnarmaður SE og Ólöf Hörn Erlingsdóttir, fyrrverandi starfsmaður félagsins, bönkuðu snarlega upp á hjá skógræktarfélaginu, fengu lánuð tæki og tól sem vantaði upp á þeirra eigin og snöruðu sér svo út á Þelamörkina til að bjarga þar málum „Við erum svo sannarlega heppin og mjög þakklát fyrir þessa aðstoð sem þau hjónin veittu okkur,“ segir Ingólfur.