Skjólbelti framtíðar
Árangur í skjólbeltarækt á Íslandi hefur verið misjafn og mörg skjólbelti, sem ræktuð hafa verið upp, hafa reynst léleg og endingarlítil. Ástæðan er að hluta rangt plöntuval og ómarkviss uppröðun tegunda.
Verkefnið Skjólbelti framtíðar er ætlað að þróa heppilega samsetningu tegunda með sjálfbærni að leiðarljósi við uppbyggingu skjólbelta fyrir íslenskar aðstæður. Verkefnið byggist á rannsóknum Yndisgróðurs sem Samson Bjarnar Harðarson, landslagsarkitekt og lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands, hefur umsjón með. Yndisgróður hefur að markmiði að safna harðgerum og nytsömum tegundum og yrkjum garð- og landslagsplantna sem henta vel íslenskum aðstæðum, miðla upplýsingum um ræktunarreynslu og uppruna þeirra og koma þeim á í almenna framleiðslu og sölu.
Samson segir að settir hafa verið upp sýni- og tilraunareitir á Reykjum í Ölfusi, á Blönduósi, í Sandgerði, Laugardalnum í Reykjavík, Fossvogi í Kópavogi og á Hvanneyri. „Út frá þessu hefur þróast verkefnið um skjólbelti þar sem leitast er við að finna bestu hentugu skjólbeltaplöntur sem völ er á fyrir íslenskar aðstæður. Markmiðið er að gera fyrirmyndarskjólbelti og miðla upplýsingum um tegundir og fyrirkomulag.“
Gerð og gagnsemi skjólbelta
„Skjólbelti eru ein eða fleiri raðir trjáa og eða runna sem eiga að mynda nokkurs konar vegg sem hefur það hlutverk að brjóta vind í smáa vindsveipi sem rekast hver á annan og draga þannig kraftinn úr vindinum. Til að skjólbelti skili bestum árangri er nauðsynlegt að beltin endist vel. Þau þurfa að haldast þétt að neðan þannig að ekki nái að trekkja undir þau en jafnframt verða þau að ná að vaxa nokkuð hratt upp því skjólbelti skýla stærra landsvæði eftir því sem þau eru hærri.
Mikilvægt er því að notast við skuggþolna runna sem greina sig vel alveg frá jörðu í bland við hærri og endingargóðar trjátegundir. Runnalagið er mikilvægt vegna þess að það er tilhneiging hjá öllum stórvaxnari tegundum að gisna að neðan þegar þær vaxa upp.
Margvísleg gagnsemi skjólbelta er vel þekkt og hefur skipulögð skjólbeltarækt verið stunduð á Íslandi í rúmlega hálfa öld. Góð skjólbelti geta til dæmis bætt skilyrði til ræktunar og fyrir búfénað svo um muni,“ segir Samson.
Kostir og gallar víðis í skjólbeltum
Hingað til hefur mest verið notast við alaskaösp og ýmsar tegundir víðis sem kemur fljótt til og virðist því í fyrstu gefa skjótan árangur.
„Víðir hefur vissa galla sem flestir tengjast því að hann er frumherjategund. Hann er sólelskur og þar af leiðandi drepast neðstu greinarnar vegna skugga og einnig vegna afráns skordýra. Þannig verða víðiskjólbeltin ber að neðan og gegna ekki hlutverki sínu og geta jafnvel gert ógagn í verstu tilfellum. Auk þess endist víðir stutt í ræktun og þolir illa samkeppni um birtu og næringu frá öðrum gróðri. Víða má sjá skjólbelti úr alaskavíði einungis 20–30 ára gömul sem eru orðin léleg og hafa brotnað niður eða oltið.
Stórvaxinn víðir í skjólbeltarækt hindrar jafnframt trjátegundir sem eiga að mynda meginskjólið í að vaxa upp úr víðinum nema að tryggt sé með klippingu að halda opinni leið fyrir þær. Slíkt getur verið mikil og erfið vinna og því oft vanrækt. Vinna og kostnaður við gróðursetningu getur því farið forgörðum ef ekki er staðið vel að plöntuvali, útplöntun, uppbyggingu og umhirðu í upphafi.“
Nýjar hugmyndir frá Dönum
Á 7. og 8. áratug síðustu aldar fóru Danir sem höfðu glímt við álíka vandamál og Íslendingar með endingarlítil og gisin skjólbelti að þróa nýjar hugmyndir í skjólbeltarækt.
„Hugmynd Dana byggir að hluta til á eldri fyrirmyndum en fyrst og fremst horfa þeir til náttúrulegra skógarjaðra, trjá- og runnabelta sem víða getur að líta í búsetulandslagi Danmerkur. Þar mynda margar tegundir eina heild og ef sjúkdómar eða óværa leggjast á eina tegund fylla aðrar í skarðið.
Markmiðið með nýrri gerð skjólbelta er að rækta belti sem sameina skjótan vöxt og langan lífaldur. Í skjólbeltum á að vera blanda af langlífum, stórvöxnum stofntrjám sem eru megintré beltisins, hraðvaxta fósturtegundum og langlífum, skuggþolnum og skuggavarpandi runnum sem plantað er í þriggja raða belti, eða í fjölraða belti á mjög vindasömum stöðum,“ segir Samson.
Tilraunir með nýja gerð skjólbelta
Samson segir að heildstæð áætlun af þessu tagi hafi ekki verið unnin fyrir skjólbeltarækt á Íslandi en að teikn séu á lofti varðandi aukinn áhuga á að nota fleiri tegundir trjáa og runna í skjólbeltum landsins.
„Enn sem komið er ræður þó víðirinn ríkjum í skjólbeltaræktinni þótt runnar eins og rifs, sólber og yllir hafi aðeins verið að ryðja sér til rúms á síðustu árum. Ég tel mjög mikilvægt að stefnt sé að mun meiri notkun runnategunda annarra en víðis í skjólbeltaræktun og ekki síst að nota meira af endingarbetri trjátegundum.
Til þess að átta sig betur á því hvers konar tegundir þarf til ræktunar endingargóðra skjólbelta, er nauðsynlegt að kanna umhverfið sem skjólbelti mynda, hvaða hlutverk mismunandi plöntur hafa í uppbyggingu skjólbelta og hvers konar veðurfars- og jarðvegsaðstæður eru á hverjum stað.
Yndisgróður gróðursetti árið 2008 tilraunabelti á Hvanneyri í Borgarfirði og á Suðurlandi. Árið 2014 var gróðursett sýnibelti við starfsstöð Vesturlandsskóga á Hvanneyri. Þar má sjá ýmsar tegundir sem gætu reynst vel í skjólbeltarækt, til dæmis elri, reynir, ösp, selju, glótopp, garðakvistil, rifs, fjallarós, loðvíði og bersarunna,“ segir Samson Bjarnar Harðarson að lokum.