Skjót viðbrögð ráðherra
Smáframleiðendur munu ekki þurfa að sækja um sérstakt starfsleyfi til heilbrigðiseftirlits til að geta tekið þátt í matarmarkaði, öðlist drög að breytingu að reglugerð gildi.
Í síðasta tölublaði Bændablaðsins skrifaði Oddný Anna Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka smáframleiðenda matvæla, grein þar sem hún gagnrýndi þá túlkun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur á lögum um matvæli að þeim sé skylt að krefjast þess að framleiðendur forpakkaðra matvæla þurfi að sækja um tímabundið starfsleyfi til að taka þátt í matarmarkaði. Matvælaráðuneytið hefur nú kynnt til samráðs í Samráðsgátt drög að breytingu á reglugerð um framleiðslu og markaðssetningu aðila undir smáræðismörkum. Lagt er til að sú reglugerð gildi einnig um sölu matvælaframleiðenda sem hafa gilt starfsleyfi frá sínu heilbrigðisumdæmi á forpökkuðum matvælum á matarmörkuðum þar sem skipuleggjendur/ ábyrgðaraðilar markaðarins eru með leyfi frá heilbrigðiseftirlit svæðisins fyrir viðburðinum. Er það í takt við tillögu sem Oddný Anna segir að Samtök smáframleiðenda hafi lagt til í tölvupósti til ráðuneytisins og í samræmi við það sem fulltrúar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sögðust einnig hafa lagt til. Hægt er að senda til umsagnir til 26. október.