Skoða háa tíðni tvílembinga í íslensku sauðfé
Hlutfallslegur fjöldi tvílembinga er rannsóknarefni tveggja franskra búvísindamanna sem staddir voru hér á landi fyrir skömmu. Frakkarnir segja að tíðni tvílembinga, miðað við ein- og þrílembinga, hjá íslensku sauðfé sé einstök og fallþungi lamba því hagstæður.
Frakkarnir Lous Bodin og Jerome Raoul, sem báðir starfa að rannsóknum sem lúta að erfðafræði og frjósemi búfjár fyrir INRA – landbúnaðarstofnun Frakka í Toulouse, segja hið háa hlutfall tvílembinga í íslenska sauðfjárstofninum einstakt og þeir hafi komið til landsins til að kynna sér það.
Þeir Bodin og Raoul voru hér í fylgd dr. Ólafs Dýrmundssonar, fyrrverandi ráðunautar hjá Bændasamtökum Íslands, og heimsóttu meðal annars íslenskt sauðfjárbú. Einnig sátu þeir fund með Eyjólfi Ingva Bjarnasyni og Eyþóri Einarssyni hjá RML ásamt fleirum.
Í Frakklandi er að finna um fimmtíu sauðfjárkyn.
Íslenskt sauðfé ólíkt fé í Evrópu
„Við störfum báðir að rannsóknum sem lúta að bættri frjósemi og auknum fallþunga sauðfjár í Frakklandi. Frjósemi sauðfjár í Frakklandi er óhagstæðari þegar kemur að afurðum eftir hverja á en á Íslandi. Á Íslandi er hlutfall tvílembinga mun hærra en í Frakklandi. Auðvitað bera franskar ær tvílembingum en tíðni ein- og þrílembinga er mun hærri en á Íslandi og þar af leiðandi er meðalfallþungi franskra lamba minni en þeirra íslensku.
Það kom á óvart þegar við fórum að skoða gögn um íslenska sauðfjárstofninn hversu einsleitur hann er þegar kemur að fjölda lamba við burð. Tilgangurinn með heimsókn okkar til Íslands er því að læra meira um íslenska sauðfjárstofninn og hvers vegna það er eins mikill munur á honum og frönskum og evrópskum sauðfjárstofnum sem við höfum borið hann saman við.
Hugmyndin er því sú að reyna að komast að því hvað veldur þessum góðu kostum. Eru það erfðir eða aðrir þættir eins og umhirða og fóðrun eða allir þessir þættir í senn?“ segir Bodin.
Um 50 sauðfjárkyn í Frakklandi
Raoul segir að sauðfjárkyn í Frakklandi séu tæplega fimmtíu og að frjósemi og fjöldi lamba sé misjafn milli stofnanna.
„Meðalfjöldi lamba er frá því að vera 1,2 og upp í 2,3 lömb á hverja á. Við erum líka með nokkra stofna til mjólkur- og ostaframleiðslu. Á síðasta áratug eða svo hefur okkur tekist að auka fallþunga og framleiðslu nokkurra stofna bændum til hagsbóta enda framleiðslumagnið það sem skiptir mestu þegar kemur að tekjum bænda. Vandamálið er aftur á móti það að ræktunarstarfið hefur leitt til þess að ærnar bera fleiri þrílembingum og þeir koma ekki eins vel út hvað varðar vigt og tvílembingar og eru fyrirhafnarsamari á sauðburði.“
Einangrun og náttúruval
Bodin og Raoul segjast vona að með heimsókninni takist þeim að skapa sér betri mynd af sauðfjárrækt hér á landi og átta sig betur á hvaða þættir í ræktuninni og eldinu hafa mest áhrif á fjölda tvílembinga og hvort við getum beitt sömu aðferðum heima í Frakklandi.
Að sögn Raoul er íslenskt sauðfé einstakt hvað einsleitni í fjölda fæddra lamba varðar. „Hugsanlega er ástæðan sú að íslenskt fé hefur verið einangrað hvað erfðablöndun varðar frá landnámi og að náttúruval hafi eitthvað með þessa þróun að gera.“
Annar fengitími
„Annað sem er áhugavert við íslenskt fé er að fengitími þess er töluvert annar en hjá evrópsku fé, eða öllu heldur öllu öðru fé sem við þekkjum í heiminum,“ segir Bodin. „Sé farið frá suðri til norðurs styttist fengitíminn. Við miðbaug nær fengitími sauðfjár yfir allt árið en hann styttist eftir því sem fjær dregur miðbaug. Í norðanverðu Frakklandi og Belgíu er fengitíminn frá lok júlí og byrjun ágúst og fram í lok desember og byrjun janúar.
Fengitími sauðfjár á Íslandi er lengri en vænta mætti af legu landsins og stendur frá því í nóvember og fram í maí. Þetta er eitt af því sem okkar langar að skoða nánar og fá upplýsingar um hjá íslenskum sérfræðingum í sauðfjárrækt, einkum Ólafi. Er þetta arfbundið eða vegna annarra þátta?“
Viðmiklar erfðarannsóknir á sauðfé
Raoul segir að undanfarin ár hafi verið gerðar viðamiklar rannsóknir á erfðum sauðfjár í Frakklandi og annars staðar í heiminum og að hann voni að þær rannsóknir geti nýst Íslendingum í kynbótastarfi þeirra.
„Við höfum meðal annars gert rannsóknir sem miða að því að útrýma riðuveiki með hjálp erfðatækninnar og í dag er nánast allt sauðfé í Frakklandi ónæmt fyrir riðu. Ég hef heyrt að riða komi upp á Íslandi annað slagið en verið sé að útrýma henni. Vonandi geta rannsóknir okkar hjálpað til við það starf.“