Skordýr sem fóðurhráefni fyrir dýr
Íslenskt lið tók á dögunum í fyrsta sinn þátt í evrópskri nýsköpunarkeppni fyrir nemendur á sviði lífvísinda.
Um er að ræða hina evrópsku BISC-E-samkeppni háskólanemenda á sviði lífvísinda sem haldin var fyrr í mánuðinum og sendi Landbúnaðarháskóli Íslands (LbhÍ) lið í keppnina.
BISC-E stendur fyrir Bio-Based Innovation Student Challenge Europe og er nýsköpunarkeppni fyrir háskólanemendur sem eru að vinna með líffræðitengdar lausnir. Þetta árið sendu 15 lönd nemendur til keppninnar og þar keppti Ísland í fyrsta sinn.
Önnur lönd sem tóku þátt voru Írland, Frakkland, Þýskaland, Króatía, Tékkland, Grikkland, Belgía, Litáen, Ítalía, Lettland, Búlgaría, Slóvenía, Portúgal og Pólland, segir í tilkynningu frá LbhÍ.
Mjölormar og hermannaflugulirfur
Fyrst fóru fram keppnir innanlands milli nemendahópa, þar sem eitt lið frá hverju landi komst áfram í evrópsku samkeppnina. Að þessu sinni vann Rúna Þrastardóttir, doktorsnemi í skordýrarækt við LbhÍ, íslensku keppnina ásamt liðsfélögum sínum, Siv Lene Gangenes Skar, doktorsnema í ylrækt við LbhÍ, og Karli Ólafssyni, BSc-nema í verkfræði við Háskóla Íslands, með verkefnið skordýr sem fóður og fæði.
Verkefnið snýst um að framleiða mjölorma og svartar hermannaflugulirfur með notkun á grænni orku og mismunandi fóðri, þar á meðal brauðafgöngum sem falla til í bakaríum, bjórhrati og lúpínufræjum og nýta skordýrin sem fóðurhráefni fyrir dýr.
Markmið verkefnisins er að stuðla að minni matarsóun og þar með minni útblæstri gróðurhúsalofttegunda, hefta útbreiðslu Alaskalúpínu á Íslandi og þar með auka líffjölbreytni, og enn fremur auka matvælaöryggi í Evrópu.
Hvetja til þátttöku í BISC-E
Þeim nemendum sem komust áfram frá hverju landi var boðið að taka þátt í námskeiði þar sem farið var yfir hvernig kynna á nýsköpun fyrir fjárfestum, hvernig á að vekja áhuga þeirra og sannfæra um fýsileika fjárfestingar í viðkomandi verkefni.
Dómnefnd valdi 5 lið til þess að halda áfram keppni 28. september. Því miður komst Ísland ekki áfram í 5-liða úrslitin að þessu sinni.
Rúna og lið hennar voru afar ánægð með þátttökuna og reynsluna og hvetja háskólanemendur til þátttöku í BISC-E 2024. Opið er fyrir skráningar liða til loka október 2023.
Allar nánari upplýsingar má finna á vefsíðunni www.bisc-e.eu.