Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Fréttir 4. október 2018
Smáframleiðendur og bændur koma með vörur sínar í þéttbýlið
Höfundur: smh
Milliliðalaus sala á matvælum færist í vöxt. Ein birtingarmynd þess er svokölluð REKO-hugmyndafræði sem rekin er í gegnum Facebook-hópa. Laugardaginn 13. október ætla bændur, heimavinnsluaðilar og smáframleiðendur á Suðvesturlandi að leggja leið sína í þéttbýlið og afhenda kaupendum vörur sínar sem þeir hafa lagt inn pantanir fyrir í gegnum Facebook-hópana REKO Reykjavík og REKO Vesturland sem voru nýlega stofnaðir.
REKO er tekið úr sænsku og er stytting á „vistvænir og heiðarlegir viðskiptahættir“. Matarauður Íslands – í samvinnu við Bændasamtök Íslands - hefur unnið að því að koma REKO-hugmyndafræðinni af stað hér á landi og eru nú að myndast hópar um land allt.
Markaðstorgið er í Facebook-hópnum
Stjórnendur hópanna, þær Arnheiður Hjörleifsdóttir bóndi (REKO Reykjavík) og Hlédís Sveinsdóttir hjá Matarauði Vesturlands (REKO Vesturland), vinna að skipulagningu viðburðanna í samvinnu við Oddnýju Önnu Björnsdóttur ráðgjafa sem vinnur að verkefninu fyrir Matarauð Íslands.
Að sögn Oddnýjar er enn tími fyrir bændur og framleiðendur að taka þátt. „Hægt er að selja allar tegundir löglegra matvara eins og kjöt, fisk, egg, sjávarfang, grænmeti, brauð og kökur, osta, sultur og sælgæti. Í hvorum hóp fyrir sig hefur verið stofnaður sérstakur viðburður fyrir fyrstu afhendinguna, en planið er að hafa slíka viðburði reglulega. Hve reglulega mun fara eftir framboði og eftirspurn.
Fyrirkomulagið er þannig að framleiðendur setja inn færslur inn í þá viðburði sem þeir vilja taka þátt í þar sem þeir tilgreina hvað þeir hafi í boði og hvað það kosti. Undir hverja færslu setja áhugasamir kaupendur inn athugasemd þar sem þeir tilgreina hvað þeir vilji kaupa og hve mikið. Þeir geta einnig gert það í einkaskilaboðum til framleiðenda.
Kaupendur greiða framleiðendunum svo rafrænt fyrir það sem þeir ætla að kaupa – fyrir afhendingardaginn. Á afhendingardeginum afhenda framleiðendur kaupendum síðan vörurnar milliliðalaust,“ segir Oddný.
Milliliðalaus viðskipti
Tilgangurinn með REKO er að efla nærsamfélagsneyslu og færa framleiðendur og kaupendur nær hver öðrum; gera matarhandverki og heimavinnslu hærra undir höfði og færa smáframleiðendur ofar í virðiskeðjunni. Fyrsta afhending REKO Vesturlands verður laugardaginn 13. október klukkan 11-12 á bílaplani Krónunnar á Akranesi og REKO Reykjavík sama dag klukkan 13-14 á bílaplani Krónunnar í Lindum. Sömu framleiðendur geta tekið þátt í báðum hópum.
Þeir framleiðendur sem hafa áhuga á að taka þátt, eða vilja nánari upplýsingar, geta haft samband við þær Hlédísi, Arnheiði eða Oddnýju í gegnum Facebook.
Neðangreindir framleiðendur höfðu boðið vörur til sölu og afhendingar laugardag 13. október þegar blaðið fór í prentun.
REKO Reykjavík framleiðendur:
-
Korngrís frá Laxárdal með svínakjöt.
-
Lindarbrekka með kálfakjöt og fleira.
-
Sauðfjárbúið Ytra-Hólmi með lamba- og kindakjöt.
-
Súrkál fyrir sælkera.
-
Litla gula hænan með kjúkling.
-
Mýrarnaut með nautakjöt.
-
Ragnheiður Hallgrímsdóttir með heimagerðan brjóstsykur.
-
Bjarteyjarsandur með lambakjöt og fleira.
REKO Vesturland framleiðendur:
-
Matarhandverk Fram-Skorradal. Með birkireyktan silung, sultur og salza.
-
Sauðfjárbúið Ytri-Hólmi. Kofareykt sveitabjúga, kindahakk og fjölbreytt úrval lambakjöts.
-
Súrkál fyrir sælkera. Fimm gerðir af ljúffengu súrkáli. Klassískt með kúmeni og lauk, Curtido, Kimchi, karrýkál og sítrónukálið ljúfa.
-
Lindarbrekka. Alikálfakjöt, kálfahakk, grísakjöt, landnámshænuegg, hrútaberjahlaup og handgerður brjóstsykur.
-
Bjarteyjarsandur. Kindabjúgu ömmu Kollu, kryddað lambafillet, úrbeinað og fyllt lambalæri, kindahakk, birkireyktur bláberjabiti, grafinn geitavöðvi og heimagert mintuhlaup.
-
Mýranaut. Nautasteikur, ribeye, sirlon, entrecote og innralæri.
-
Hjarðarfellsbúið. Hamborgarar af snæfellsku nauti.
Sauðfjárbúið Ytra-Hólmi býður upp á kofareykt sveitabjúga, kindahakk og fjölbreytt úrval lambakjöts. Mynd / Sauðfjárbúið Ytra-Hólmi