Staðfest að svínapest hefur fundist innan landamæra Þýskalands
Þjóðverjar hafa staðfest að fyrsta tilfellið af afrísku svínapestinni hafi fundist í landinu. Julia Klöckner landbúnaðarráðherra Þýskalands greindi frá þessu í gær, fimmtudaginn 10. september, en þá fannst hræ af smituðum villigelti í Ríkinu Brandenburg í austurhluta Þýskalands.
Þjóðverjar líta málið mjög alvarlegum augum, enda hefur svínapestin leikið svínarækt í mörgum ríkjum grátt, en þó hvergi eins illa og Kína þar sem 120 milljónir svína hafa drepist frá því veikin fannst þar fyrst í ágúst 2018. Það er meira en þriðjungur af svínastofninum í Kína. Svínapestarvírusinn hefur nú fundist í 10 Evrópulöndum. Þýskaland er langstærsti svínakjötsframleiðandinn í álfunni og stærsti útflytjandi í álfunni á svínakjöti til Kína og hefur flutt þangað yfir 5 milljónir tonna af svínakjöti á ári.
Stutt frá pólsku landamærunum
Hræið af smitaða villigeltinum sem fannst í Þýskalandi var í 6 km fjarlægð frá pólsku landamærunum og í um 30 km fjarlægð frá þeim stað sem slíkt smit var síðast staðfest í Póllandi. Sýni úr hræinu var tekið til rannsóknar hjá rannsóknastofu Loeffler stofnunarinnar í Þýskalandi sem staðfesti að um afrísku svínapestina (AFS) væri að ræða.
Landbúnaðarráðuneyti Þýskalands hefur sett af stað hæsta viðbúnaðarstig enda talið erfitt að koma í veg fyrir útbreiðslu veikinnar í Þýskalandi með villtum svínum. Danir höfðu áður brugðist við með því að reisa sérstaka girðingu á landamærunum að þýskalandi sem á að koma í veg fyrir að vilt svín frá Þýskalandi ráfi yfir landamærin.