Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Sýningarsvæði EuroTier í Hanover í Þýskalandi samanstendur af á þriðja tug sýningarhalla. Þetta sýningarsvæði er nýtt undir fjölmargar aðrar sýningar árlega eins og landbúnaðartækjasýninguna Agri Technica.
Sýningarsvæði EuroTier í Hanover í Þýskalandi samanstendur af á þriðja tug sýningarhalla. Þetta sýningarsvæði er nýtt undir fjölmargar aðrar sýningar árlega eins og landbúnaðartækjasýninguna Agri Technica.
Fréttir 5. desember 2016

Stærsta EuroTier-sýning frá upphafi

Höfundur: Snorri Sigurðsson sns@seges.dk Sviðsstjóri hjá SEGES P/S Danmörku
Hin heimsþekkta landbúnaðar­sýning EuroTier var haldin dagana  15.-18. nóvember sl. í Hannover í Þýskalandi. Sýning þessi er einstök í heiminum og sú langstærsta sem haldin er þegar horft er til tæknibúnaðs er varðar hefðbundna búfjárrækt. 
 
Langumsvifamestu greinar sýningarinnar eru alifugla-, svína- og nautgriparækt en einnig var gaumur gefinn að öðrum búfjárkynjum. Sýningin hefur aldrei verið stærri en í ár en alls voru 2.629 sýnendur frá 58 löndum með bása á sýningunni á 283 þúsund fermetra svæði. Á sýningunni var sett nýtt að-göngumet, en alls sóttu 163 þúsund gestir sýninguna heim að þessu sinni! Flestir gestanna voru að sjálfsögðu Þjóðverjar en erlendir gestir voru þó rúm 20% eða um 36 þúsund, þar af voru margir Íslendingar meðal gestanna.
 
Fjölbreytt að vanda
 
Þó svo að mest áhersla sé á innréttingar og tækjabúnað fyrir alifugla, svín og nautgripi er mikil áhersla einnig á aðra þætti framleiðslunnar. Þar á meðal var þáttur fóðurefna ýmiskonar umfangs-mikill, sem og kynningar á lyfjum og allskonar skömmtunarbúnaði bæði fyrir lyf og bætiefni. Ennfremur voru á sýningunni haldnir margar framsögur og fundir en þessi þáttur í starfseminni hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár, enda upplagt að bjóða bændum og gestum upp á fróðleik og fundahöld þegar þeir eru á annað borð komnir saman. Þá var tækni til bættrar nýtingar á mykju gefinn þónokkur gaumur auk þess sem sérstaklega var horft til margskonar tækni til orkuframleiðslu heima á búunum.
 
25 gull- og silfurverðlaun
 
Það er næsta ómögulegt að gera lesendum Bændablaðsins grein fyrir sýningunni með einföldum hætti enda umsvif hennar slík að taka þyrfti í raun mörg blöð undir umfjöllun ef vel ætti að vera en með þó má bera niður þar sem helstu nýjungar sýningarinnar voru kynntar. 
 
Allir sýnendur geta nefni-lega tilnefnt tæki sín eða tól til sýningarnefndar og óskað eftir því að fá annað hvort gull viðurkenn-ingu, silfur eða brons. Þetta er gert til þess að draga fram nýjungina sem felst í viðkomandi tæki eða tóli en séu veitt gullverðlaun þýðir það að um frumsýningu er að ræða og séu silfurverðlaun veitt þá þýðir það að um verulega nýjung er að ræða. Í ár voru veitt 4 gullverðlaun og 21 silfurverðlaun fyrir nýjungar á þessari sýningu.Gullverðlaunin runnu öll til nýjunga á sviði nautgriparæktar:
 
1. Nýburastía
 
Hollenska fyrirtækið Spinder fékk gullverðlaun fyrir nýjung sína „The Cuddle Box“ eða sem e.t.v. mætti kalla nýburastíu sem þó er varla nógu lýsandi en um er að ræða litla stíu sem er fyrir nýfæddan kálfinn. 
Þegar kýrin ber í burðarstíunni er kálfurinn settur beint í þessa stíu og þar getur kýrin karað hann. Stían er svo tekin með liðléttingi og kálfurinn færður yfir í þá aðstöðu þar sem aðrir smákálfar eru haldnir.
 
Erlendis tíðkast víða að taka kálfana beint frá kúnum til þess að draga úr líkum á því að kálfarnir fái einhverja sýkingu úr umhverfinu. Kostir þess að kýrin kari kálfinn eru hins vegar ó-tvíræðir og því kom Spinder með þessa nýjung. Kálfurinn er í raun í einangrunarboxi sem kýrin kemst þó að til þess að kara kálfinn. Hluti af þessari uppfinningu er færanleg innri hliðgrind í stíunni, sem gerir bóndanum mögulegt að setja kúna í aðhald án aðstoðar.
 
2. Snjallt umhirðukerfi fyrir smákálfa
 
Þýska hátæknifyrirtækið Förster-Technik fékk gullverðlaun fyrir áhugaverða nýjung sem er eins-konar heildarlausn fyrir umhirðu með smákálfum og kallast „Smart Calf System“. 
 
Um þrenns konar nýjungar er að ræða. Í fyrsta lagi hefur fyrirtækið breytt kálfafóstrunni þannig að þegar kálfurinn hefur drukkið skammtinn sinn, hvolfist túttan niður í þvottaskál þar sem túttan er þrifin og bíður svo þar í vari þar til kálfur með drykkjarheimild mætir á ný í fóstruna. Þá kemur túttan upp aftur og næsti kálfur fær að drekka. Þetta dregur úr álaginu á túttuna og búnaðinn auk þess að hreinlætið við mjólkurgjöfina eykst umtalsvert.
 
Í öðru lagi eru hálsbönd kálfanna með ljósbúnaði en hafi kálfurinn ekki drukkið skammtinn sinn fer rautt ljós að blikka á kálfinum og því fer það ekki á milli mála að bregðast þarf við. 
 
Í þriðja lagi fylgist tölvubúnaður Förster-Technik með drykkjaratferli kálfanna og skráir hve mikið vatn þeir drekka. Hér er einnig fylgst með því að kálfarnir komi og drekki og ef svo er ekki, fer rauða ljósið að blikka. Allt eftirlit verður með öðrum orðum mun auðveldara en ella með þessum áhugaverða búnaði frá Förster-Technik.
 
3. Heilfóðurvaktin
 
Gullverðlaun EuroTier féllu ítalska fyrirtækinu Dinamica Generale í skaut en hér er á ferðinni einkar áhugaverð nýjung sem felst í því að meta með stafrænum hætti hve vel heilfóðurblandari hefur blandað saman fóðrinu fyrir kýrnar. 
 
Kerfið byggir á þekktri stafrænni myndavélatækni, sem m.a. er notuð í kjötiðnaði þegar t.d. nautahakk er blandað svo tryggja megi jöfn gæði hakksins. Ítalirnir hafa hins vegar þróað tæknina áfram og er búnaðurinn festur á hlið heilfóðurblandarans. Myndavélin „horfir“ svo inn í fóðrið og metur stubbalengd stráanna. 
 
Þegar réttri meðallengd er náð, stöðvast blöndunin ef um rafrænan blöndunarbúnað er að ræða, ella lætur tækið vita að nú sé fóðrið fullblandað. Fyrir vikið fá kýrnar svo til alltaf jafn vel blandað fóður og því verða fóðurbreytingarnar af völdum ólíkrar blöndunar a.m.k. úr sögunni. Þó svo að ítalska tækið sé ekki gríðarlega nákvæmt enn sem komið er, þá er tæknin vissulega áhugaverð og hér er stigið nýtt skref í átt að enn nákvæmari og betri fóðrun mjólkurkúa.
 
4. TARSA gúmmímottan
 
Síðustu gullverðlaunin og þau fjórðu hlaut þýska fyrirtækið Kraiburg en það þekkja margir enda eru gúmmímottur frá Kraiburg í mörgum básafjósum hér á landi. 
 
Kraiburg er að heita má leiðandi á sviði gúmmímottuframleiðslu en hefur misst nokkuð markaðshlutdeild eftir að dýnur í legubása skutu upp kollinum fyrir hálfum öðrum áratug. Þeir sem þekkja dýnurnar vita hins vegar að ending þeirra er ekki mikil og á 8-10 árum er fjöðrunin oftast farin úr dýnunum eða yfirborðsdúkurinn slitinn upp. 
 
Nú telja forsvarsmenn Kraiburg sig hafa leyst málið með TARSA gúmmímottunni sem er samsett úr þremur mismunandi lögum af gúmmíi og svampi. Þá er aftasti hluti mottunnar sérstaklega hannaður með það fyrir augum að halda undirburðinum á mottunni en um leið að skapa kúnum gott og eftir-gefanlegt legusvæði. Þessar mottur eru augljóslega spennandi valkostur í fjós með legubása enda með mýkt hefðbundinna dýna en slitstyrk og endingu gúmmímottunnar.
 
Næsta EuroTier verður haldin í Hannover frá 13. til 16. nóvember 2018.
 
Snorri Sigurðsson
sns@seges.dk
Sviðsstjóri hjá SEGES P/S
Danmörku

9 myndir:

Skylt efni: EuroTier

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...