Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Stefnir í alvarlegt ástand á svínabúum
Fréttir 30. apríl 2015

Stefnir í alvarlegt ástand á svínabúum

Höfundur: smh
Sem kunnugt er hafa verkföll félaga í stéttarfélögum innan BHM haft víðtæk áhrif á starfsemi bænda og úrvinnslugreinar landbúnaðarins frá því að þau hófust aðfaranótt mánudagsins 20. apríl. Áhrifamest, á störf tengdum landbúnaði, eru verkföll dýralækna, matvælafræðinga og líffræðinga. Engar undanþágur hafa til að mynda verið veittar til slátrunar svína.
 
Allt eftirlit í frumframleiðslu og með matvælafyrirtækjum sem framleiða búfjárafurðir stöðvaðist þegar verkfall hófst, þar með talin mjólkurframleiðsla. Einnig eftirlit með heilbrigði, aðbúnaði og velferð dýra og áburði og fóðri. Eftirlit í sláturhúsi stöðvaðist og þar með kjötframleiðsla, auk út- og innflutnings lifandi dýra og dýraafurða. Eftirlit með sjúkdómum í fiskeldi og með plöntuheilbrigði stöðvaðist einnig.
Á meðan verkfall stendur yfir er því ekki heimilt að slátra og hefur það verst komið niður á alifugla- og svínabændum, þar sem fljótlega fór að þrengjast um gripina á búunum. Sótt var um undanþágur frá fyrsta degi og fengu alifuglabú heimild til að slátra á föstudaginn síðastliðinn, þó með þeim skilyrðum að kjötið færi ekki á markað. Alifuglakjötið er því sett beint í frystigeymslur þegar fuglunum hefur verið slátrað. Engar undanþágubeiðnir svínabænda hafa hins vegar verið samþykktar. 
 
Hörður Harðarson, formaður Svínaræktarfélags Íslands, segir að undanþágubeiðnir liggi fyrir hjá undanþágunefnd, um að slátrun verði leyfð öðru hvorum megin við næstu helgi. Staðan á búunum sé orðin mjög alvarleg og til marks um það nefnir hann að frá því að verkfall skall á hafi undir venjulegum kringumstæðum verið búið að slátra 3.500–4.000 gripum á búunum.
 
Deyðum ekki heilbrigð dýr til urðunar 
 
Hann tekur illa í hugmyndir frá Dýralæknafélaginu um að svínabændur geti vel grisjað sjálfir á búum sínum. „Það hefur verið bent á það að svínabændur hafi reynslu af því að lóga dýrum. Allir bændur hafa reynslu af því að þurfa að grípa til þess að lóga dýrum, sem eru ýmist veik eða hafa orðið fyrir slysum eða eitthvað þvílíkt. Það er þá fyrst og fremst gert til þess að lina sársauka og kvalir. En að ætla okkur að tína til einhvern tiltekinn fjölda grísa sem eru heilbrigðir, bara til að rýmka til í húsunum, finnst mér bara ekki koma til greina. 
 
Vandamálið núna inni á búunum er að við erum með of mikið af fullvöxnum dýrum, dýrum sem eru tilbúin að fara til slátrunar í sláturhúsi. Auðvitað er þetta spurning um velferð dýra og þá þurfum við undanþágu til að fá að slátra þeim gripum sem nauðsynlegt er að senda í sláturhús. Það er von okkar að deiluaðilar nái saman svo vandamálið verði úr sögunni. Við hvetjum til þess að báðir aðilar skynji þá ábyrgð sem á þeim hvílir og leggi sig fram um að leysa deiluna. Ég hugsa að ég myndi frekar setja dýrin út. Við deyðum ekki heilbrigð dýr til urðunar.“
 
Verkfallið nær til meira en helmings starfsmanna Matvælastofnunar, en forstjóri Matvælastofnunar og yfirdýralæknir eru þó undanþegnir verkfalli. Í undanþágunefndum sitja tveir fulltrúar frá hvorum deiluaðila; í tilfelli undanþágubeiðna frá alifugla- og svínabændum eru fulltrúar frá Dýralæknafélaginu og ríkinu. Til að undanþága sé heimiluð verða fulltrúarnir báðir að vera samþykkir. Jón Gíslason, forstjóri Matvælastofnunar, segir að undanþágubeiðnir hafi einnig borist  Félagi íslenskra náttúrufræðinga, vegna innflutnings á lífrænum vörnum og fræjum – til nota í garðyrkju – en þeim hafi verið hafnað og það sé endanleg ákvörðun.
 
Hluti af starfsemi Mjólkursamsölunnar stöðvast í dag
 
Pálmi Vilhjálmsson, fram­kvæmda­stjóri framleiðslusviðs Mjólkursamsölunnar, segir að áhrifa verkfalls Starfsgreinasambandsins muni gæta hjá fyrirtækinu á hádegi í dag, fimmtudag. Akstur með mjólk stöðvast þá og eins leggur fólk sem vinnur á afurðastöðvunum utan höfuðborgarsvæðisins niður störf. Neytendur verða til að byrja með ekkert varir við þessi verkföll. Í næstu viku, þegar boðað hefur verið til verkfalla dagana 6. og 7. maí, mun einnig verða rask á akstri og vinnslu á mjólk á landsbyggðinni. Starfsfólk á höfuðborgarsvæðinu er innan Eflingar en þar hefur ekki enn verið boðað til verkfalls.“
Pálmi segir að verslanir eigi þann kost að birgja sig upp af mjólk, en fyrst og fremst valdi þetta erfiðleikum í starfsemi Mjólkursamsölunnar. „Það verður mjög krefjandi að komast í gegnum það að stoppa í tvo heila sólarhringa. Við munum ekki lenda í vandræðum með mjólkurframleiðslu í þessa daga og bændur ættu ekki að lenda í neinu tjóni af þessum sökum. Hins vegar verður allt saman stopp ef það kemur til þessarar ótímabundnu allsherjar vinustöðvun aðfaranótt 26. maí,“ segir Pálmi.
 
Mikilvægt að leysa kjaradeiluna
 
Bændasamtök Íslands sendu frá sér tilkynningu síðasta mánudag vegna þeirrar stöðu sem komin er upp í ákveðnum búgreinum. Þar fagna samtökin því að undanþágunefnd BHM hafi síðastliðinn föstudag samþykkt að veita undanþágur frá verkfalli dýralækna, svo að alifuglaslátrun gæti farið fram. „Samtökin líta svo á að með því hafi verið brugðist við þeim alvarlega dýravelferðarvanda sem kominn var upp í alifuglaræktinni, þar sem slátrun verður að fara fram jafnt og þétt. Sé það ekki gert verður á skömmum tíma of þröngt í eldishúsum fuglanna, sjúkdómahætta eykst verulega og almennri velferð dýranna er hætta búin.  Sambærileg staða kemur upp í svínarækt strax í þessari viku, en engar undanþágur hafa verið veittar í þeirri grein. Frá upphafi verkfalls hafa sláturleyfishafar sótt um undanþágur á grundvelli dýravelferðar, eins og skýrt kemur fram í umsóknum sem liggja fyrir hjá Matvælastofnun.
 
En þó svo að undanþága sé veitt fyrir slátrun má ekki að svo stöddu setja vörurnar á markað heldur eingöngu í frystingu. Slátrun án markaðssetningar þýðir að bændur fá ekki greitt fyrir afurðir sínar. Slíkt leiðir fljótt til mikils vanda í rekstri búanna og veldur þeim verulegu og óafturkræfu tjóni, hvern einasta dag sem verkfallið stendur. 
 
Bændasamtökin leggja því þunga áherslu á að deiluaðilar gangi til samninga sem allra fyrst. Vandinn vex með hverjum deginum sem verkfallið stendur og getur valdið óbætanlegu tjóni fyrir íslenskan landbúnað ef það dregst á langinn,“ segir í tilkynningunni. 
Jólakveðja
Fréttir 24. desember 2024

Jólakveðja

Ritstjórn Bændablaðsins óskar lesendum um land allt gleðilegra jóla og farsældar...

Lækkað áburðarverð
Fréttir 23. desember 2024

Lækkað áburðarverð

Fyrsta áburðarverðskráin hefur verið gefin út fyrir næsta ár.

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum
Fréttir 23. desember 2024

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum

Auðvelt er að gera sinn eigin „harðfisk“ heima í eldhúsi úr flökum smáfisks. Flö...

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...