Svínakjötsskandall í Danmörku
Nýlega komst upp um danskan kjötsala sem hefur selt framleiðslu sína sem afurðir af grísum sem velferðargrís þrátt fyrir að um hefðbundið grísaeldi væri að ræða.
Á skömmum tíma hefur komist upp um tvö kjötmisferli í Danmörku. Í febrúar síðastliðinn komst upp að kjötsalinn Genz Kød hafi selt mikið magn af suður-amerísku nautakjöti sem innlenda framleiðslu.
Nú hefur komið í ljós að sami kjötsali hefur verið að selja veitingahúsum í Kaupmannahöfn mörg tonn af grísakjöti sem kjöt af svokölluðum velferðargrísum, þrátt fyrir að um hefðbundið eldi hafi verið að ræða.
Velferðargrís eru þeir grísir sem sagðir eru njóta betri umönnunar en grís í hefðbundnu eldi og margir eru tilbúnir að borga hærra verð fyrir í nafni dýravelferðar.
Matvælaeftirlit Danmerkur hefur farið fram á að Genz Kød viðurkenni svindlið og að málið verði rannsakað sem sakamál.