Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Syðra-Skörðugil í Skagafirði.
Syðra-Skörðugil í Skagafirði.
Mynd / Aðsend
Fréttir 23. september 2021

Þrjátíu ára gjöfult ræktunarstarf á Syðra-Skörðugili að enda komið

Höfundur: smh

Skorið verður niður um 1.500 fjár á Syðra-Skörðugili eftir að riðutilfelli var staðfest í kind, eftir að vart varð við veikindi hennar í heimalandasmölun fyrir göngur. Bærinn er talinn með betri ræktunarbúum á landinu í sauðfjárrækt, fengið margar viðurkenningar í gegnum árin. Það var til að mynda afurðahæsta sauðfjárbúið í Skagafirði með 300 ær eða fleiri á síðasta ári og átti einnig besta sláturlambahópinn, 400 lömb eða fleiri. 

Að sögn Elvars Einarssonar, bónda á bænum, hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvað verði gert þegar þeim verður aftur heimilt að byggja upp sauðfjárstofn.

„Við erum bara að jafna okkur eftir þetta áfall og fara í gegnum þetta hefðbundna ferli gagnvart ráðuneytinu í samvinnu við MAST,“ segir Elvar þegar hann er spurður um hvort hann sé búinn að átta sig á stöðunni.

„Við ætlum nú að ganga til samninga við ráðuneytið um að hefðbundið ferli fari í gang varðandi hreinsunarstarf og úttektir, við höfum ekki neitt val eða aðra möguleika,  við semjum til að eiga rétt á bótum til að mynda ef til þess kemur að við komum okkur upp nýjum stofni,“ segir hann.

Ósátt við reglugerðina

Ásamt sauðfjárræktinni eru þau Fjóla Viktorsdóttir, kona hans, og þrjú börn þeirra með hrossarækt. Þau  Elvar og Fjóla eru ósátt við reglugerðina frá 2001 sem unnin er við ákvörðun bóta, þær séu ósanngjarnar því fjárhagslegt tjón bænda sé gríðarlegt í tilfellum sem þessum.

Þau eru einnig afar ósátt við að ekki skuli vera lagt meira fjármagn í rannsóknir á riðu, það hafi ekkert verið gert almennilega í tugi ára. Þau telja að kortleggja þurfi svæðin þar sem hefur verið riða á árum áður og að þau svæði verði hreinsuð betur.

Fjóla Viktorsdóttir, Sigríður Elva, Viktoría Eik, Ásdís Ósk og Elvar Einarsson.

Óvíst um umfang ræktunar eftir tvö ár

„Við hjónin tölum bæði í þá átt að við ætlum að taka fé aftur. En hvort við förum aftur upp í 600 vetrarfóðraðar kindur er of snemmt að segja til um.  Við höfum bæði mjög gaman af sauðfé og eins dæturnar okkar þrjár, við vitum fátt skemmtilegra en að garfa í þessu ræktunarstarfi – spá og spekúlera. Þú sérð árangurinn hratt og miklu fyrr en í til dæmis hrossarækt. Sauðburðurinn er einnig okkar uppáhaldstími.

Við höfum fengið fjölmargar viðurkenningar fyrir ræktunarstarfið, nú síðast frá Félagi sauðfjárbænda í Skagafirði fyrir að vera afurðahæsta sauðfjárbúið í Skagafirði eftir hverja kind með svona stórt bú og með hæstu meðalvigtina, eða 19,1 kíló af um 800 lömbum. Við vorum einnig með besta veturgamla hrútinn og held ég geti sagt að við séum meðal þeirra fremstu á landinu,“ segir Elvar.

Síðast skorið niður fyrir 30 árum

Síðast var skorið niður á Syðra-Skörðugili fyrir um 30 árum, þegar faðir Elvars, Einar Gíslason, hélt utan um ræktunina. „Sá grunnur sem við byggðum á var kominn frá honum – hann á mikið í þessari velgengni okkar enda starfaði hann með okkur í þessu á meðan hann lifði og hafði gríðarlegan áhuga á ræktun sauðfjár.

Hann var mjög þekktur og virtur á meðal sauðfjárbænda og hrossabænda á landsvísu og starfaði sem ráðunautur í mörg ár. Var lengi bústjóri á tilraunabúinu Hesti í Borgarfirði á yngri árum og kom  meðal annars að innleiðingu á því byggingarlagi sem er í lömbum í dag; betri læri, betra bak og lágfættara fé. Hann fékk nú skammir fyrir það í upphafi, því menn höfðu efasemdir um að það gæti gengið í snjó og væri of lítið til að geta náð upp á garðana.  En við erum stolt af hans arfleifð í dag og það er sárt að þurfa að urða hans framlag í íslenskri sauðfjárrækt,“ segir Elvar Einarsson. 

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar
Fréttir 29. október 2024

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar

Slow Food Reykjavík hélt hátíð í garðskála Grasagarðs Reykjavíkur dagana 18. og ...

Dagur sauðkindarinnar
Fréttir 29. október 2024

Dagur sauðkindarinnar

Þann 12. október síðastliðinn var dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu haldi...

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins
Fréttir 29. október 2024

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins

Vala Valtýsdóttir er nýr formaður stjórnar Lífeyrissjóðs bænda. Aukaaðalfundur s...

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar
Fréttir 28. október 2024

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar

Skipulagsstofnun birti þann 18. október til umsagnar matsáætlun fyrir mat á umhv...

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu
Fréttir 28. október 2024

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu

Auka þarf innlenda matvælaframleiðslu um 45–55 prósent næstu þrjátíu árin til að...

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé
Fréttir 28. október 2024

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé

Innleiðing á verndandi og mögulega verndandi arfgerðum gegn riðu í sauðfé gengur...

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju
Fréttir 25. október 2024

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju

Umsóknum um styrki vegna útiræktunar grænmetis fækkaði um fimm frá fyrra ári.

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast
Fréttir 25. október 2024

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast

Kennitala Sláturhússins á Hellu hefur verið afskráð og verður reksturinn færður ...