Alvarlegir annmarkar á næringarráðleggingum
Óháð úttekt gagnrýnir aðferðarfræði og ályktanir um neyslu á rauðu kjöti og eggjum.
Þó nokkrir annmarkar eru á nýjum norrænum næringarráðleggingum (NNR) er kemur að neyslu á rauðu kjöti og eggjum. Misræmi gætir í ályktunum skýrslunnar miðað við þau gögn sem ráðleggingarnar byggja á.
Það kemur fram í niðurstöðum óháðrar úttektar sem bandaríska greiningarfyrirtækið EpiX Analytics framkvæmdi á nýjum norrænum næringarráðleggingum sem gefnar voru út í júní sl. Niðurstöður greiningarinnar lýsa aðferðafræði- legum göllum í vinnslu skýrslunnar, skorti á gagnsæi á aðferðafræði og forsendum ráðlegginganna. Þá er bent á ósamræmi milli forsenda og ráðlegginga.
Í úttektinni kemur fram að þau gögn sem ráðleggingarnar byggja á um heilsufarsáhrif neyslu á rauðu kjöti bendi ekki skýrt á 350 gramma hámarksneyslu á viku. Nýlegri rannsóknir styðji frekar mikilvægt hlutverk óunnins rauðs kjöts í hollu mataræði. Benda greinendur EpiX Analytics á að ráðleggingarnar hefðu allt eins getað verið 500 grömm á viku eða hærri.
Í úttektinni er einnig bent á mikið ósamræmi milli forsenda og ráðlegginga um eggjaneyslu. Forsendurnar sem sagt er frá í skýrslunni segi að hófleg neysla eggja væri hluti af heilbrigðu og umhverfisvænu mataræði en ráðleggingarnar sjálfar séu settar fram með öðru orðalagi. Mælt sé með 0–1 eggi á dag. Þrátt fyrir það segir í skýrslunni að takmarkaðar sannanir séu fyrir neikvæðum áhrifum neyslu á fleiri en einu eggi á dag.
Þá bendir úttektin á að allar vísindalegar niðurstöður séu háðar óvissu. Ekki sé hægt að setja fram vísindarannsóknir sem sannleika og til að forðast að ofmeta heilsufarsáhrif á neyslu ákveðinna fæðutegunda sé nauðsynlegt að gera grein fyrir óvissuþáttum. Úttektin segir að norræna næringarráðgjöfin geri ekki nógu mikið úr óvissuþáttum. Nefnt er sem dæmi að þær vísindarannsóknir sem hafi farið fram um neyslu á rauðu kjöti einkennist af skekkjum og töluverðri óvissu og erfitt geti verið að draga sterkar ályktanir út frá þeim.
Úttektin var gerð að beiðni MatPrat – markaðsstofu um kjöt og egg í Noregi, sem á þó ekki að hafa haft áhrif á vinnu greiningarfyrirtækisins. Í aðdraganda útgáfu nýrra norrænna næringarráðlegginga gagnrýndu norrænu bændasamtökin skort á vísindalegri aðferðafræði og gagnsæi við vinnslu ráðlegginganna.