Vekur furðu að auglýsa starf hjá RARIK ekki án staðsetningar
Stjórn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra segir það vekja furðu að starfsstöð verkefnisstjóra stærri framkvæmda hjá RARIK sem auglýst var laus nýverið skuli vera í Reykjavík en það er skýrt tekið fram í auglýsingu um stöðuna.
Stjórnin fjallaði um málið á fundi sínum í liðinni viku og segir það hafa vakið athygli að tiltekið sé að starfsstöð þessa starfsmanns skuli vera í Reykjavík. Einkum í ljósi þess að starfsemi RARIK fer öll fram á landsbyggðinni ef frá er talin starfsemi í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Reykjavík.
Allar framkvæmdir verða á landsbyggðinni
„Allar þær framkvæmdir sem nýr verkefnisstjóri mun hafa umsjón með verða því á landsbyggðinni. Þess vegna vekur það furðu stjórnar SSNV að föst starfsstöð í Reykjavík sé tiltekin í auglýsingunni en starfið ekki auglýst án staðsetningar. Þegar eru til staðar fjölmargar starfsstöðvar félagsins um land allt, m.a. á Blönduósi og Sauðárkróki auk ný aflagðrar starfsstöðvar á Hvammstanga,“ segir í bókum samtakanna.
Skora samtökin á stjórn RARIK að endurskoða fasta staðsetningu starfa í Reykjavík og auglýsa þess í stað störf án staðsetningar. „Þannig stuðlar félagið að áframhaldandi uppbyggingu starfsstöðvar sinna á landsbyggðinni, þar sem viðskiptavinir þess eru staðsettir.“
Stjórn SSNV hefur ályktað um flutning höfuðstöðvar RARIK og bent á Sauðárkrók í þeim efnum auk þess að efla starfsstöðvar víðar í fjórðungnum.