Verðmætar vikurnámur
Í síðasta mánuði var skrifað undir samning um nýtingu vikurnáma í Búrfelli í Skeiða og Gnúpverjahreppi. Sveitarstjóri segir samninginn tímamót.
„Ég tel mig geta fullyrt að aldrei áður hefur verið gerður jafn verðmætur samningur í sveitarfélaginu um nýtingu á námuréttindum,“ segir Haraldur Þór Jónsson, sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps.
Samningurinn gildir í allt að 15 ár og skilar að lágmarki 372 milljónum króna á samningstímanum fyrir efnis- tökuna. Lágmarksmagn efnistöku er 80.000 rúmmetrar á ári en að hámarki 300.000 rúmmetrar. Verði samningurinn fullnýttur getur hann að hámarki skilað tæplega 1,4 milljörðum króna. Námurnar eru innan þjóðlendu og var því samningurinn gerður í samráði við forsætisráðuneytið.
„Verði samningurinn fullnýttur má gera ráð fyrir að lítið verði eftir í námunni, þannig að þetta er ekki ótakmörkuð auðlind.
Það hefur verið tekið efni úr þessari námu í áratugi og mjög litlar tekjur komið til sveitarfélagsins á þeim tíma. Því er þetta mikið ánægjuefni að nærsamfélagið og þjóðlendan fari að njóta ávinnings af efnistökunni,“ segir Haraldur Þór.