Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Jónas R. Viðarsson, faglegur leiðtogi hjá Matís. Þrjú alþjóðleg verkefni sem snúast um matarsvindl eru nú í gangi hjá Matís, FoodIntegrity, Authenticate og Authent-Net.
Jónas R. Viðarsson, faglegur leiðtogi hjá Matís. Þrjú alþjóðleg verkefni sem snúast um matarsvindl eru nú í gangi hjá Matís, FoodIntegrity, Authenticate og Authent-Net.
Fréttir 2. nóvember 2016

Verstu dæmin um vörusvik í matvælaiðnaði má hiklaust kalla skipulagða starfsemi

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Starfsmenn Matís taka þátt í fjölmörgum og athyglisverðum, alþjóðlegum rannsóknaverkefnum. Meðal verkefna sem unnið hefur verið að á undanförnum misserum má nefna rannsóknir sem snúast um fiskveiðistjórnun, brottkast á afla og matarsvindl sem svo hefur verið nefnt.
 
 Jónas R. Viðarsson, faglegur leiðtogi hjá Matís, segir að frá stofnun fyrirtækisins, 2007, hafi fjármögnun rannsóknaverkefna hér innanlands orðið erfiðari, auk þess sem samningur um kaup ríkisins á þjónustu Matís hafi rýrnað að verðgildi. Því hafi fyrirtækið ákveðið að auka áhersluna á alþjóðlegt samstarf og á þátttöku í stórum fjölþjóðlegum rannsóknaverkefnum en þó án þess að draga úr þátttöku sinni í ráðgjafar- og þjónustuverkefnum hér heima. 
 
Ávinningurinn er mikill
 
„Það kemur vel út að hafa þennan háttinn á, Ísland leggur til framlag inn í norrænar og evrópskar rannsóknaráætlanir, sem gerir það að verkum að íslensk fyrirtæki og stofnanir geta sótt í þessa sjóði og aukið alþjóðlegt samstarf.  Staðreyndin er sú að íslensk fyrirtæki og stofnanir eru að sækja töluvert meira fé út úr þessum sjóðum en sem nemur framlagi Íslands inn í sjóðina.  Ávinningurinn fyrir okkur er því mikill, bæði hvað varðar vísindalega framþróun og samstarf við færustu vísindamenn á sínu sviði í heiminum, en einnig er með þessu tryggt fé inn í rekstur fyrirtækja eins og Matís, sem meðal annars nýtist til að byggja upp innviði sem innlent atvinnulíf nýtur svo góðs af,“ segir Jónas. Verkefni hafa m.a. verið fjármögnuð af sjóðum Norrænu ráðherranefndarinnar, sjöundu rammaáætlunarinnar (FP7) og Horizon 2020. Um þriðjungur af starfsemi Matís í dag er um þessar mundir fjármagnaður af erlendum sjóðum.
Eitt þeirra verkefna sem Matís tekur meðal annars þátt í snýst um það sem kallað er matarheilindi eða matarsvindl, þegar t.d. matvæli eru seld á fölskum forsendum, eru alls ekki sú vara sem neytandinn taldi sig vera að kaupa. Þannig getur nautakjöt reynst vera svínakjöt, þorskur verið tilapia. Þrjú alþjóðleg verkefni sem snúast um matarsvindl eru nú í gangi hjá Matís, FoodIntegrity, Authenticate og Authent-Net.
 
Urmull af dæmum um vörusvik
 
Verstu dæmin má kalla flokka sem skipulagða glæpastarfsemi.
„Vörusvik í matvælageiranum hafa verið töluvert í umræðunni undanfarið en það er alveg ljóst að talsvert er um svik af því tagi víða um heim. Verstu dæmin sem menn hafa rekist á má hiklaust kalla skipulagða glæpastarfsemi. Skemmst er að minnast hrossakjötshneykslisins fyrir fáum árum, en þegar það kom upp vöknuðu margir af værum blundi. Rannsóknir á matvörum í Evrópu sem sagðar voru innihalda nautakjöt á umbúðum reyndust að hluta eða jafnvel öllu leyti innihalda hrossakjöt. „Það varð eins konar vitundarvakning samfara þessu hneyksli, fólk taldi sig í góðri trú vera að snæða úrvals nautahakk, en máltíðin reyndist svo innihalda gamlar hrossabikkjur frá Albaníu. Fólk kærir sig eðlilega ekki um það,“ segir Jónas. 
 
 
Eitt þeirra verkefna sem Matís hefur tekið þátt í snýst um það sem kallað er matarheilindi eða matarsvindl, þegar t.d. matvæli eru seld á fölskum forsendum, eru alls ekki sú vara sem neytandinn taldi sig vera að kaupa.
 
Jónas nefnir fleiri dæmi um svindl af þessu tagi, m.a. jómfrúarólífuolíu (virgin) frá Ítalíu, sem er afskaplega vinsæl og hátt verðlögð, en það er þó deginum ljósara að þótt hver einasta ólífa sem ræktuð er þar í landi væri notuð til að framleiða slíka olíu dygði það ekki upp í magnið sem selt er. Algengt er einnig að tappa spírasulla í flösku og merkja frægum vodkaframleiðendum, og það sama gildir t.d. um viskí.
„Það er til urmull af svona dæmum,“ segir Jónas. Svo koma einnig alltaf upp einstaka mun alvarlegri mál þar sem fjöldi fólks tapar lífi eða heilsu vegna svikinna vara. Bara sem eitt slíkt dæmi má nefna að árið 2008 létust sex börn í Kína og 300 þúsund veiktust eftir að melamine hafði verið blandað í ungbarnamjólk til að svindla á próteininnihaldi mjólkurinnar. „Þetta er kannski alvarlegasta dæmið sem við höfum um svindl af þessu tagi, þar sem neytendur kaupa vöru í góðri trú en hún reynist svo allt önnur. Afleiðingar af ungbarnamjólkurdæminu í Kína eru skelfilegar. Það eru auðvitað verstu dæmin þegar verið er að svindla óheilnæmri og jafnvel hættulegri vöru ofan í fólk,“ segir Jónas.
 
Viðskiptavinur fær aðra vöru en hann taldi sig kaupa
 
Þegar að sjávarfangi kemur er algengast að um tegundarsvindl sé að ræða, viðskiptavinurinn fær allt aðra vöru en hann biður um og telur sig vera að kaupa. Jónas segir margar rannsóknir hafa um árin verið gerðar þar um og niðurstöður bendi til að svikin taki til frá 5% og upp í allt að 50% tilfella. Versta dæmið er rannsókn á bláuggatúnfisk í Bandaríkjunum, þar voru viðskiptavinir blekktir í öllum tilvikum, 100%. Þá er alltaf eitthvað um að sett séu aukaefni í matvæli til að þyngja þau, eða efnum sem breyta lit og bæta útlit. Stundum eru þessi efni skaðleg, jafnvel stórhættuleg og segir Jónas mikilvægt að stöðva þess háttar athæfi strax.
 
„Það virðist vera svindlað í öllum geirum matvælaiðnaðarins og stundum ekki annað að sjá en um einbeittan brotavilja þeirra sem koma vörum af því tagi á markað sé að ræða,“ segir Jónas. Hann nefnir að fyrir komi að mjólk sem keypt er úti í búð innihaldi mjólk úr öðrum skepnum en kúm, alþekkt sé að safar af öllu tagi séu vatnsþynntir, uppfullir af sykursulli, hunang reynist líka á stundum vera einhvers konar sykurblanda með aukaefnum.
 
Krafa um rekjanleika æ háværari
 
„Krafan um rekjanleika matvæla verður æ háværari, neytendur eru betur á verði en áður og gera meiri kröfur. Þeir vilja t.d. að fiskur sem er heilnæm og holl vara, komi úr sjálfbæru og náttúrulegu umhverfi, en ekki úr eldiskvíum í Asíu þar sem fjölmörg dæmi eru um að notað sé ótæpilegt magn sýklalyfja við framleiðsluna, slátrun og vinnsla uppfylli ekki kröfur um heilnæmi og vinnulöggjafir eru vanvirtar. Neytendur verða að minnsta kosti að vita af því og hafa val um hvort þeir kaupi slíka vöru, en ekki kaupa hana undir fölsku flaggi. Slíkur fiskur hefur heldur ekki farið í gegnum lögbundið eftirlitskerfi og getur því langt í frá talist til öruggra matvæla,“ segir Jónas.
 
Hann tekur annað dæmi af kjöti, en af og til hefur komið í ljós að viðskiptavinir hafi ætlað sér að kaupa besta bitann af nautinu, t.d. lund, en hún hafi við nánari eftirgrennslan reynst allt annað. „Það er þó nokkuð um falsanir af því tagi, en svæsnasta dæmið er kannski þegar upp komst að fínustu nautalundir voru í raun svínakjöt. Þeir sem að því stóðu lögðu á sig að sprauta kjötið þannig að það fékk á sig annan blæ og lit og seldu sem nautakjöt. Af þessu má hafa nokkurn ávinning, nautakjöt er mun dýrari vara en svínakjötið svo það er eftir miklu að slægjast,“ segir Jónas. 
 
Vilja ekki selja hvað sem er
 
Stórar verslunarkeðjur víða í Evrópu hafa margar hverjar eigin rannsóknastofur, þær vilja vera alveg vissar um hvaða matvæli þær bjóða sínum viðskiptavinum. „Menn vilja ekki selja hvað sem er og krafan er sú við sölu matvæla að tryggt sé að fram komi á pakkningu hvert innihaldið sé og það standist,“ segir hann.
 
„Af og til kemur upp eitthvað misjafnt, en betur er fylgst með þessu nú en áður, auk þess sem reglugerðir um rekjanleika og merkingar hafa verið hertar.“ Mikilvægt er í þessu samhengi að rannsóknaraðferðirnar sem notaðar eru hjá rannsóknarstofum séu áreiðanlegar og viðurkenndar og segir Jónas að hjá Matís sé um að ræða erfðagreiningu (DNA) á sýnum sem tekin eru og öll sýni rannsökuð samkvæmt þeim viðurkenndu aðferðum sem fyrir liggja um slíkar rannsóknir.
 
Hann nefnir að hæglega sé þó hægt að koma því við, sé vilji fyrir hendi, að villa um fyrir neytendum og erfiðara sé að komast til botns í málum eftir því sem virðiskeðjan er lengri, „því styttri sem keðjan er, því betra og öruggara,“ segir hann. 
 
Jónas segir að í raun sé ekki hægt að segja fyrir um hver staðan er á Íslandi. Þar skorti allar rannsóknir af þessu tagi. „Við höfum fyrir framan okkur urmul af rannsóknum erlendis frá, þar er þetta þekkt og mikið gert til að sporna við að matarsvindl viðgangist. Hér hjá okkur hafa málin ekki verið til skoðunar, engar takmarkaðar rannsóknir eru fyrir hendi, neytendur sjálfir geta í sjálfu sér lítið gert, því þessar rannsóknir þarf að gera á til þess gerðum rannsóknarstofum, með þeim tækjum og búnaði sem fyrir hendi er og þekkingu fagfólks. Það er ekki á allra færi að vara sig t.d. gagnvart tegundasvindli,“ segir Jónas.
Alþekkt er segir hann að hér á landi má finna danskan kjúkling í frystikistum stórverslana, vissulega er honum slátrað og pakkað í Danmörku, en vitað að hann er upprunninn frá Póllandi. „Þetta er í sjálfu sér ekki ólöglegt, en það er ekki allir sem vita af því að kjúklingurinn á uppruna sinn í Póllandi en ekki Danmörku. 
 
Starfsmenn Matís gerðu fyrr á árinu könnun á veitingahúsum hér á landi, sem hluta af fyrrnefndum alþjóðlegu rannsóknaverkefnum um matarsvindl, og kom þá m.a. í ljós að skötuselur sem pantaður var af matseðli reyndist keila. „Þetta kom okkur verulega á óvart,“ sagði Jónas að lokum. 
Ákvörðun felld úr gildi
Fréttir 21. nóvember 2024

Ákvörðun felld úr gildi

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að nýlega samþykktar undaþágu...

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...

Pólar hestar fyrirtæki ársins
Fréttir 19. nóvember 2024

Pólar hestar fyrirtæki ársins

Markaðsstofa Norðurlands hefur valið hestaleiguna Pólar hestar sem fyrirtæki árs...

Byggja stóra íþróttamiðstöð
Fréttir 18. nóvember 2024

Byggja stóra íþróttamiðstöð

Í Árnesi er verið að byggja fyrstu íþróttamiðstöðina í Skeiða- og Gnúpverjahrepp...

Afstaða framboða til landbúnaðarmála
Fréttir 15. nóvember 2024

Afstaða framboða til landbúnaðarmála

Stjórnmálaflokkarnir sem eru í framboði til alþingiskosninga, sem fram fara 30. ...

Nýjar höfuðstöðvar
Fréttir 15. nóvember 2024

Nýjar höfuðstöðvar

Samkvæmt ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðher...