Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Fréttir 14. maí 2019
Víðtækur áhugi á raforkumálum og meira litið til smærri virkjunarmöguleika
Höfundur: Jón Snæbjörnsson, formaður Landssamtaka raforkubænda.
Aðalfundur Landssamtaka raforkubænda var haldinn á Laxárbakka í Hvalfjarðarsveit 10. nóvember síðastliðinn. Mæting á fundinn endurspeglaði þann víðtæka áhuga á raforkumálum sem er nú á meðal bænda, sveitarfélaga, ráðgjafa og opinberra aðila.
Stærri og hagkvæmari virkjunarmöguleikum fer fækkandi, eða þeir eru aðeins fjarlæg framtíðarsýn. Því er nú meira litið til smærri virkjunarmöguleika eða að virkja sem næst notkunarstað raforkunnar.
Ákveðið var m.a. að auka sýnileika samtakanna með því að óska eftir aðild að Bændasamtökum Íslands á næsta Búnaðarþingi sem og að Landbúnaðarklasanum.
Áfram sitja í stjórn þeir Jón Snæbjörnsson, frá Eyvindartungu, Eiður Jónsson frá Árteigi og Magnús Hannesson frá Eystri-Leirárgörðum.
Stöðvarhús Bugavirkjunar.
Smávirkjanaverkefni Orkustofnunar
Á aðalfundinum flutti gestaerindi Erla Björk Þorgeirsdóttir, verkefnisstjóri smávirkjanaverkefnis Orkustofnunar (www.os.is ). Verkefnið hófst af fullum þunga árið 2017 og hefur það meginmarkmið að auka raforkuframleiðslu á landsbyggðinni sökum alvarlegrar stöðu í raforkuöryggismálum. Víða um land er skortur á framboði á raforku og stendur það byggðaþróun fyrir þrifum. Ekkert nútíma samfélag getur vaxið og dafnað án þess að eiga greiðan aðgang að tryggri raforku. Smærri virkjanir gætu orðið mikilvægur þáttur í því að tryggja vaxtarmöguleika í dreifðari byggðum landsins.
Safnað hefur verið gagnlegum upplýsingum, stöðumati, á smávirkjanavef Orkustofnunar. Stofnunin býður einnig landeigendum að stilla upp frumhugmynd að vatnsaflsvirkjun (sbr. vefgátt). Veittir eru styrkir til meistaraprófsverkefna á sviði smávirkjana ásamt því að haldnir eru fundir og kynningar.
Smávirkjanaverkefnið var kynnt síðastliðið haust á sýningunni Íslenskur landbúnaður, í Laugardalshöll. Stanslaus straumur af fólki var í sýningarbás Orkustofnunar og á annað hundrað manns skráði sig á tölvupóstlista verkefnisins. Einnig voru flutt erindi um smávirkjanir á sýningunni, og eru fyrirlestraglærur að finna á vef smávirkjanaverkefnisins.
Í haust verður svo haldin ráðstefna um smávirkjanaverkefnið.
Orkusveitarfélög
Seinna gestaerindið á aðalfundinum flutti Stefán Bogi Sveinsson, formaður Samtaka orkusveitarfélaga (www.orkusveitarfelog.is). Að samtökunum standa 21 sveitarfélag. Helsti tilgangur samtakanna er að standa vörð um hagsmuni aðildarsveitarfélaga í öllum málum sem tengjast byggingu orkuvera og virkjana, orkunýtingar, fjárhagslegum hagsmunum í þessu sambandi og umhverfismálum.
Eitt af helstu markmiðum samtakanna er að arður af nýtingu náttúruauðlinda til raforkuframleiðslu skiptist með sanngjörnum hætti milli þeirra sem eru hagsmunaaðilar við orkuvinnslu. Það eru eigandi auðlindarinnar, orkuframleiðandinn, orkukaupandinn, þjóðin og nærsamfélagið.
Breið samstaða er um að breytinga er þörf.
Virkjanir í Hvalfjarðarsveit
Þriðja og síðasta erindið á aðalfundinum var erindi Magnúsar Hannessonar og Haraldar Magnússonar um virkjanir í Hvalfjarðarsveit. Bugavirkjun og vindmylluna í Belgsholti. Of langt mál er rekja alla þá virkjunarsögu hér, en vindmyllan í Belgsholti var fyrst vindmylla tengd landsnetinu, árið 2011. Bugavirkjun var tengd landsnetinu árið 2014, uppsett afl hennar er um 45 kW og vatnshverfillinn frá vélaframleiðandanum Cink í Tékklandi, er tvískiptur þverstreymishverfill (e. crossflow). Að fundi loknum bauðst fundargestum að skoða Bugavirkjun.
Framtíðin er björt
Frétt frá síðastliðnu sumri á vef RARIK, gefur tilefni til bjartsýni. Því virkjunum er tengjast beint við dreifikerfi RARIK fjölgar ört, þ.e. smávirkjunum. En í dag eru 34 slíkar virkjanir með samtals 46 MW uppsett afl. Um 80% af orkuvinnslu þeirra fór á síðasta ári beint til dreifingar í dreifikerfinu en umframgetan skilaði sér inn á flutningskerfið til dreifingar annars staðar á landinu. Þannig náðist að framleiða um 14,4% af heildarorkuþörfinni í nærumhverfinu, með hverfandi flutningskostnaði og tilheyrandi orkuflutningi frá landsnetinu.
Sagan endurtekur sig og segja má að rafvæðing sveitanna sé hafin á ný. Í því samhengi er áhugavert að líta til vefsjár Orkustofnunar (www.map.is/os) þar sem er að finna staðsetningu virkjana, bæði í rekstri sem og fyrri tíma, er hugsanlega fá nú að mala á ný ef aðstæður eru góðar. Einnig stendur nú til að flýta uppbyggingu þrífasa dreifikerfisins.
Helstu baráttumál
Á aðalfundinum kom sérstaklega fram gagnrýni á háan eftirlitskostnað sem og íþyngjandi kröfur til öryggisstjórnunarkerfis smávirkjana er tengdar eru landsnetinu. Einfalda þarf rekstrarumhverfi virkjana og er það verkefni er vinna þarf í samstarfi við tilheyrandi stjórnvald.
Mikil tækifæri eru fólgin í því að styðja við aukna raforkuframleiðslu smávirkjana. Hugsanlega má leita eftir nánari samvinnu við önnur hagsmunasamtök. Þátttaka í Landbúnaðarsýningunni í kynningarbás Orkustofnunar var vonandi vísir að nánara samstarfi líkt og í Noregi þar sem árlega er þriggja daga ráðstefna smærri raforkuframleiðenda (n. småkraftdagene). Er fyrsti dagurinn á vegum Orkustofnunar Norðmanna (NVE).
Einnig bindum við vonir við aðild að Bændasamtökunum. Að samtökin verði meira áberandi í allri umræðu um orkumál, umræða sem er í dag mörgum hugleikin.
Jón Snæbjörnsson
Formaður Landssamtaka raforkubænda