Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Hann er vígalegur hestakostur hjónanna á Skipaskaga sem taka hér tvo stóðhesta til kostanna. Sigurveig Stefánsdóttir er á Veigari og Jón Árnason situr Skagann.
Hann er vígalegur hestakostur hjónanna á Skipaskaga sem taka hér tvo stóðhesta til kostanna. Sigurveig Stefánsdóttir er á Veigari og Jón Árnason situr Skagann.
Mynd / Aðsend
Viðtal 13. nóvember 2024

Fylgja eigin sannfæringu

Höfundur: Hulda Finnsdóttir

Hrossaræktarbúið Skipaskagi var útnefnt ræktunarbú ársins 2024 en að baki ræktuninni eru þau Sigurveig Stefánsdóttir, Jón Árnason og fjölskylda. Þetta er í tólfta sinn sem búið hlýtur tilnefningu en í fyrsta sinn sem það hreppir hnossið.

Jón og Reynir, sonur hans, sitja Rakel frá Akranesi sem var fyrsta ræktunarhryssa búsins. Mynd/Einkaeign

Þau Sigurveig og Jón hafa ræktað hross frá árinu 1986 en stofnhryssa búsins er Rakel frá Akranesi. „Rakel var þrettán vetra þegar hún eignaðist sitt fyrsta folald. Ekta grasrótarhryssa, gott reiðhross, hreingeng og vökur,“ segir Sigurveig en sýnd voru fimm afkvæmi undan Rakel sem öll hlutu fyrstu verðlaun í kynbótadómi, þar af fjórar hryssur sem urðu stofninn í ræktun Skipaskagahrossa.

Undan Rakel eignuðust þau líka sinn fyrsta fyrstu verðlauna stóðhest, HrókfráAkranesi. „Hrókur,semvar sýndur í sumar, er nefndur í höfuðið á Hrók frá Akranesi, en hann var líka svona rauðjarpur. Það er mjög gaman að bera saman myndir af þeim, þeir eiga ekki mikið sameiginlegt nema litinn, nafnið og það að vera báðir flugvakrir, þá sér maður þróunina í byggingu og hæfileikum frá þessum tíma. Sem dæmi þótti Hrókur eldri ekki lítill á þeim tíma en mældist 138 cm á herðar,“ segir Sigurveig og dóttir þeirra, Ólöf, bætir við að hún muni vel eftir því þegar hann var sýndur en þá þótti það stórt afrek að eiga stóðhest með fyrstu verðlaun. Stærðin er eitt af því sem þau hafa lagt mikla áherslu á í sinni ræktun enda Jón hávaxinn maður og kann betur við sig á stærri hrossum. „Svo verð ég bara að gjöra svo vel að klifra á bak og halda mér í formi, við það komin á áttræðisaldur,“ bætir Sigurveig við.

Hrossarækt er langhlaup

Áður kenndu þau hrossaræktina sína við Akranes eins og svo margir aðrir og til þess að skera sig úr keyptu þau ræktunarnafnið Skipaskagi. „Akranes var alltaf kallað í gamla daga Skipaskagi en það var í kringum 2006 sem við breyttum um nafn,“ segir Jón.

Sigurveig og Jón eru sammála um það að til að ná góðum árangri í hrossarækt skiptir ræktunarhryssan mestu máli. Þannig sé betra að vera með færri góðar heldur en margar miðlungs. Þau fá um 10–12 folöld á ári.

„Ræktunarmarkmið hjá okkur á Skipaskaga er að rækta stór, falleg og léttbyggð hross sem að sjálfsögðu hafa hæfileika og gott geðslag,“ segir Jón.

„Við erum þó ekki að segja að allar okkar hryssur uppfylli öll þessi skilyrði, maður er ekki alveg svo heppinn, þetta er ekki svo einfalt,“ segir Sigurveig.

Alhliðahrossin heilla þau meira en klárhross þótt þau séu með klárhryssur líka í ræktun. Í gegnum árin hafa þau mikið notað heimaræktaða stóðhesta en gæta þess þó að taka inn nýtt blóð til að koma í veg fyrir skyldleikaræktun.

„Við höfum eignast góða stóðhesta eins og Skagann, Eldjárn, Veigar og Hrók og þar sem hrossin hjá okkur eru ekki það skyld höfum við getað notað þá mikið á hryssurnar okkar. Þetta er orðið í nokkra ættliði hrossa frá Skipaskaga. Við pössum þó alltaf upp á að leita í eitthvað nýtt líka og ekki lokast inni í okkar eigin ræktun,“ segir Sigurveig og Ólöf bætir við að það sé dýrmætt að geta notað hesta sem þau þekkja út og inn og vita þá vel hvernig þeir passa á hryssurnar.

„Í hrossaræktinni er mikilvægt að setja sér markmið og vera trúr því. Vera þolinmóður því hrossaræktin er langhlaup. Vissulega er frábært að fara stuttu leiðina og kaupa sér topphryssu og byggja ofan á það en hjá flestum er þetta langhlaup. Þá er líka bara enn ljúfara að uppskera. Það er gaman að vinna þetta frá grunni,“ sammælast þau um.

Hrókur frá Akranesi, fyrsti stóðhesturinn sem þau rækta sem hlaut fyrstu verðlaun í kynbótadómi. Jón heldur í hann á myndinni. Mynd / Einkaeign

Hrókur alls fagnaðar

Að öðru ólöstuðu var Hrókur frá Skipaskaga stjarna búsins í ár. Hann var sýndur á Landsmóti þar sem hann fór í sinn hæsta dóm, 8,86 í aðaleinkunn. Hlaut hann 9,05 fyrir hæfileika en hann hlaut m.a. 9,5 fyrir tölt og samstarfsvilja. Athyglisverðar blóðlínur eru í Hróki, en hann er undan Eldjárni og Visku frá Skipaskaga og er hann því náskyldur Örnu frá Skipaskaga (föðursystir), Aþenu frá Þjóðólfshaga (Örnudóttir) og Veigari frá Skipaskaga (móðursystursonur).

„Við erum búin að sýna fyrstu fjögur afkvæmi Visku og hafa
þau öll farið í góð fyrstu verðlaun. Viska er undan Aðli frá Nýjabæ og Von frá Litlu-Sandvík en við vorum svo heppin að fá hryssu ættaða frá meistara Óla Pétri, sem er greinilega með gott blóð í ræktuninni hjá sér. Viska er gullfalleg og við héldum henni undir Eldjárn. Sá hestur er búinn að reynast okkur alveg svakalega vel og ég vona að Svíar noti hann þar sem við teljum að hann eigi eftir að skila mörgum frábærum hrossum,“ segir Jón en Eldjárn var seldur út til Svíþjóðar árið 2021. „Einstakt geðslag kemur undan Eldjárni og hefðum við gjarnan viljað nota hann meira en svona er þetta stundum, maður þarf að selja líka,“ bætir Sigurveig við.

Ólöf, dóttir þeirra hjóna, þjálfaði Hrók í vetur áður en Árni Björn Pálsson tók við honum þegar fór að vora og sýndi hann í kynbótadómi. Þau Jón, Sigurveig og Ólöf eru öll sammála um að Hrókur búi yfir einstakri geðprýði. „Þvílíkur höfðingi. Barnabörnin geta örugglega skriðið undir hann og upp á hann og hann hreyfir sig ekki. Geðslagið er einstakt í honum. Ég kom alltaf brosandi af honum og það voru algjör forréttindi að fá að þjálfa hann,“ segir Ólöf.

Hrókur mun verða í þjálfun hjá þeim í vetur en ekki er stefnt með hann í neinar sýningar á næsta ári. „Við vinirnir, ég og Árni Björn, stefnum frekar með hann í A-flokk eða fimmgang með tíð og tíma,“ segir Jón en feðginin ætla að njóta Hróks sem reiðhests í vetur.

„Skaginn hefur verið aðal reiðhestur Jóns og nú bætist Hrókur við. Jón er þannig að ef hann er að fara á bak sér til ánægju þá fer hann ekki fyrr en í lok dags. Ólöf græðir kannski á því að Jón er að verða gamall og verður orðinn þreyttur þegar líður á daginn,“ segir Sigurveig og fara þær mæðgur að hlæja.

Hrossin hafa að mestu verið þjálfuð á Skipaskaga og hafa þau síðan sent frá sér sum hross þegar líða fer nær kynbótasýningum. Fyrrnefndur Árni Björn og Daníel Jónsson hafa sýnt flest hrossin frá þeim á síðustu árum og ráðlagt þeim með þjálfun. Þau hafa yfirleitt haft tamningamann í vinnu og einnig fengið góða aðstoð gegnum tíðina. „Maggi Ben hefur reynst okkur rosalega vel og meðal annars benti hann okkur á Glímu frá Kaldbak og Von frá Litlu-Sandvík á sínum tíma sem hafa heldur betur styrkt okkar ræktun. Við fáum líka gríðarlega góðar ráðleggingar hjá Loga Laxdal allan veturinn um hvað sé best að gera en við gerum aldrei neitt rétt samkvæmt honum. En að öllu gríni slepptu þá er hann okkur mjög mikið innan handar og hefur reynst okkur ofboðslega vel. Hann og Beggi á Minni-Völlum hafa komið og frumtamið fyrir okkur ásamt Reyni syni okkar. Logi stjórnar og Beggi og Reynir eru kúrekarnir og allir snillingar á sínu sviði. Það er oft ansi glatt á hjalla á þessum tíma og mikið að gera í eldhúsinu hjá Sigurveigu til að halda Loga í góðum gír,“ segir Jón.

Hrókur frá Skipaskaga. Knapi Árni Björn Pálsson. Mynd / Jón Björnsson.

Brekkan tæmdist

Draumur margra hrossaræktenda er að rækta stóðhest sem hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi. Sá draumur rættist hjá þeim hjónum í sumar þegar Skaginn hlaut þá viðurkenningu á Landsmóti. Hann á 54 sýnd afkvæmi. Jón sjálfur sat hestinn í sýningu Skaganum til heiðurs.

„Ég viðurkenni að það var mjög erfitt fyrir mig að fara þarna í braut. Ég var á nálum yfir þessu en fékk mikla hvatningu frá Loga og Begga að láta vaða og skila skömminni frá því ég var síðast í braut á Landsmóti árið 1994 á Hellu. Þá var ég einmitt á Hrók frá Akranesi. Gustur frá Hóli var á undan mér í braut. Hrókur var góður hestur en bar mig engan veginn því ég er svo stór, og ég hugsaði með mér að það yrði svakalegt að koma á eftir Gusti sem var á toppnum þá og brekkan þéttsetin. Ég held ég sé ekki að ljúga neinu, og það var bráðfyndið, en þegar ég kem í braut að þá tæmist brekkan, eftir var Sigurveig, Elli vinur okkar og örfáir í viðbót sem voru stirðir til gangs. Ég hugsaði, vá, djöfull var þetta lélegt hjá mér, en komst seinna að því að Gýmir var í braut hinum megin. Ég hins vegar fór ekki aftur í brautina fyrr en nú,“ segir Jón sem ákvað að dusta rykið af jakkanum þrjátíu árum seinna og taka Skagann til kostanna við verðlaunaafhendinguna. „Það tæmdist ekki brekkan núna, þeir gátu sennilega ekki farið neitt.“

Ólöf bætir því við að þær mæðgur hafi verið að rifna úr stolti yfir Jóni, enda meira en að segja það að ríða fyrir framan fulla brekku af fólki.

Jón dustaði rykið af jakkanum eftir 30 ára pásu og sýndi Skagann sjálfur þegar hann tók á móti heiðursverðlaunum á Landsmótinu. Mynd/ Jón Björnsson

Fyrst og fremst góð reiðhross

Þau Jón og Sigurveig eru hvergi nærri hætt enda þykir þeim fátt skemmtilegra en hrossarækt.

„Hrossaræktinni hefur farið mikið fram og til eru óhemju mörg góð hross í dag. Við erum ekki að rækta út frá einhverjum vísindaleiðum heldur förum eftir eigin sannfæringu. Við viljum að hrossin séu stór og falleg, geðgóð og góð á öllum gangtegundum, en leggjum áherslu á tölt og skeið. Við viljum líka að þau séu viljug en þjál. Fyrst og fremst mjög góð reiðhross,“ segir Jón, sem telur hrossaræktina vera ákveðna hugsjón. „Við kynntumst í gegnum hrossin og hafa hrossin og börnin verið stærstu partarnir í okkar lífi. Þetta veitir manni ánægju og lífsfyllingu. Við reynum að gleyma því ekki að þetta er ekki alltaf dauðans alvara. Bara stefna á toppinn og sætta sig við brekkurnar á leiðinni. Að öllum öðrum ólöstuðum held ég að Hrókur sé besti hestur sem við höfum ræktað hingað til og sýnir að lengi getur gott batnað og við stefnum ótrauð áfram,“ segir Sigurveig.

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt