Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Björn Harðarson í Holti tók við embætti formanns loðdýrabænda í vetur eftir að forveri hans, Einar Einarsson frá Syðra-Skörðugili, hætti búskap um áramótin.
Björn Harðarson í Holti tók við embætti formanns loðdýrabænda í vetur eftir að forveri hans, Einar Einarsson frá Syðra-Skörðugili, hætti búskap um áramótin.
Mynd / ál
Viðtal 14. júní 2024

Horfurnar í minkaræktinni góðar

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Björn Harðarson tók við embætti formanns deildar loðdýrabænda hjá Bændasamtökum Íslands í vetur. Hann rekur minkabú í Holti í Flóa ásamt dóttur sinni og tengdasyni.

Samhliða loðdýraræktinni stundar Björn kúabúskap, sem hann viðurkennir að hafi verið nauðsynlegur til að halda minkabúinu gangandi. Ferill hans sem minkabóndi hófst árið 2012 þegar hann gerði aðstöðu fyrir þrjú hundruð læður í gömlum fjárhúsum í samstarfi við dóttur sína, Hönnu Siv Bjarnardóttur, og tengdason, Ólaf Má Ólafsson.

Árið 2014 var byggður stór skáli fyrir minkaræktina rétt norður af bæjartorfunni þar sem rými er fyrir 1.500 læður og segir Björn þetta nýjasta minkahús landsins. Frá því að nýja húsið var tekið í notkun hefur ekki fengist hátt verð fyrir minkaskinn. Þeir sem hafi verið í loðdýrarækt lengur hafi notið góðs af mikilli uppsveiflu sem var á árunum áður en fjölskyldan í Holti stökk á vagninn.

Verðið á minkaskinnum hefur verið lágt undanfarin ár. Björn viðurkennir að kúabúið hafi hjálpað til við að halda búskapnum á floti.

Skemmtilegur búskapur

Þrátt fyrir að vera fjárhagslega krefjandi segir Björn að minkarækt sé skemmtilegur búskapur. Nú séu hins vegar einungis sex minkabú eftir í landinu og á fjórum þeirra eru bændurnir með vinnu utan bús eða annan búskap sem styður við loðdýraeldið.

Samfélagið í kringum minkaeldið er að mati Björns afar gott. Allir séu tilbúnir til að aðstoða, gefa ráð og selja dýr. Þá hittast bændurnir reglulega og bera saman bækur sínar. Ólafur skýtur inn í að nú sé orðið erfiðara að halda stór partí þegar svona fáir eru eftir, en að öðru leyti séu bændurnir í búgreininni bjartsýnir.

Björn telur að í landinu séu um 9.000 minkalæður, en hver þeirra getur eignast að meðaltali fjóra til fimm hvolpa á ári. Til þess að koma í veg fyrir skyldleikaræktun eru bændur duglegir að skiptast á dýrum. Yfirleitt séu keyptir kynbótahögnar af öðrum búum, en þegar minkabú hafa verið lögð niður hafi aðrir keypt flest öll dýrin og flutt yfir á sín bú.

Í Holti í Flóa er rekið blandað bú með mjólkurframleiðslu og minkarækt. Þá eru einnig nokkrar kindur á bænum.

Kínverjar farnir að kaupa

Horfurnar í minkaræktinni ættu að vera góðar að mati Björns. Nú séu Kínverjar aftur farnir að kaupa skinn á uppboðum eftir að hafa horfið alfarið frá þeim í Covid-19 faraldrinum. Jafnframt séu allar birgðir sem höfðu safnast upp að klárast og framleiðslan á heimsvísu orðin lítil. „Ef eitthvað er eftir af markaðnum þá ætti þetta að geta lagast,“ segir Björn.

Á síðustu uppboðum hafi öll skinn selst og verðið hækkað um tuttugu til tuttugu og fimm prósent. Meðalverðið hafi verið nálægt 4.500 krónum en þurfi að vera á bilinu átta til níu þúsund krónur til þess að standa undir kostnaði.

Í löndunum í kringum okkur hefur búum ýmist fækkað verulega eða greinin lagst af, eins og í Svíþjóð, Noregi og Hollandi. Eftir stendur Finnland þar sem greinin lifir enn og segir Björn Dani vera farna að endurvekja nokkur bú hjá sér eftir að öllum minkum var slátrað í Covid-19 faraldrinum. Hann nefnir að jafnframt séu minkabú í Póllandi og Eistlandi.

Eftir hrun minkaræktarinnar í Danmörku standi Ísland eftir með bestu gæðin á skinnum á heimsvísu. Lykillinn að góðu minkaskinni séu stór, fínhærð dýr með þétt undirhár og þétt yfirhár sem eru ekki of löng. Munurinn á gæðunum á Íslandi núna og þeim sem voru í Danmörku sé ekki mikill, en þar hafi breiddin verið meiri með fleiri litaafbrigðum.

Nýjasta minkahús landsins er í Holti. Það stendur rétt norðan við bæjartorfuna og rúmar 1.500 læður.

Nýtir lífrænan úrgang

Björn telur greinina eiga rétt á sér þar sem hún byggist á að nýta lífrænan úrgang sem annars færi til spillis. Afurðirnar séu jafnframt umhverfisvænar, en minkapels geti átt langan líftíma og eftir að honum er hent brotnar hann niður. Greinin kalli á sáralítinn innflutning en geti hins vegar skapað gjaldeyristekjur. Þegar minkaræktin náði hámarki á Íslandi voru útflutningstekjur af greininni tveir milljarðar króna en hafi farið niður í 200 milljónir kr. þegar minnst var.

Þá sé ekkert verra að rækta þessi dýr en önnur ef farið er vel með þau. Sumir hafi notað þau rök að þar sem minkar eru ekki nýttir til manneldis eigi búgreinin ekki rétt á sér. „Við erum að rækta alls konar dýr til alls konar nota, bæði okkur til ánægju og brúkunar. Það sem skiptir öllu máli er að dýrunum líði vel á meðan þau lifa,“ segir Björn.

Minkarnir fá aðgang að hálmi til að gera þétt hreiður í búrin.

Got í byrjun maí

Við got í byrjun maí eru hvolparnir sköllóttir og á stærð við fingur. Læðurnar eiga allt frá einum upp í fjórtán hvolpa, en meðaltalið er í kringum fjóra til fimm. Ef læðurnar eiga of marga hvolpa er auðvelt að venja þá undir aðrar. Ólafur segir drjúga vinnu vera á vorin og þótt hann telji að hægt sé að líkja tímabilinu við sauðburð þurfi í langflestum tilfellum ekki að veita aðstoð við got.

Þegar hvolparnir eru orðnir átta vikna gamlir eru allir nema einn teknir frá móðurinni. Hinir eru tveir til þrír saman, eftir því hversu stór búrin eru, en dýrunum líður best með félagsskap. Minkarnir hafa alltaf aðgang að hálmi og sagi sem þeir nýta til að þrífa sig og útbúa sér hreiður í búrunum. Þegar kemur fram í nóvember er farið í gegnum öll dýrin og lagt mat á hvaða minka skuli láta lifa og hverjir skuli fara í pelsun. Hún fer fram á minkabúunum og er eitt fyrsta skrefið að setja dýrin í svokallaðan drápskassa sem er fylltur með útblæstri bensínmótors.

Björn telur ferlið ekki valda minkunum streitu, en þeir séu innan um önnur dýr og í myrkri þar sem þeim líður vel. Dýrin eru látin hlaupa í gegnum rör sem leiðir þau ofan í kassann. Þar missa þau meðvitund eftir tuttugu sekúndur og eru dauð eftir eina til tvær mínútur.

Eftir slátrun eru dýrin sett í tromlu með sagi til þess að hreinsa pelsinn og að því loknu eru þau flegin. Hræin sem falla til við pelsun eru send í brennslu en Björn er bjartsýnn á að þau muni nýtast til kjötmjölsframleiðslu þegar búið verður að byggja upp aðstöðu til þess.

Ein hliðarafurð minkaræktar er minkaolía. Einar Einarsson, sem var með minkabú á Skörðugili, sá um að skrapa og þurrka skinn fyrir nokkra minkabændur og framleiddi handáburð og aðrar snyrtivörur úr fitunni sem féll til. Björn segir óljóst hvert framhaldið verði af því, en Einar hætti í minkarækt um áramótin.

Þegar skinnin hafa verið þurrkuð eru þau send á uppboðshús erlendis. Áður en saumaðar eru úr þeim flíkur þurfi kaupendurnir að senda skinnin í sútun.

Þegar minkunum er slátrað fara þeir í svokallaðan drápskassa sem hefur verið fylltur af útblæstri bensínvélar. Björn segir ferlið ekki valda minkunum streitu.

Vann í verksmiðju Volvo

Björn er uppalinn í Holti þar sem pabbi hans og tveir föðurbræður ráku kúabú sem var býsna stórt á þess tíma mælikvarða. „Mér leiddist alltaf að mjólka kýr. Allt hitt var gaman, vélarnar og það dót, svo ég fór í Vélskóla Íslands í fjögur ár og aðeins á sjó,“ segir Björn. Hann fluttist svo til Svíþjóðar ásamt fyrrum eiginkonu sinni og börnum þar sem Björn vann í verksmiðju Volvo í Skövde í Vestur-Gautlandi.

„Við ætluðum að vera þar í tvö ár, en þau urðu fjórtán.“ Árið 1995 sneri fjölskyldan heim og tók við búskap í Holti. Árið 2001 var ráðist í að breyta fjósinu í lausagöngu og var settur upp róbót síðasta haust þar sem áður var mjaltagryfja. Aðspurður um hver upplifunin sé af því að vera með mjaltaþjón segir Björn að vinnan sé ekki eins líkamleg og ekki bundin eins þröngum tímaramma. Áður hafi hann mjólkað hátt í hundrað kýr sem hafi tekið samtals fimm tíma á dag. Nú séu kýrnar í kringum sjötíu, sem er nálægt því mesta sem einn mjaltaþjónn ræður við, og felist vinnan helst í þrifum, eftirliti og gjöfum. Nú stendur til að Hanna og Ólafur kaupi sig inn í kúabúið í Holti. Þau eru í kringum fertugt og segist Hanna ekki alltaf hafa stefnt að búskap, á meðan Ólafur var með kindur þegar þau kynntust. Hún er menntuð ljósmyndari og hefur sinnt ýmsum verkefnum því tengt undanfarin ár, á meðan Ólafur hefur starfað við smíðar og verið launamaður á kúabúinu í Holti.

Björn vonast til að ná einu góðu tímabili í minkaræktinni á ferlinum, en hann verður 65 ára í haust og segist ekki yngjast upp úr þessu. Aðspurður hvar hann sjái sig eftir fimm til tíu ár kveðst Björn ætla að vera áfram viðloðandi staðinn á meðan hans er þörf og heilsan leyfir. „Ég verð svona próventukarl eins og það var kallað í gamla daga. Það var þannig að menn keyptu kotið og gamli bóndinn fékk að búa þar á meðan hann lifði.“

Björn tók við kúabúinu í Holti árið 1995. Áður hafði hann menntað sig í Vélskóla Íslands og starfað í verksmiðju Volvo í Svíþjóð.

Mælir með starfi bóndans

Helstu verkefni Björns um þessar mundir sem nýr formaður loðdýrabænda eru að skipuleggja verkun á skinnunum í haust og leggja á ráðin um flutning afurðanna á uppboðshúsið í Finnlandi í vetur.

Hann þurfi jafnframt að eiga í samskiptum við WelFur, sem sé alþjóðlegt vottunarkerfi um velferð loðdýra.

Björn segir landbúnað og byggð í sveitum vera mikilvæga fyrir landið. Bæði til að viðhalda mannlífi í dreifðari byggðum og til að framleiða innlend matvæli.

Hann segist geta mælt með starfi bóndans, þrátt fyrir að það sé tímafrekt og gefi fá færi á fríum. „Þetta er mjög góður lífsstíll ef menn eru ekki að drepast úr áhyggjum af peningum,“ bætir hann við glettinn. Best sé þó að fólk prófi eitthvað annað fyrst.

„Þá veit maður af hverju maður er ekki að missa þó maður sé fastur í búskap.“

5 hlutir sem Björn getur ekki verið án

1. Gúmmístígvél:

„Þau voru talin mesta framþróun í landbúnaði hér áður fyrr.“

2. Liðléttingur:

Hann auðveldar alla vinnu við gjafir.

3. Hanskar:

Þeir skipta máli við meðhöndlun minka.

4. Fóðurvélin:

„Maður myndi ekki vilja vera án hennar í marga daga.“

5. Mjaltaþjónn:

Hann minnkar líkamlega vinnu við mjaltir.

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt