Reynir að standa þetta af sér
Syðri-Bægisá í Hörgársveit var fyrsta búið í landinu sem fékk fullt hús stiga í úttekt á fyrirmyndarbúi Landssambands kúabænda, árið 2019. Nú er bóndinn farinn að huga að kynslóðaskiptum.
„Þetta eru 120 nautgripir í það heila núna, með nautum og kvígum, kýrnar eru rúmlega sextíu talsins og nautin um 18,“ segir Helgi B. Steinsson, bóndi á Syðri-Bægisá í Hörgársveit, þegar haft er samband við hann á gormánuði og hann inntur tíðinda. Hann keypti að sögn ekki mjólkurkvóta núna. „Það gekk ekki vel framan af að fá mjólkurkvóta en svo gekk vel í fyrra,“ segir hann og bætir við: „Lánakjörin eru bara ekki góð.“
Hann segist ekki vera farinn að fullnýta fjósið, 70 bása fjós sem byggt var 2018 og er tæpir 1.000 m2, en það fari að nálgast og hann stefni að fullri nýtingu. „Ég hefði nú ekki byggt þetta nema að hugsanlega taka dætur mínar, Jónína og Gunnþórunn, við – þær stefna á það. Jónína er í fjarnámi á Hvanneyri núna,“ hnýtir hann við.
Um nautaeldið og kynbótastarfið segir Helgi að alltaf sé verið að reyna að plana gripina sem best saman. „Það fór naut á Nautastöðina fyrir um mánuði. Við, ég og dæturnar, erum alltaf að pæla í þessum hlutum.“
Alla hluti í lagi
Syðri-Bægisá var valin fyrirmyndarbýli Landssambands kúabænda árið 2019. Við valið var litið til árangurs í kynbótastarfi, almennrar bústjórnar og úttektar á rúmlega 70 mismunandi atriðum tengdum búinu. Búið fékk fullt hús stiga. Helgi er spurður hvort hann hafi sérstakan metnað fyrir að hafa allt í hundrað prósent lagi hjá sér. „Tja, maður er nú bara alinn upp við þetta,“ segir hann og hlær. „Það var alltaf mjög mikil snyrtimennska – sérstaklega hjá foreldrum mínum báðum. Ég hef helst viljað hafa alla hluti í lagi. Flutti til dæmis ekki inn í fjósið fyrr en það var alveg búið. Það er þokkalega hreint og góð aðstaða. Við erum sátt við þetta.“
Helgi og kona hans, Ragnheiður M. Þorsteinsdóttir, tóku við búskapnum af foreldrum hans árið 1981, en þau tóku við af afa hans og ömmu sem keyptu jörðina 1918.
Hann segir uppbyggingu lokið að sinni í nautgriparæktinni. „Við erum hins vegar með gömul fjárhús og 200 kindur líka. Held það borgi sig nú ekki að byggja nýtt yfir það. Þetta er ekki að skila miklu. Maður fer kannski í að endurbæta húsin aðeins ef það væri fjármagn í það.“
Skilyrðin stórversnað
Helgi segir rekstrarumhverfið í búskapnum hafa stórversnað á síðastliðnum tveimur árum. Hann finni verulega fyrir því.
„Lánakjörin þurfa sérstaklega að breytast. Og afurðaverðið þarf að vera hærra. Beingreiðslurnar verða æ lægri. Ætli þetta sé ekki sama krónutala og fyrir 20 árum eða þar um bil, allavega er hækkunin ekki mikil.“ Hann segist ekki viss um að neytandinn átti sig á kostnaðinum á bak við frumframleiðslu mjólkurvara. Ríkið verði að bregðast við með styrkjum á móti.
Helga líst illa á innflutning mjólkurtengdra afurða. „Þetta er bara óþarfi ef hægt er að framleiða þetta hér,“ segir hann og átelur í því sambandi harðlega ákvarðanir landbúnaðarráðherra árið 2017.
Hann minnist sömuleiðis á að bændaforystan hefði mátt beita sér kröftugar því síðustu búvörusamningar hafi ekki verið nógu góðir. „Þess vegna hefur nú ríkisframlagið lækkað hlutfallslega,“ segir hann. „Þau eru harðari núna en þau voru, það veitir ekkert af því.
Það hefur bara allt hækkað, alveg sama hvað það er; olían, kjarnfóður og áburður, sem er kannski að koma til baka eitthvað núna en það er ekki nema að hálfu leyti miðað við hvað var fyrir tveimur árum.“
Horfir fram á kynslóðaskipti
Um það hvort Helgi telji að hann muni standa þetta af sér segist hann ætla að reyna. „Maður verður bara að reyna, og maður hefur lítinn annan kost nema þá bara að hætta. Mér sýnist nú að kvótinn seljist ekkert heldur, hvort eð er.“
Hann vonar að dæturnar taki við innan áratugar eða svo og er líklega einn af þeim heppnu sem sjá fyrir sér að ævistarfið gangi til næstu kynslóðar. „Ekki seinna, helst fyrr – upp á að ná nýliðunarstuðningi handa þeim. En svo veit maður aldrei, hlutirnir gerast hratt í nútímaþjóðfélagi. En maður á aldrei að segja aldrei,“ segir Helgi að lokum.