Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Kjötmjöli dreift um mela á Rangárvöllum þar sem gróðurinn berst við að ná fótfestu. Hekla í baksýn. Októ Einarsson skógarbóndi hefur lengi unnið að uppgræðslu á jörðum sínum á Rangárvöllum í Rangárþingi ytra.
Kjötmjöli dreift um mela á Rangárvöllum þar sem gróðurinn berst við að ná fótfestu. Hekla í baksýn. Októ Einarsson skógarbóndi hefur lengi unnið að uppgræðslu á jörðum sínum á Rangárvöllum í Rangárþingi ytra.
Mynd / Aðsendar
Viðtal 6. september 2024

Sáir lífi í sandi orpið hraun

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Á jörðum sínum að Heiðarlæk, Heiðarbrekku og Heiðarbakka í Rangárþingi ytra hefur Októ Einarsson um árabil lagt gjörva hönd að stöðvun jarðvegsrofs og vistendurheimt í samvinnu við fleiri. Hluti landsins er illa farinn af jarðvegsrofi eins og raunin er víða á þessum slóðum.

Októ er fæddur árið 1962 og nam viðskipta- og markaðsfræði í Bandaríkjunum. Hann starfaði við innflutning, heildsölu og framleiðslu í hartnær fjóra áratugi, þar af um 22 ára skeið sem stjórnarformaður Ölgerðarinnar, þar sem hann lét af stjórnarformennsku í sumarbyrjun. Nú er hann því að fullu genginn inn í það hlutverk að vera skógarbóndi.

Hann hlaut landgræðsluverðlaun vorið 2023 fyrir landgræðslu- og skógræktarstarf sitt. Sagði m.a. í umsögn Landgræðslunnar að hann hefði sýnt mikið frumkvæði og verið fyrirmynd annarra landeigenda í landgræðslu.

Októ Einarsson ætlaði í upphafi að planta einni trjáplöntu fyrir hvern Íslending en nú eru þær orðnar um 800.000 talsins.

Landgræðslumaður í ríflega áratug

„Ég er að græða land og gróðursetja tré á Rangárvöllum í Rangárþingi Ytra,“ segir Októ. „Ég byrjaði lítillega í skógrækt að Heiðarlæk árið 2012 og svo landgræðslu 2015. Samtals eru jarðirnar 860 hektarar og má segja að landgæði séu þar æði misjöfn. Um helmingur er vel gróið land, m.a. tún og heiðin. Hins vegar er hinn helmingur landsins mjög illa farinn, líkt og land víða á Rangárvöllum,“ segir hann. Jarðvegsrof sé þar mjög víða þó að Landgræðslan hafi unnið þrekvirki í gegnum árin.

„Þar sem áður var lífrænn jarðvegur og gróið land er nú víða sandi orpið hraun,“ útskýrir Októ. Megi þar til dæmis nefna að íbúar bæjarins Heiði, sem sé næsti bær við Heiðarlæk, hafi gegnum aldirnar þurft að flýja fimm sinnum undan sandinum sem lagðist yfir tún og spillti þar búskap.

Tvö hundruð hektarar

Að sögn Októs er uppgræðslan í landi hans orðin rúmlega 200 hektarar. „Þetta vor dreifðum við 40 tonnum af kjötmjöli í bland við 20 tonn af hænsnaskít og 12 tonnum af tilbúnum áburði,“ segir hann. Hvað trjáplöntun viðvíkur hafi verið gróðursett 105.000 tré í vor og önnur 65.000 sett niður með hausti.

Margir fleiri koma að verkefninu að sögn Októs; ráðgjafar frá Landi og skógum, verktakar í jarðvinnslu og áburðardreifingu og góður hópur í gróðursetningu. Hans hægri hönd hafi svo verið Ellert Marísson skógfræðingur.

Landið er víða erfitt yfirferðar og segir Októ því talsverða áskorun að koma áburði og trjám um svæðið.

„Ég hef oft sagt í gríni að landgræðsla, og þó sérstaklega skógrækt, sé spurning um áfallastjórnun. Ég man að í upphafi, er ég var heimsóttur af fólki frá Skógræktinni og var að kvarta yfir lélegum vexti trjánna, var sagt við mig í léttum tón að ég væri „týpískur byrjandi, alveg farinn á taugum“. Mér finnst í raun fæst ganga alveg eins vel og ég vildi en viðurkenni fúslega að þegar ég skoða myndir frá því að ég byrjaði á þessu hefur gróðurfarið breyst til mun betri vegar,“ segir hann.

Markmiðið Októs í landgræðslunni er að koma í veg fyrir frekari eyðingu gróðurs og jarðvegs með því að mynda sjálfbæra gróðurþekju. Yfirleitt er áburði dreift í tvö sumur, birki eða öðru plantað annað eða þriðja sumarið og áburði í sumum tilfellum aftur dreift á svæðið hið fjórða. Októ hefur einnig jafnað út hvítavikurgryfjur, dreift í þær áburði og kjötmjöli og svo sáð grasfræi í.

„Þegar búið er að „hemja“ sandinn eins og hægt er fylgir gróðursetning trjáa í kjölfarið. Þar nota ég helst birki sem er góður undanfari frekari skógræktar fyrir næstu kynslóðir,“ bætir hann við.

Hér sést greinilega við hvers konar landslag er að eiga. Máni Jósefsson hjá Nautás ehf. á Sjónarhóli dreifir tilbúnum áburði í ósléttu hrauninu.

Tvö tré á hvern Íslending

Um það hvers vegna hann hafi upprunalega farið út í landgræðslu segist hann í grunninn hafa langað að láta gott af sér leiða með einhverjum hætti. „Mér finnst einnig landið fallegra gróið þó að ég vilji ekki sjá hálendisauðnirnar öðruvísi en þær eru í dag. Auðvitað mun þetta bras mitt með tíð og tíma minnka eitthvað jarðvegsfok eins og voru tíð hér áður og þekkjast enn í þurrum norðan- og norðaustanáttum.

Upphaflega var takmark mitt að gróðursetja eitt tré fyrir hvern Íslending, en í dag eru trén orðin um 800.000 sem hafa verið gróðursett,“ segir hann enn fremur.

Næstu kynslóðir gleðjast: barnabarn Októs, Steinar Darri Veigarsson, 18 mánaða, dáist að uppgræðslunni og á kannski eftir að hjálpa til einn daginn.

Ánægður með Land og skóg

Hvernig skyldi honum svo lítast heilt yfir á uppgræðslu- og skógræktarmálin í landinu nú um stundir?

„Mér líst mjög vel á þau,“ svarar hann að bragði. „Ég er sannfærður um að sameining Skógræktarinnar og Landgræðslunnar eigi eftir að gagnast öllum sem að þessum verkefnum koma, bæði starfsfólki, skógarbændum og öðrum. Mín reynsla af samvinnu við báðar þessar stofnanir hefur verið með eindæmum góð. Jákvætt, leiðbeinandi og almennt skemmtileg fólk til að vinna með. Það helsta sem ég gæti kvartað yfir er skilningsleysi stjórnvalda á því hvað þessi unga atvinnugrein fær æ minna fjármagn undanfarin ár til þess að græða landið,“ segir Októ að lokum.

Skylt efni: Landgræðsla

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt