Sauðfjárrækt á forsendum ostagerðar
Á félagsbúinu Syðra-Holti í Svarfaðardal er stundaður óvenjulegur blandaður búskapur. Útiræktað lífrænt vottað grænmeti hefur verið ræktað þar síðustu þrjú sumur og nú nýlega lífrænn sauðfjárbúskapur á forsendum mjólkurframleiðslu.
Fyrir ári síðan sögðum við hér í blaðinu frá bændunum Eiríki Gunnarssyni, Inger Steinsson, syni þeirra Vífli Eiríkssyni og Alejandra Soto Hernández, sem tóku við jörðinni í Syðra-Holti á árinu 2020 og hófu búskap. Þá sagði Eiríkur frá áætlunum um sauðfjárbú með 80 mjólkandi ær á bænum í þeim tilgangi að framleiða sauðamjólkurosta, auk þess að byggja upp lífræna grænmetisframleiðslu sem væri því sem næst sjálfbær.
Lífræn vottun
Eiríkur segir nú að óhjákvæmilega hafi orðið seinkanir á þeirra áformum vegna þess hversu erfiðir tímar hafa verið til í fjárfestinga í landbúnaði. Þau hafi þó nýlega fest kaup á 20 gimbrum. Stefnt sé á að þær verði mjólkaðar í sumar og í kjölfarið verði byrjað á vöruþróun í ostagerð.
„Við erum ekki á pari við þá áætlun sem við lögðum af stað með, en höldum samt okkar striki í uppbyggingunni. Við höfum verið að standsetja húsakostinn, bæði undir sauðféð með þá lífrænu staðla sem þurfa að vera til staðar, en einnig innrétta húsnæði undir ostagerðina,“ segir hann.
Ætla að fá vottun líka fyrir súrkálið
Félagsbúið er á sínu þriðja ári í útiræktun grænmetis og er með allt sitt land lífrænt vottað, alla ræktun sem og sauðfjárhaldið.
„Við höfum verið í vöruþróun með súrkál, sýrðar gulrætur og sýrðar radísur. Þótt hráefnið sé lífrænt þá höfum við ekki enn farið út í það að fá vottun á framleiðsluferlið en munum gera það þegar við erum komin með eigin aðstöðu fyrir framleiðsluna sem við vonumst til að verði fyrir næstu vertíð. Í fyrra var sumarið afleitt fyrir útiræktun. Í ár hins vegar fengum við fína uppskeru og stefnum að því að vera komin með sýrt grænmeti á markað innan skamms undir vörumerkinu Yrkja,“ segir Eiríkur.
Grænmeti í áskrift
Grænmetisræktun í Syðra-Holti er tvíþætt. Annars vegar er það ræktun á hráefni fyrir sýrt grænmeti og hins vegar fjölbreytt ræktun fyrir sölu beint til neytenda. „Við erum með nokkrar tegundir af salati, ýmiss konar kál, gulrætur, fennel, beðju, blaðsellerí, ýmsar tegundir af lauk, kartöflur og talsvert fleira mætti nefna. Ástæðan er að við ákváðum að bjóða upp á áskrift núna í sumar. Þetta er nokkurs konar samfélagslandbúnaður (e. community supported agriculture) þar sem fólk skuldbindur sig til að kaupa vikulega kassa af grænmeti. Og það fer þá bara dálítið eftir því hvað er búið að uppskera – hvað er tilbúið í það skiptið – hvað verður í boði í kassanum. Í upphafi uppskerutímans getur þetta verið svolítið einhæft framboð en síðan eykst fjölbreytnin eftir því sem líður á sumarið. Sumt af þessu grænmeti sem við erum með er kannski ekki hráefni sem fólk er vant að nota í matargerð, eins og til dæmis fennel, en þá látum við fylgja hugmyndir að réttum sem fólk getur notað það í. Það á kannski sérstaklega við um hráefni sem þarf að elda.
Að mörgu leyti er þetta mjög hentugt fyrirkomulag. Bæði fyrir viðskiptavininn að fá alltaf það ferskasta úr uppskerunni en einnig er þetta mjög skilvirk leið fyrir okkur og stuðlar að minni sóun á afurðunum sem óhjákvæmilega verður þegar svona ferskvara fer í verslanir. Við höfum ekki sett neitt í verslanir enn þá af okkar vörum fyrir utan takmarkað upplag af súrkáli sem var selt í Brauðhúsinu í Grímsbæ.
Hins vegar höfum við verið með okkar eigin grænmetismarkað í sumar á laugardögum og gerðum svona smá viðburði úr þeim með uppákomum eins og tónleika, blómakransagerð og fleira.“
Fólk ánægt með ferska uppskeru
Í sumar voru þau með takmarkaðan fjölda í grænmetisáskrift „Við vildum ekki hafa of marga í byrjun því við vildum vera viss um að geta framleitt það sem við þurftum svo það komust færri að en vildu. En núna langar okkur til að þróa þetta áfram með meiri framleiðslu og fá til okkar fleiri áskrifendur, enda höfum við fengið mjög góð viðbrögð við grænmetinu. Fólk fær þetta auðvitað svo ferskt. Fyrst og fremst eru þetta viðskiptavinir á Dalvík og Akureyri en einnig eru nágrannar okkar hér í sveitinni fastakúnnar og svo sendum við nokkra kassa suður líka.
Við lögðum svo sem ekkert mikið í kynninguna á þessu fyrirkomulagi, settum tilkynningu inn á Facebook og fengum þaðan það sem við lögðum upp með.“
Gimbrar frá Gunnarsstöðum
Eiríkur segir að gimbrarnar 20 hafi verið keyptar frá Gunnarsstöðum í Þistilfirði, auk þess sem keyptur var hrútur innansveitar frá Hrafnsstöðum með ARR-arfgerð, hina alþjóðlega viðurkenndu verndandi arfgerð gegn riðu. „Planið er svo að kaupa aðrar 20 á næsta ári og fjölga svo út frá þessum í okkar eigin ræktun þannig að við verðum með um 80 mjólkandi ær. Kjötframleiðsla verður þá hliðarafurð. Í ræktunarstarfinu verður þá auðvitað fyrst og fremst horft til mjólkurlagni og geðslags – sem skiptir miklu máli líka. Þær þurfa auðvitað að sætta sig við að vera mjólkaðar og það er ekki sjálfgefið,“ segir Eiríkur, sem er búfræðingur og útskrifaðist sem slíkur árið 1986 og hefur að undanförnu verið að dusta rykið af fræðunum. „Ég hef lítið komið nálægt búfjárhaldi síðan ég útskrifaðist. En ég leita til vina og nágranna um ráð og leiðsögn, bý vel að því að eiga góða granna.
Við munum byrja að taka lömbin frá mæðrum sínum sex til átta vikna gömul og svo er mjaltatímabilið um þrír mánuðir; kannski frá byrjun júlí og út september.“
Hringrás næringarefna
Önnur hliðarafurð úr sauðfjárbúskapnum er sauðataðið sem verður að sögn Eiríks mikilvægt hráefni inn í moltuframleiðsluna á bænum sem er hluti af hringrásarhagkerfinu sem stefnt sé að. „Við sjáum fyrir okkur að moltan muni sjá endurræktunarhluta útiræktunarinnar fyrir öllum áburðarefnum sem þörf er á.“
Í september á síðasta ári fengu bændurnir í Syðra-Holti einmitt þróunarstyrk úr matvælaráðuneytinu fyrir verkefnið Nýting lífrænna áburðarefna úr nærsamfélaginu í lífræna garðyrkju. Eiríkur segir að enn sé verið að vinna í því verkefni.
„Þetta hefur verið lærdómsríkt verkefni og við höfum komist að því að ýmsir möguleikar eru á betri nýtingu á þeim lífræna úrgangi sem víða fellur til í sveitum. Þetta er í raun vannýtt auðlind. Ég nefni hrossatað sem dæmi.
Við þekkjum það líka frá bændum á Norðurlöndum sem eru í svipaðri stöðu og við að þar er mikil hefð fyrir að nýta allt lífrænt hráefni miklu betur en gert er hér. Þar er reyndar ýmislegt annað sem er komið lengra í lífrænum búskap en hér, til dæmis allur faglegur stuðningur. Ef það brýst út einhver skordýraplága til dæmis í Svíþjóð hjá lífrænum bændum eru strax gefnar út leiðbeiningar um hvernig skuli takast á við hana.“
Vöruþróun í ostagerð
Að sögn Eiríks mun vöruþróunartímabilið í ostagerðinni taka sinn tíma. „Á meðan við erum að byggja upp fjárstofninn verður takmarkað framboð af sauðamjólk sem mun þá fyrst og fremst nýtast til vöruþróunar. Við reiknum ekki með að geta sett osta á markað haustið 2026, en þá höfum við sett okkur það markmið að vera komin með tvær tegundir.
Þegar við verðum komin í fulla framleiðslu, með um 80 mjólkandi ær, þá ættum við að geta framleitt um 800 kíló af ostum. Við gerum okkur vonir um að sú framleiðsla geti þá staðið undir einu ársverki hér á bænum,“ útskýrir Eiríkur, en til að kynna sér hvernig best væri að standa að slíkum búskap fóru þau í heimsókn á nokkra bæi í Svíþjóð og Noregi þar sem stundaður er farsæll sauðfjárbúskapur á forsendum mjólkurframleiðslunnar.
„Við viljum líka horfa til fordæma frá Norðurlöndunum varðandi heimild smáframleiðenda til að selja ógerilsneyddar mjólkurvörur.
Samtök smáframleiðenda matvæla berjast nú fyrir því að leyft verði að framleiða og selja slíkar afurðir og við fögnum þessu átaki til að fá þessu breytt.“
Eiríkur segir að lokum að hér á Íslandi þurfi að koma til öflugri stuðningur við lífrænan búskap, sem sé á svo margan hátt ákjósanlegur í samhengi við loftslagsmálin og sjálfbærnimarkmið.
„Ef við viljum efla þessa nálgun í framleiðslu landbúnaðarafurða, sem reyndar opinberlega er stefnt að, þá verðum við að fá betra rekstrarumhverfi og stuðning. Það er margfalt meiri vinna og kostnaður á bak við landbúnaðarvöru sem er lífrænt vottuð en aðra sambærilega vöru.
En eins og formaður VOR – Verndun og ræktun hefur talað um hér í blaðinu er þessi aukni kostnaður fjárfesting í framtíðinni.“