Aldís Björk Sigurðardóttir og Guðmundur Steinar Zebitz hjá Kvistabæ í Reykholti í Biskupstungum. Þau eru næststærsti framleiðandi skógarplantna á
landinu á eftir Sólskógum við Akureyri.
Aldís Björk Sigurðardóttir og Guðmundur Steinar Zebitz hjá Kvistabæ í Reykholti í Biskupstungum. Þau eru næststærsti framleiðandi skógarplantna á landinu á eftir Sólskógum við Akureyri.
Mynd / ál
Viðtal 13. desember 2024

„Tré eru svo margt“

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Annar stærsti trjáplöntuframleiðandi landsins er Kvistabær í Reykholti í Biskupstungum. Á bak við fyrirtækið stendur fjölskylda sem keypti reksturinn að fullu árið 2022.

Sambýlisfólkið Aldís Björk Sigurðardóttir og Guðmundur Steinar Zebitz reka Kvistabæ ásamt foreldrum Aldísar, Sigurði Ársælssyni og Önnu Dóru Guðmundsdóttur. Á hverju ári framleiða þau rúmlega fjórar milljónir trjáplantna af ýmsum tegundum og eru stærstu viðskiptavinirnir stórir aðilar í skógrækt, eins og Land og skógur og fyrirtæki sem framleiða kolefniseiningar. Bændur í hvers kyns skógrækt, ásamt einstaklingum og fyrirtækjum í yndisskógrækt skipa jafnframt stóran sess.

Guðmundur bendir á að þau framleiði nánast eingöngu upp í samninga. „Þetta er næstum því dagvara. Hún rennur út og ef við erum ekki með kaupendur þurfum við að farga henni,“ segir hann. Trjáplöntuframleiðslu fylgja afföll á öllum stigum og er því alltaf sáð umfram pantanir. Ef vel gengur eru til umframplöntur sem seldar eru á almennum markaði.

Þrír til fjórir starfsmenn eru með fullt starf hjá Kvistabæ allt árið, en þegar mest er fer starfsmannafjöldinn upp í fjórtán.

Vaxtarverkir í greininni

Aldís var upphaflega ráðin í vinnu sem ræktunarstjóri og meðeigandi þegar Hólmfríður Geirsdóttir og Steinar Á. Jensen seldu garðyrkjustöðina til hóps fjárfesta árið 2021. Ári síðar urðu breytingar á eigendahópnum og tók fjölskyldan alfarið yfir reksturinn. Síðan þá hafa núverandi eigendur tvöfaldað afkastagetu Kvistabæjar. „Enda stóð fyrir að það yrði mikil uppbygging og aukning í þessum geira,“ segir Guðmundur og vísar þar til mikils áhuga á framleiðslu kolefniseininga með skógrækt.

„Vöxturinn hefur ekki orðið eins hraður og væntingar stóðu til, en við vonum að það verði á endanum. Við getum framleitt hundrað prósent meira með núverandi aðstöðu og tækjabúnaði en við höfum verið að gera. Með smávægilegum breytingum gætum við margfaldað það enn þá meira,“ segir Guðmundur.

Þrátt fyrir að Kvistabær sé vel tækjum búinn er mikil starfsmannaþörf, enda fylgir ræktuninni talsverð handavinna. „Tækin taka bara ákveðna þætti út og létta undir á álagstímum,“ segir Guðmundur. Starfsfólkið þarf að vakta heilbrigði plantnanna, reyta arfa, flokka eftir gæðum, undirbúa fyrir afhendingu og fleira. Í Kvistabæ eru þrír til fjórir heilsársstarfsmenn og fer starfsmannafjöldinn upp í fjórtán þegar mest er á sumrin.

Starfseminni fylgi mikil yfirseta og er sambúðarfólkið á leið í sitt fyrsta frí frá því þau komu inn í reksturinn á sínum tíma. „En þetta borgar laun og stendur undir sér. Allt umfram það fer í uppbyggingu og endurnýjun og viðhald á búnaði,“ segir Guðmundur.

Aldís telur vöxt skógræktarinnar ekki hafa gengið eins og lagt var upp með vegna ákveðinna vaxtarverkja í greininni, en kolefnismarkaðurinn er enn að ná fullum þroska. Ýmis verkefni stoppi á framkvæmdaleyfum sem getur tekið marga mánuði að koma í gegn. Þá þurfa allir kaupendur að gera samninga við gróðrarstöðina með minnst árs fyrirvara.

Nýjustu gróðurhúsin í Kvistabæ.

Geta ræktað allt

„Við kaupum fræ af Landi og skógi eða erlendis frá og fáum ræktunarefni af heildsölum hérna,“ segir Aldís, en það er misjafnt eftir tegundum og eftirspurn hvort sáð sé einu sinni eða tvisvar á ári. Fyrri sáning er í lok vetrar og seinni sáning um mitt sumar. Þær plöntur sem fara í mold í mars geta verið tilbúnar í lok sumars eða vorið eftir. Sumir viðskiptavinir vilja að plönturnar fái að vaxa lengur og eru þær afhentar tveggja ára gamlar. Aðalafhendingartíminn er annars vegar í maí og júní og hins vegar ágúst og september, en Aldís tekur fram að það sé ekkert því til fyrirstöðu að gróðursetja allt árið svo lengi sem ekki er frost í jörðu.

Um miðjan vetur eru stiklingar af ösp og víði klipptir úti í skógi. Þeir eru svo geymdir í frysti þangað til að það er tímabært að setja þá í ræktunarmold. „Það þýðir ekkert að taka hráefni af hvaða ösp sem er. Hún þarf eiginlega að vera ættbókarfærð,“ segir Guðmundur, en kaupendur asparplantna vilja vita hvernig þær standa sig við mismunandi aðstæður á ólíkum stöðum.

Í Kvistabæ er langmest ræktað af birki, furu og ösp, en greni, víðir og reynir skipa einnig stóran sess. Tegundaúrvalið ræðst af samningum á hverjum tíma en Aldís og Guðmundur segja að þau gætu ræktað nánast allt. Aðspurð segir parið að natni og þolinmæði sé lykillinn að því að gera góða skógarplöntu.

Ræktun hefur alltaf legið vel fyrir Aldísi, en hún segist hafa séð tré í miklum ævintýraljóma þegar hún var krakki. „Tré eru svo margt. Þau veita okkur skjól, binda kolefni, miðla vatni, stuðla að hringrás næringarefna og gefa okkur timbur. Þá skapa þau búsvæði fyrir þúsundir tegunda,“ segir Aldís.

Eigendur Kvistabæjar hafa látið slétta stórt malarplan til þess að stækka athafnasvæðið utandyra.

5 hlutir sem Aldís og Guðmundur geta ekki verið án

1. Starfsfólk: „Þetta er svo mikil handavinna.“

2. Vökvunarbómur: „Svo við þurfum ekki að handvökva allt.“

3. Ausan (skotbómulyftarinn): „Það er ekki gerlegt að hreyfa þunga hluti nema með lyftara.“

4. Sáningarvélin: Hún setur mold og fræ í plastbakkana.

5. Handklippur: „Það er eitthvað sem allir starfsmenn þurfa að hafa.“

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt