Vill aukið fjármagn til næstu búvörusamninga
Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtaka Íslands, segist sakna þess að fastar sé kveðið á um fjárhags- og afkomuvanda bænda í fjármálaáætlun 2026–2030 sem Daði Már Kristófersson fjármálaog efnahagsráðherra kynnti í síðustu viku.
„Maður saknar í reynd að fastar sé kveðið á um slíkt í áætluninni og að horft sé til þess að veitt verði aukið fjármagn til næstu búvörusamninga sem taka eiga við í lok árs 2026. Bændur þurfa, eins og aðrir þeir sem eru í atvinnurekstri, að hafa fyrirsjáanleika í búrekstri sínum,“ segir Trausti en í áætluninni er talað um að íslenska ríkið hafi ítrekað gripið til sértækra aðgerða til að stuðla að bættri afkomu innan greinarinnar.
Í stefnu málefnasviðsins segir að vandi landbúnaðarins hafi einkum verið tvíþættur: „Annars vegar bráðavandi innan ákveðins hluta atvinnugreinarinnar sem rekja má til hækkunar fjármagnskostnaðar og hins vegar vandi til lengri tíma sem tengist framleiðni og veikleikum í stuðningskerfi landbúnaðarins. Mikill munur er í rekstri innan landbúnaðarins, bæði á milli búgreina og innan þeirra, og búgreinar því misvel í stakk búnar að takast á við áskoranir. Nýliðun og kynslóðaskipti hafa verið erfið fyrir atvinnugreinina. Þá fela áhrif loftslagsbreytinga á matvælaframleiðslu og aðlögun að þeim í sér mikla áskorun fyrir atvinnugreinina.“
Gert er ráð fyrir að útgjaldarammi málefnasviðs landbúnaðar lækki um 261 m.kr. frá fjárlögum 2025 til ársins 2030 en þar er vísað til samningsbundinnar lækkunar á framlögum til búvörusamninga á árinu 2026. Trausti segir að áætlunin taki greinilega skýrt mið af landbúnaðarstefnunni til 2040, þar sem helstu áherslur eru á sjálfbærni, nýsköpun, loftslagsaðgerðir og fjölbreyttari framleiðslu sem styðja eigi við fæðuöryggið. „Áfram virðist stefnan vera að Ísland eigi að vera leiðandi í framleiðslu á heilnæmum afurðum sem þýðir að stuðla þurfi að vernd og sjálfbærni búfjárstofna og dýraheilsu. Það talar inn í aukið fjármagn sem nemur 177,5 m.kr. á árinu 2026 til að innleiða verndandi arfgerðir í íslenska sauðfjárstofninum. Á sama ári er einnig gert ráð fyrir 100 m.kr. hækkun til að stuðla að aukinni innlendri framleiðslu á korni.“
Nýtt stuðningskerfi
Vinna er hafin við mótun nýs stuðningskerfis fyrir landbúnað sem tekur mið af samþykktri landbúnaðarstefnu til ársins 2040, segir í áætluninni.
Til að bregðast við áskorunum í landbúnaði segir í stefnutexta áætlunarinnar að það þurfi að horfa á starfsumhverfi atvinnugreinarinnar í heild sinni til framtíðar. Núgildandi búvörusamningar renna út árið 2026 og segir að í þeirri vinnu sem hafin sé við mótun nýs stuðningskerfis verði lögð áhersla á að stuðningur við landbúnað skapi stöðugan og traustan grundvöll fyrir innlenda framleiðslu og til að efla stoðir landbúnaðar verður sérstaklega hugað að því að auðvelda kynslóðaskipti og nýliðun.
„Jafnframt er gert ráð fyrir að stuðningur hins opinbera verði samhæfður með það að markmiði að styrkja og fjölga stoðum landbúnaðar á grunni sjálfbærrar nýtingar í þágu loftslagsmála, umhverfis- og náttúruverndar og fjölbreytni í ræktun. Stuðlað verði að aðlögunarhæfni til að mæta þörfum neytenda á hverjum tíma.“ Talað er um að stuðningskerfi landbúnaðar verði þróað í þá átt að það hvetji til aukins samdráttar í losun. Matvælaöryggi verði tryggt með skilvirku eftirliti og skýrri löggjöf þar sem eftirlit er samræmt um land allt.
„Ein heilsa“
Yfirskrift áætlunarinnar um landbúnað árin 2026 til 2030 er „sjálfbær og heilnæm matvælaframleiðsla“ og helstu árherslur eru á „auðvelda nýliðun og kynslóðaskipti“, að „efla nýsköpun“ og að „stuðla að verðmætasköpun og fjölbreytni í framleiðslu“.
Um meginmarkmið segir: „Meginmarkmið málefnasviðsins er að efla íslenskan landbúnað og matvælaframleiðslu, ýta undir vöxt og verðmætasköpun og styrkja stoðir til framtíðar með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Tryggja skal matvæla- og fæðuöryggi í þágu einnar heilsu (e. one health) og hámarka velferð dýra.“
Hugtakið „ein heilsa“ er sótt til Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og Alþjóðadýraheilbrigðisstofnunarinnar sem hafa hvatt þjóðir til að nálgast umfjöllun og aðgerðir í vernd og sjálfbærni búfjárstofna og dýraheilsu út frá hugtakinu. Það vísar meðal annars til þess að heilsa manna verði ekki aðskilin frá heilbrigði dýra og heilnæmu umhverfi yfirleitt.