Vinna á lokametrunum
Vinna verðlagsnefndar búvöru við uppfærslu á verðlagsgrunni kúabús stendur enn yfir en er á lokametrunum.
Nefndin, sem skipuð er til tveggja ára, ákveður afurðaverð til kúabænda og verð mjólkurvara í heildsölu. Verðlagsgrunnurinn liggur til grundvallar ákvörðunum nefndarinnar, en sá sem nú er í gildi er frá árinu 2001. Síðast var skipað í nefndina í byrjun september árið 2022 og var í kjölfarið lögð fram tillaga um framkvæmd og verkáætlun að uppfærslu á reiknilíkönum verðlagsnefndar fyrir nýjan verðlagsgrundvöll.
Seinkun á vinnu Hagfræðistofnunar
„Það tók Hagfræðistofnun Háskóla Íslands lengri tíma en áætlað var að skila rammanum fyrir nýjan verðlagsgrunn. Þegar hann var kominn stóðu nokkur atriði út af sem nefndin þurfti að taka afstöðu til,“ útskýrir Kolbeinn Hólmar Stefánsson, formaður nefndarinnar, en áætlað var að Hagfræðistofnunin skilaði sínum niðurstöðum fyrir síðustu áramót.
„Nefndin hefur verið að vinna sig í gegnum þau atriði og er núna á lokametrunum. Nýr verðlagsgrunnur ætti að vera samþykktur fyrir lok októbermánaðar þegar skipunartími núverandi verðlagsnefndar rennur út,“ segir Kolbeinn enn fremur.
Sérkennileg staða vegna slita ríkisstjórnar
Spurður hvort búið sé skipa fulltrúa í nýja nefnd og hvort hann haldi áfram sem formaður, segir Kolbeinn að honum skiljist að búið sé að skipa fulltrúa bænda og frá iðnaðinum. Hann hafi þó ekki frekari upplýsingar um þá. Verkalýðshreyfingin eigi eftir að skipa sína fulltrúa en hann geri ekki sérstaklega ráð fyrir breytingu þar.
„Hvað varðar mína eigin stöðu, þá er hún enn óljós. Ráðherra hefur viðrað þá hugmynd að ég haldi áfram, en þá kemur auðvitað inn sú sérkennilega staða sem er í íslenskum stjórnmálum að sá ráðherra sem skipar næstu nefnd gæti hæglega orðið annar ráðherra en sá sem nú situr og raunar átta ég mig ekki á því hvort ráðherra í starfsstjórn myndi skipa þessa nefnd til tveggja ára eða hvort hún myndi einfaldlega framlengja skipan núverandi nefndar fram yfir kosningar og ný nefnd verði skipuð af nýjum ráðherra,“ segir Kolbeinn.
Kallað ákaft eftir uppfærðum grunni
Kúabændur hafa kallað ákaft eftir uppfærðum verðlagsgrunni, enda margt breyst í rekstrarumhverfi búanna á þessum tíma.
Fyrir ári síðan var haft eftir Rafni Bergssyni, formanni deildar nautgripabænda hjá Bændasamtökum Íslands og nefndarmanni í verðlagsnefnd búvöru, í viðtali í Bændablaðinu um rekstrarvanda nautgriparæktar í landinu, að það væri löngu tímabært að uppfæra verðlagsgrunninn. „Vinna við uppfærslu stendur yfir og er stefnt að því að verðlagt verði samkvæmt nýjum verðlagsgrundvelli í desember eða strax á nýju ári. Auðvitað hefði verið til bóta fyrir nautgripabændur ef hann hefði verið uppfærður fyrr, þannig að það hefði kannski verið bærilegra fyrir einhverja að takast á við þessa auknu skuldabyrði síðustu missera. Það er alveg ljóst að þessi grundvöllur sem unnið er eftir í dag nær á engan hátt utan um þennan fjármagnskostnað með réttum hætti sem bændur þurfa að takast á við í dag,“ sagði Rafn.
Í nefndinni eiga nú sæti þau Kolbeinn Hólmar Stefánsson, skipaður formaður án tilnefningar, Rafn Bergsson og Reynir Þór Jónsson, tilnefnd af Bændasamtökum Íslands, Elín Margrét Stefánsdóttir og Pálmi Vilhjálmsson, tilnefnd af Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði, Steinunn Bragadóttir, tilnefnd af Alþýðusambandi Íslands og Hrannar Már Gunnarsson, tilnefndur af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja.
Þá er Hálfdán Óskarsson, eigandi Örnu, áheyrnarfulltrúi minni vinnslufyrirtækja mjólkur í nefndinni.