Síðar buxur
Síðar buxur úr einbandi og plötulopa
Efni: Þingborgarlopi 180-230 g, Þingborgareinband 170-200 g, Spuni 50 g
Meginefnið í buxurnar er einn þráður einband og einn þráður plötulopi sem eru prjónuð saman. Annað band sem stingur ekki eins mikið er notað í teygjugang og neðst á skálmar, til dæmis Spuni frá Ístex.
Aðferð: Prjónar nr. 5, hringprjónar og sokkaprjónar. Fínni prjónar í stroffum og innan í teygjugangi, t.d. nr. 3,5.
Prjónfesta á sléttu prjóni: 10 cm = 16 lykkjur.
Prjónað er ofan frá og niður úr. Efst á buxunum er lítið stroff. Næst er gangur fyrir teygju í mittið, prjónaður úr Spuna. Þá er prjónaður bolur og klofbót. Lykkjur teknar upp af bótinni fyrir skálmar og þær prjónaðar niður. Neðst á skálmum er kantur úr Spuna.
Stærð (S-M-L-XL): Mitti 80-85- 90-95 cm. Rass 94-99-104-110 cm. Þykkalæri 48-51-54-57 cm. Lengd á skálmum 68-72-78-80 cm.
Stroff efst á bol: Fitjið laust upp 92-100-108-116 lykkjur með lopa og einbandi og prjónið stroff, 7 umf. á prjóna nr. 3,5.
Teygjugangur: Skiptið um band og prjónið 6-6-7-7 umf. slétt á hringprjóna nr. 5. Þá er ytra borð teygjugangsins tilbúið. Til að gera innra borð teygjugangsins, eru teknar upp lykkjur á röngunni úr fyrstu umferðinni sem prjónuð var með Spuna, alls 108 lykkjur eins og á ytra borðinu. Notið prjóna nr. 3,5 og prjónið 5-5-6-6 umferðir slétt til viðbótar við umferðina sem tekin var upp. (Prjónið gat í upphafi þriðju umferðar til að geta komið teygjunni fyrir. Takið úr til hægri, sláið tvisvar upp á prjóninn og takið úr til vinstri. Í næstu umferð er uppslátturinn prjónaður sem tvær lykkjur.) Prjónið saman lykkjurnar af báðum borðum, upp á hringprjónana nr. 5 og lokið þannig teygjuganginum.
Bolur: Skiptið aftur yfir í lopa og einband. Prjónið slétt á prjóna nr. 5 og aukið út eftir u.þ.b. hverjar 7 lykkjur allan hringinn þannig að 108-116-124-132 lykkjur verði á. Bolurinn er 27+27 (29+29) 31+31 (33+33) lykkjur að framan og 27+27 (29+29) 31+31 (33+33) lykkjur að aftan. Skiptið honum þannig með prjónamerkjum til að staðsetja hliðar sitt hvorum megin og miðju að framan og aftan.
Stroffrönd í hliðum: Prjónuð er stroffrönd í hliðunum báðum megin og niður skálmarnar utanfótar. Stroffröndin er 6 lykkjur að breidd, 2 brugðnar, 2 sléttar og 2 brugðnar. Sléttu lykkjurnar tvær eru sitthvorum megin við prjónamerkið í hliðinni.
Bolurinn er prjónaður svona: (Teljið umferðirnar frá teygjugangi á framhlið bolsins. Rassmegin verða umferðirnar fleiri.)
Eftir 2 umferðir (S-M-L-XL): Prjónið tvær auka umferðir yfir rassinn og stroffrendurnar.
Eftir 10 umferðir (S-M-L-XL): Prjónið tvær auka umferðir yfir rassinn og stroffrendurnar.
Eftir 11 umferðir (S-M-L-XL): Aukið út um eina lykkju sitt hvorum megin við stroffröndina í báðum hliðum, alls fjórar lykkjur.
Eftir 18 umferðir (S-M-L-XL): Prjónið tvær auka umferðir yfir rassinn og stroffrendurnar.
Eftir 20-21-23-23 umferðir: Aukið út um eina lykkju á hvorri rasskinn, jafn langt frá miðjum rassi hvorum megin.
Eftir 25 umferðir (XL): Aukið út um eina lykkju sitt hvorum megin við stroffröndina í báðum hliðum, alls fjórar lykkjur.
Eftir 26 umferðir (S-M-L-XL): Prjónið tvær auka umferðir yfir rassinn og stroffrendurnar.
Eftir 30-31-33-33 umferðir: Aukið út um eina lykkju á hvorri rasskinn, jafn langt frá miðjum rassi hvorum megin.
Eftir 34 umferðir (M-L-XL): Prjónið tvær auka umferðir yfir rassinn og stroffrendurnar. (Bolurinn í stærð S þarf ekki að vera mikið lengri.)
Eftir 42 umferðir (XL): Prjónið tvær auka umferðir yfir rassinn og stroffrendurnar.
Haldið áfram að prjóna bolinn þar til hann er orðinn 19-21-23- 26 cm langur, mælt að framan frá teygjuganginum. Bolurinn er lengri að aftan. Á þessu stigi er upplagt að máta herlegheitin á væntanlegan eiganda og aðlaga stærð að viðkomandi.
Klofbót: 18-20-22-24 lykkjur af miðjum rassi eru teknar á sér prjón og prjónað fram og aftur. Kantlykkjur eru prjónaðar sléttar í öllum umferðum, ekki teknar óprjónaðar. Takið úr um eina lykkju í byrjun og enda umferðar í þriðju hverri umferð alls 4-5-5-5 sinnum. Þá eru 10-10- 12-14 lykkjur á. Prjónið áfram 14- 12-14-16 umferðir. Aukið út um eina lykkju í byrjun og enda umferðar og aftur eftir 4 umferðir. Þá eru 14- 14-16-18 lykkjur á. Prjónið fjórar umf. í viðbót. Bótin ætti nú að vera 34-36-38-40 umf. að lengd eða 17- 18-19-20 cm. Lykkjið klofbótina við miðjuna á bolnum að framan. Þá eru komnar brækur sem vantar á skálmarnar. Mátið.
Lykkjur teknar upp af klofbót: Nú eigum við að hafa um það bil 42-45- 47-53 lykkjur af bolnum hvorum megin til að nota í skálmarnar en einnig þarf að taka lykkjur upp af jöðrum klofbótarinnar. Takið upp 28-29-31-33 lykkjur af klofbótinni fyrir hvora skálm. Mikilvægt er að taka vel af lykkjum í vikinu þar sem klofbót og bolur mætast að aftan og framan. Annars kemur þar fljótt gat. Af kantlykkjunum á klofbótinni er mátulegt að taka upp u.þ.b. tvær lykkjur af hverjum þrem. Lykkjur á skálm eiga að vera um það bil 70- 74-78-84.
Skálm: Prjónið tvær umferðir. Takið svo úr eina lykkju í annarri hverri umferð þar sem klofbót og bolur mætast, alls tvisvar. Þá eru 66-70-74- 80 lykkjur á skálminni. Prjónið þar til skálmin nær yfir þykkasta lærið á eigandanum eða þar til hún mælist 18-20-22-22 cm löng. Þá er tekið úr á utanverðri skálm, ein lykkja hvorum megin við stroffröndina og síðan alltaf í 5. hverri umferð, niður alla skálmina, alls 15-17-19-20 sinnum. Þá eiga að vera 36-36-36-40 l á og skálmin orðin u.þ.b. 58-64-70- 72 cm löng, mælt frá kanti klofbótar. Mátið á eigandann.
Neðsti hluti skálmar (um 10 cm) er prjónaður úr Spuna á prjóna nr. 5. Þarna ættu að vera 36-36-36-40 lykkjur á og óþarfi að taka meira úr nema fyrir mjög grannan fót. Prjónið slétt (sleppið stroffröndinni) 18 umf. (færri fyrir stærstu stærð svo að bandið dugi í báðar skálmar). Skiptið á prjóna nr. 3,5 og prjónið 6 umf. stroff. Fellið laust af.
Gangið frá endum. Dragið góða teygju í teygjuganginn og saumið hana saman.
Handþvoið flíkina og þurrkið á handklæði eða grind. Klæðist!