Að hafa trú á eigin sannfæringu
Hún veit fátt skemmtilegra en að stússast með dyntóttum forystukindum milli þess sem hún reynir að hafa jákvæð áhrif á samfélag bænda. Halla Eiríksdóttir, hjúkrunarfræðingur og sauðfjárbóndi að Hákonarstöðum á Jökuldal, vinnur nú ötullega að því að koma á framfæri málefni sem stendur henni nær – andlegri heilsu bænda.
Móðir Höllu, Guðmunda Davíðsdóttir, var ein með fimm börn, þegar Halla var nokkurra mánaða, þegar Eiríkur Steingrímsson, faðir hennar, lést. Eiríkur var eina barn móður sinnar, Höllu Eiríksdóttur, sem létti undir með ekkju sonar síns með því að taka Höllu unga að sér nokkra mánuði á ári.
„Ég elst því upp við það hjá ömmu að það sé talað við mig eins og ég sé samtíða manneskju fædd 1898. Amma var frá Fossi á Síðu og ég var öll sumur þar. Á Fossi var stundaður hefðbundinn búskapur með sauðfé og mjólkurkýr. Þetta var eins og lítið þorp, fjórir ömmubræður með fjölskyldur og fjórar fjölskyldur vestan megin við lækinn, flest allt frændfólk mitt. Þar þreifst hin mannlega flóra eins og hún er, með mismunandi skoðunum, búskap og öllu sem fylgir.“
Hún líkir sumardvölunum að Fossi við ævintýri. „Þetta var endapunktur á veröldinni, rútan gekk ekki lengra. Sannarlega var okkur kennt að umgangast náttúruna af virðingu og við máttum alls ekki fara á ákveðna staði sem huldufólkið átti. Bræður ömmu voru harðduglegir bændur og miklir veðurmenn. Alltaf var talað um veðrið út frá skynfærunum. Það síaðist inn að nota skynfærin til að meta hvernig dagurinn yrði.“
Á veturna dvaldi hún frá sex ára aldri í Gunnarsholti, þar sem móðir hennar bjó með Páli Sveinssyni landgræðslustjóra og tveimur yngri bræðum Höllu. Þar segist hún minnast þess hvernig landgræðslan og skógræktin tókust á um fjármagn eins og í dag. „Í minningunni var stjúpi minn oft á ferðalögum um landið að tala við bændur og fá þá til liðs við sig og landgræðsluna.
Á þessum árum voru Rangárvellir svartur sandur með grænum túnum en nú hefur ásýnd landsins gjörbreyst.
Áburðardreifing með flugvélum var á þessum tíma að hefjast og urðu síðar mjög umfangsmiklar. Sauðfjárbúskapur var stundaður fyrstu árin en stofninum var öllum lógað því það þótti ekki jafnræði í samkeppni að ríkið væri að keppa við bændur. Ég tók þetta mjög nærri mér og fannst heimurinn óréttlátur á þessum aldri. Holdanautabúskapur var verulegur og nautakjöt daglegt fæði sem í minningunni var bara alls ekki gott, soðið eins og hvert annað kjöt.“
Þegar Páll lést flutti Halla með móður og systkinum til Reykjavíkur. Þar tók við hefðbundin skólaganga og svo hjúkrunarnám. Hún fór þó reglulega austur að Fossi.
„Þegar ég var farin að fullorðnast þá sé ég hlutina öðruvísi. Hvernig ég upplifiði þekkingu í landbúnaði þar sem verkþekkingin og skóla bókarþekking náðu lítið saman meðal bænda. Þá finnst mér ég líka skynja þetta andrúmsloft meðal bænda, sem einkennist af vonleysi og depurð. Sú eilífa einsemd sem þeir búa við í vinnu sinni fór að segja til sín. Gegnum árin þyngdi hjá sumum, og svo mikið að einn frændi minna tók sitt eigið líf.“ Viðburðurinn hafði mikil áhrif á hana og hefur það verið keppikefli Höllu undanfarið að setja andlega heilsu á dagskrá innan félagskerfis bænda.
Fylgir eftir hugsjónum
Halla flutti úr borginni austur til Egilsstaða árið 1989. „Ég var starfandi sem hjúkrunarfræðingur og mér fannst það að vera einstæð móðir í Reykjavík í vaktavinnu vera eins og hvert annað hundalíf. Þannig einn daginn sagði ég bara upp og ákvað að flytja út á land.“
Hjúkrunarforstjórastaða á heilsu gæslunni á Egilsstöðum varð hennar. Fyrsta dag í starfinu átti hún að taka við tilsögn um verkefnin en þess í stað þurfti hún að bregðast við 40 manna rútuslysi. Hún segir það hafa verið henni ákveðin eldskírn og metnaður hennar fyrir bættri heilbrigðisþjónustu í dreifbýli skilaði sér í ýmsum breytingum sem hún átti þátt í að koma á, s.s. því að hjúkrunarfræðingar væru þátttakendur í bráðaþjónustu. Það á líka við um baráttumál hjúkrunarfræðinga en Halla er varaformaður stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
„Ég hef alltaf verið viljasterk og skoðanarík og langað að koma hlutum í annan farveg, frekar en að láta kyrrt liggja. Það hentar mér ekkert voðalega vel að sitja bara í eldhúshorni og tala um vandamál. Miklu betra er þá að koma sér þangað sem hægt er að breyta því.“
Leið hennar að fremsta bekk í félagsmálum bænda er nokkuð týpísk, þegar rökfastar konur eru annars vegar. „Ég byrjaði að fara á bændafundi með manninum og þurfti náttúrlega að segja eitthvað því ég hafði skoðanir.“
Þannig endaði hún sem varamaður hjá Búnaðarsambandi Austurlands, sem fléttaðist svo áfram svo að endingu varð hún formaður í nokkur ár.
Hún segist stolt af því sem formaður í samstarfi við Guðfinnu Hörpu Árnadóttur, sem var þá starfsmaður sambandsins, komið á m.a. fræðadögum og jafningjafræðslu meðal bænda á svæðinu sem síðar var tekið upp á fleiri stöðum. „Þá tókum við fyrir praktíska þekkingu og vorum samtímis með fræðilegt innlegg og síðan gátu bændur rætt saman sín á milli.“
Á slíkum fræðadögum átti Halla það til að koma inn á andlega heilsu bænda. Sem varð til þess að hún var fengin til að taka þátt í vinnuverndarátaki Bændasamtaka Íslands. Þeirri vinnu fylgdi innsýn inn í félagskerfi bænda á landsvísu, sem hún taldi þá nokkuð vanhugsað. Hún ákvað því að gefa kost á sér í stjórn samtakanna.
Dýravernd eins og barnavernd
Síðan hún var kjörin í stjórn Bændasamtaka Íslands árið 2020 hafa orðið nokkuð róttækar breytingar á félagskerfinu. „Eftir að hafa unnið í heilbrigðiskerfinu, þar sem maður þarf stundum að bíða í áratug eftir að hugmyndir gangi eftir, þá finnst mér gaman að hafa lagt upp í vegferð og sjá breytingar eiga sér stað á svo skömmum tíma.“
Halla segist sérstaklega ánægð með að andleg heilsa bænda sé komin á dagskrá, enda henni hjartans mál. Nýfengið styrkfé er nú notað til að byggja upp jafningjafræðslu í starfsstéttinni og leiðir hún teymisvinnu samtakana.
„Nú er að gefast tækifæri til að fjalla um hvernig bændur eru útsettari fyrir andlegum veikindum vegna starfsins. Sál- og geðrænir kvillar hafa áhrif á okkar frammistöðu og vinnugetu sem hefur áhrif á fjölskyldu og búskap. Mín reynsla er sú að í flestöllum tilvikum þar sem um vanhöld á dýrum er að ræða eru undirliggjandi ástæður veikindi á búinu sem ekki hafa fengið viðeigandi meðferð. Fregnir af vörslusviptingum eru skýr dæmi um hvernig málin geta farið úrskeiðis. Það er einfaldlega ekki eðlilegt hvað okkur gengur almennt illa að fylgja svona málum eftir. Að mínu mati ætti að fara með dýravelferðarmál eins og barnaverndarmál. Við höfum tilkynningaskyldu samkvæmt lögum en markmið laganna með dýrahaldi mætti vera í anda laga um barnavernd, þ.e. að styrkja bændur til að sinna sínu hlutverki og tryggja vernd dýra til framtíðar. Í dýravernd ætti eftirlit að vera á forsendum dýranna og kerfið ætti að aðstoða fólk við að ná betri tökum. Ekki bíða þangað til að allt fer í vitleysu.“
Halla segist sjá fyrir sér fyrirkomulag þar sem allir sem hefja búskap, óháð aldri og reynslu, gætu sótt sér tveggja ára handleiðslu. Þeim yrði þá fylgt eftir í öllum þeim viðfangsefnum sem bíða bænda í búskaparbyrjun. Hún telur einnig mögulega bót í máli að leyfisskylda búfjáreigendur. „Mér finnst að allir sem eru í matvælaframleiðslu eigi að vera leyfisskyldir og þeir sem eru í hobbí-búrekstri ættu einnig að falla undir eftirlit, rétt eins og gæludýraeigendur. Á grundvelli leyfanna ætti þá að vera hægt að grípa fyrr inn í ef það koma upp einhver frávik.“
Langrækna forystukindin
Árið 2000 kynntist Halla núverandi manni sínum, Sigvalda H. Ragnarssyni, bónda á Hákonarstöðum í Jökuldal. Henni þótti mannkosturinn ekki síst vænn vegna búfjáreigna, 400 fjár og þar af heilmikið af forystufé.
Höllu þykir forystukindur bestar allra. „Þær eru svoddan karakterar, mjög ákveðnar og vingast bara við suma, ekki aðra. Svo er hægt að þjálfa þær.“
Hún segir sögu af einni slíkri sem byrjuð var nánast að ganga við hæl eins og hundur. „Svo þurfti ég eitt sinn að taka í hornin á henni, því hún var að gera eitthvað sem hún mátti ekki. Hún virti mig ekki viðlits í tvö ár þar á eftir. Svo urðum við bestu vinkonur aftur, en ég átti aldrei meir við hornin á henni.“
Sneri vitlaust í dalnum
Í rúm 20 ár héldu Halla og Sigvaldi tvö heimili, í rúmlega 60 kílómetra fjarlægð. „Þar sem ég stundaði vinnu á Egilsstöðum urðum við að hafa þann háttinn á. Það átti eflaust þátt í farsæld hjónabandsins.“ Niðjar þeirra eru sex talsins, tvö börn og fjögur barnabörn. Halla og Sigvaldi ákváðu að sameinast undir eitt þak á Hákonarstöðum í ár. „Þegar ég kom hingað í húsið í fyrstu skiptin sagði ég Sigvalda að ég sneri vitlaust í dalnum. Svo var ég úti í fjárhúsi að vori og hugsaði sem svo að ef ég hefði byggt minn bústað á jörðinni hefði hann staðið þar sem fjárhúsið var. Ég sá það greinilega fyrir mér hvernig bærinn stóð miðað við áttir og raðaði mér inn í hann.“
Skemmtilegt nokk: Við uppflettingu í Íslendingabók komst svo Halla að því að forfeður hennar, aftur til sextándu aldar, væru frá Hákonarstöðum. Og eitt sinn stóð bær þar sem fjárhúsið er nú. „Svona er frumuminnið gott.“
Halla segir þó að það hafi tekið sinn tíma að aðlagast umhverfinu á Efra-Jökuldal. „Verandi alin upp á suðurlandsundirlendi, þar sem allt er flatt og fjöll í bak og vera svo komin í svona þröngan dal með takmörkuðu útsýni. Jökulsáin var ekki virkjuð þegar ég kom hingað fyrst og það fylgdi henni rótgróin ógn, maður mátti aldrei fara nálægt henni enda lífshættulegt vatnsfall. Hún var svo afgerandi og lifandi. Hljóðin líkari sjó en lækjarnið, það tók undir í Dalnum þegar mikið var í henni. Ég stóð mig stundum að því að tala við ána, tilbrigðin hennar voru mörg og hún eins og persóna. En svo breyttist þetta þegar virkjað var, maður talar ekkert við hana í dag. Núna sullar hún þetta bara, lygnt og ljúft.“
Halla og Sigvaldi búast jafnvel við að vera síðustu sauðfjárbændurnir á Hákonarstöðum miðað við stöðuna í sauðfjárrækt nema komi til önnur atvinnutækifæri. Þau eru nú í þeirri vegferð að þróa ferðaþjónustu sem byggir á sauðfjárbúskap og sjá fyrir sér að geta búið til störf tengd ferðaþjónustu samhliða fullvinnslu á afurðum sauðfjárræktarinnar.
Þó Halla sjái ekki fyrir sér að vera þaulsætin í hagsmunabaráttu bænda hefur hún metnað til að halda áfram að koma góðum verkum til leiðar. „Ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri og traust til að kynnast og sinna félagskerfi bænda. Það farnast manni best að hafa trú á sinni eigin sannfæringu og standa með sjálfum sér.“