Sóley Erna Sigurgeirsdóttir, komin með útskriftarplaggið í hendurnar úr dýralækninganáminu í Slóvakíu.
Sóley Erna Sigurgeirsdóttir, komin með útskriftarplaggið í hendurnar úr dýralækninganáminu í Slóvakíu.
Mynd / Aðsendar
Viðtal 19. júlí 2024

Ákvað í leikskóla að verða dýralæknir þegar hún yrði stór

Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson

Haustið 2020, í heimsfaraldri, flutti Sóley Erna Sigurgeirsdóttir til ókunnugs lands með það að markmiði að láta draum sinn verða að veruleika. Hún útskrifaðist nýlega úr dýralæknanámi frá Slóvakíu.

Sóley fæddist á Selfossi en flutti fjögurra ára gömul í Reykholt í Biskupstungum þar sem hún ólst upp. Hún var mikið í sveit hjá ömmu og afa sínum í Fellskoti sem barn. Sem unglingur vann hún á Kaffi Mika í Reykholti og þegar hún flutti á Selfoss vann hún fjögur sumur í hestavöruversluninni Baldvin og Þorvaldur. Síðustu fjögur sumur hefur hún svo unnið í Vínbúðinni á Flúðum. Sóley lauk námi við Fjölbrautaskóla Suðurlands vorið 2017 af náttúru­ fræðilínu og í framhaldi af því fór hún í Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri og útskrifaðist þaðan með BSc­gráðu í búvísindum vorið 2020 og tók þá stefnuna til Slóvakíu.

Sóley Erna lengst til hægri, ásamt Sigurlínu, mömmu sinni, Katrínu Rut, systur sinni og Kristni Sölva, tvíburabróður sínum. Myndin var tekin á útskriftardegi Sóleyjar úr Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Fjölskylduhagir

Foreldrar Sóleyjar Ernu eru þau Sigurgeir Kristmannsson smiður og Sigurlína Kristinsdóttir, framhalds­ skólakennari og myndlistarkona. Hún á tvö systkini, eldri systir hennar heitir Katrín Rut og stundar nám við HÍ í menntun framhaldsskólakennara ásamt því að starfa sem kennari. Hún á líka tvíburabróður, Kristin Sölva, sem er fjármálastjóri Kóða og Keldunnar.

„Ég kynntist unnusta mínum, Ísaki Jökulssyni, á Hvanneyri fyrir að verða sjö árum. Hann er bóndi á bænum Ósabakka í Skeiða­ og Gnúpverjahreppi,“ segir Sóley Erna, aðspurð um fjölskylduhagi sína. 

Ísak og Sóley Erna útskrifuðust frá Hvanneyri vorið 2020 og búa nú saman á Ósabakka í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, ástfangin upp fyrir haus.

Fótbrotin önd í leikskólanum

Þegar Sóley Erna er spurð hvað hafi orðið til þess að hún vildi verða dýralæknir var hún fljót til svars. „Fyrstu minninguna af þeirri ákvörðun á ég þegar ég var fjögurra ára. Ég man eftir að hafa verið í leikskólanum með andarbangsa að vefja hann í grisjur. Leikskólastýran spurði mig hvort ég væri að búa til múmíu en ég svaraði hátt og snjallt að þessi önd væri fótbrotin og ég væri að lækna hana því ég ætlaði að verða dýralæknir. Foreldrar mínir muna ekki nákvæmlega hvenær þessi dýrkun mín hófst, það var eflaust um þetta leyti, en ég gleymi aldrei andarbangsanum á leikskólanum í Reykholti,“ segir hún hlæjandi. Í raun hafi enginn annar starfsvettvangur komið til greina. „Ég veit ekki hvað kallaði mig svona unga í þessa átt en ég hef aldrei efast valið. Áhuginn hefur bara aukist með aldrinum,“ segir Sóley Erna.

Fjögurra ára nám í Slóvakíu

Sóley Erna ákvað að sækja nám sitt í Slóvakíu. „Ég ætlaði alltaf að fara til Danmerkur eða Noregs í þetta nám. Þegar kom á daginn var ég ekki tilbúin að flytja utan svona ung. Ég var 19 ára og hafði hvergi annars staðar búið en í foreldrahúsum og mér fannst það heldur stórt skref að fyrsti staðurinn þar sem ég byggi ein yrði í öðru landi. Það sumar vann ég í Baldvini og Þorvaldi með Tönju Rún Jóhannsdóttur, sem var þá nýbúin að komast inn í dýralæknaháskóla. Hún sagði mér frá braut í Dýralæknaháskólanum í Slóvakíu, sem tæki inn fólk með BSc­ gráður, mæti það grunnnám sem það var með og útskrifaði af braut sem tók fjögur ár. Dýralæknanám er almennt sex ár, með þessari leið þá tæki ég grunn á þremur árum á Íslandi og svo fjögur ár í dýralækninum,“ segir Sóley Erna.

Sóley Erna segir að Tanja hafi stappað í sig stálinu og hjálpað henni heilmikið með þessa ákvörðun og verði hún henni alltaf mjög þakklát fyrir það. „Ég sótti um í University of Veterinary Medicine and Pharmacy í Košice í mars 2020 og fékk inngöngu í júní sama ár. Ég var mjög heppin að vera ekki að fara ein en tvær vinkonur mínar sem ég kynntist á Hvanneyri komu með mér á sömu braut. Námið fór fram með bæði verklegri og bóklegri kennslu. Fyrstu tvö árin voru mjög áfangaþung og það var erfitt að ná í skottið á sjálfri sér hvað varðar heimalesturinn, en svo var ég í aðeins færri áföngum síðari tvö árin og var þá í raun orðin færari við að læra,“ segir Sóley Erna.

Skemmtileg og falleg borg

Hún segist hafa verið mjög heppin með Íslendingasamfélagið í skólanum. Þannig fékk hún margt gefins eða keypt ódýrt af bókum og öðru fyrir námið.

„Ein vinkona mín reddaði mér og bekkjarsystur minni líka íbúð, sem var í fimm mínútna göngufjarlægð frá skólanum og næstu búð og tuttugu mínútna fjarlægð frá miðbænum. Borgin Košice er skemmtileg og falleg, þá sérstaklega miðbærinn. Slóvakía og Ísland eiga það sameiginlegt að hafa mikið af náttúruperlum sem gaman er að skoða. Mín mesta eftirsjá er að hafa ekki ferðast meira um landið,“ segir Sóley Erna. Auk hennar voru fimm aðrir Íslendingar að útskrifast úr skólanum enda nýtur skólinn mikilla vinsælda en Sóleyju reiknast til að á þriðja tug Íslendinga nemi við skólann.

Hrossi gefið ormalyf af Sólveigu Ernu.
Áhuginn liggur hjá stórgripum

Námið var krefjandi enda sex ára lærdómi þar þjappað í fjögur ár.
„Ég fór á alþjóðlega braut sem var kennd á ensku. Nánast hver einasti áfangi sem ég tók var með einn verklegan tíma og einn bóklegan tíma á viku. Verklegu tímarnir voru alls konar, til dæmis að búa til jógúrt, tilraunir inni á rannsóknarstofu, hinar ýmsu krufningar, sníkjudýratímar, ómskoðanir og skurðlækningar svo fátt eitt sé nefnt. Bóklegi parturinn fór að miklu leyti fram á netinu þegar ég var þarna, enda hóf ég námið í miðjum Covid­faraldri. Við fórum líka í skólaferðalög innan Slóvakíu í sláturhús, kjötvinnslur og á skólasveitabæina,“ segir Sóley Erna sem hafði mest gaman af því að æfa sig við skurðaðgerðir.

„Áhugi minn liggur samt að mestu hjá stórgripunum og hafði ég því mjög gaman af öllum slíkum, hvort sem það var hestatími, jórturdýratími eða svínatími. Það var mjög krefjandi að stærsti hluti prófanna voru munnleg próf en ég hafði nánast bara tekið skrifleg próf fyrir. Það var líka erfitt á tímum að vera frá fjölskyldunni allri. Alls konar viðburðir sem ég missti af eins og stórafmæli og skírnir. Það var líka erfitt að vera frá unnusta mínum og sveitinni til lengri tíma,“ bætir Sóley Erna við.

Sóley Erna segist ekki geta hætt að brosa eftir að hún útskrifaðist um síðustu mánaðamót. „Það eru nokkrir hlutir sem án efa standa upp úr. Ég hef fengið að taka blóðprufu frá þó nokkrum dýrum. Á þeim lista eru m.a. dúfur, hænur, dádýr og 150 gramma fiskur. Hef líka fengið að gefa lyf í vöðva á eðlu, skjaldböku og snáki. Svo hef ég fengið að fylgjast með fullt af aðgerðum á mismunandi dýrum, fékk að sjá m.a. magaspeglun á fálka. Ég fékk líka að skjóta af riffli hlöðnum deyfiefni og blásturspípu hlaðinni deyfilyfi svo eitthvað sé nefnt.“ Nú tekur við kærkomið sumarfrí hjá Sóleyju Ernu en eftir það hefur hún störf sem stórgripadýralæknir á Suðurlandi. „Ég er ekki með sérhæfingu núna, skólinn minn leggur frekar upp úr því að við séum jafnvíg í öllu. Ég hef samt áhuga á því að sækja mér einhverja sérþekkingu á næstu árum,“ segir hún.

Sóley Erna segir að einn af bestu tímum ársins sé réttir á haustin. Hér er hún með Stasíu sinni en það er fyrsta gimbrin sem hún eignaðist.

Dýrakona og sveitatútta

Sóley Erna segir að hún sé og hafi alltaf verið mikil dýrakona og sveitatútta. „Ég ólst upp í kringum hross og við áttum alltaf ketti og um tíma átti ég páfagauka. Mamma kenndi mér og systkinum mínum að sitja hest þegar við vorum krakkar. Við systkinin vorum dugleg að taka þátt í hestamótum og reiðnámskeiðum. Ég er líka mikil kattakona, á tvær læður, þær Jósefínu og Snúllu. Svo er á planinu að uppfylla næsta barnæskudraum, að eignast hund,“ segir dýralæknirinn brosandi.

Sóley Erna segist hafa verið heppnasta manneskja í heimi að hafa kynnst Ísaki sínum á Ósabakka þegar hún nam á Hvanneyri. Ísak sé góður maður og mikill dýrakarl sem þykir einstaklega vænt um kýrnar sínar. „Hann hefur kennt mér mikið, sem maður hreinlega lærir ekki nema að hafa búið í sveit. Hann hugsar alltaf til mín þegar það þarf að gefa lyf, ef það þarf að hjálpa kú að bera og líka ef hann finnur eitthvað áhugavert í fjósinu. Tengdapabbi minn, hann Jökull, hefur tekið mér opnum örmum og gefið mér tvær gimbrar. Hann gaf mér líka meri í útskriftargjöf þegar ég útskrifaðist frá Hvanneyri,“ segir Sóley Erna.

Hún segist sjá sig búsetta á Ósabakka í framtíðinni.

„Ég verð búin að sérhæfa mig og ég verð að vinna við draumastarfið mitt. Ísak og bróðir hans, Logi Jökulsson, verða búnir að taka við búinu og mögulega komin ný fjósbygging með mjaltaþjóni. Við verðum búin að koma okkur vel fyrir á Ósabakka með fjölskyldu ásamt öllum dýrunum okkar. Framtíðin er björt,“ segir hún og hlær.

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt