Áhugaleikhús okkar landsmanna
Nú í um það bil eitt og hálft ár hefur Bændablaðið staðið fyrir reglulegum greinaskrifum um áhugaleikhúsin í landinu.
Mikill og stöðugur áhugi hefur verið á kynningu á starfsemi þeirra, enda kemur þar að fólk úr öllum starfsstéttum og um mikilvægan og merkilegan þátt menningarlífs okkar að ræða. Gott samstarf hefur verið við framkvæmdastjóra Bandalags íslenskra leikfélaga, Hörð Sigurðarson, sem hefur unnið afar gott starf í þágu áhugaleikhúsa, og deildi hann fúslega með okkur þeim upplýsingum sem innt var eftir.
Þá helst er varðaði tilvonandi sýningarhöld leikhúsanna, uppákomur, fundi eða annað, auk þess að gauka að okkur áhugaverðu efni sem annars hefði ekki komist á síður blaðsins.
Farið hefur verið víða og lesendur kynnst glaum og gleði landshorna á milli, sorg og sút á sviðum leikhúsa okkar Íslendinga.
Vaninn er sá að vertíðir áhugaleikhúsa séu haust og vor og því ætlum við hér hjá Bændablaðinu að gefa umfjöllunum er varða áhugaleik svolítið sumarfrí.
Nú vil ég sem þetta skrifar bjóða öllum þeim sem vilja að hafa samband í sumar ef kemur til þess að það verða í boði námskeið, leiksýningar eða aðrar uppákomur sem gaman væri að fjalla um eða koma á framfæri.
Við óskum áhugaleikhúsfólki og unnendum leiklistar gleðilegs sumars og hlökkum til að taka upp þráðinn í haust.