Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Brýn verkefni nýrrar ríkisstjórnar
Af vettvangi Bændasamtakana 21. nóvember 2024

Brýn verkefni nýrrar ríkisstjórnar

Höfundur: Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtaka Íslands.

Ég ætla mér ekki þá dul að leggja nýrri ríkisstjórn línurnar um hin fjölmörgu áríðandi verkefni hennar. Ég veit að þar verður í mörg horn að líta í bæði stóru og smáu. Ég veit líka að á meðal brýnna verkefna hennar er langþráð stefnumörkun í stað dýrkeypts stefnuleysis í málefnum landbúnaðarins. Eftir heimsóknir fulltrúa langflestra flokka sem bjóða fram krafta sína í komandi kosningum til okkar í bækistöðvar Bændasamtakanna er ég sannfærður um að ný ríkisstjórn, sama hvort hún hallast til hægri eða vinstri – eða mögulega hvorugt – muni taka hraustlega til hendinni hvað varðar rekstrarumhverfi bænda og um leið lífsnauðsynlega nýliðun í bændastéttinni.

Trausti Hjálmarsson.

Á fjórtán fjölsóttum bændafundum víðs vegar um landið fyrr í þessum mánuði kom það skýrt fram að afkoma bænda er óviðunandi og hvílir á mörgum þeirra eins og mara. Ekkert má út af bregða til þess að rekstrarafgangur verði enginn og birtist jafnvel í rauðum tölum. Ungt fólk sem langar til að leggja búrekstur fyrir sig leggur einfaldlega ekki í það. Sama á jafnvel við um þau sem langar að taka við búi foreldra sinna en hrýs hugur við óvissunni og áhættunni sem því fylgir.

Bændafundirnir endurspegluðu áhyggjur af fleiru. Eftir hörmungarótíð sumarsins sem aldrei kom var mönnum tryggingavernd landbúnaðarins ofarlega í huga. Vorhretin, kuldinn og látlausar rigningar sumarsins léku bændur grátt og tjón margra þeirra skiptir hundruðum þúsunda og jafnvel milljónum. Á fundunum var einnig mikið rætt um þörfina fyrir stefnu stjórnvalda í notkun jarðnæðis í sveitum landsins. Hvernig vilja stjórnvöld og landsmenn nýta það og hvernig stefnu eigum við að setja um eignarhald þess? Í þessari umræðu bar auðvitað hæst áhyggjur af uppkaupum auðmanna á bújörðum og fyrirhuguð notkun þeirra til annars en matvælaframleiðslu.

Það var líka kallað eftir stefnu stjórnvalda í málefnum dreifðra byggða og einkum þar sem byggðafestu er ábótavant. Þegar íbúafjöldi einstakra byggðarlaga og sveita nær ekki hið minnsta að standa í stað getur fólksflótti undið hratt upp á sig og að lokum orðið óstöðvandi. Slík sögulok eru alltaf dýru verði keypt fyrir allt samfélagið. Þess vegna er svo mikilvægt að þróttmikil byggðastefna stjórnvalda geri fólki kleift að snúa vörn í sókn og treysta undirstöður áframhaldandi byggðar og verðmætasköpunar í stað yfirgefinnar atvinnustarfsemi og búsetu.

Og bændur hafa áhyggjur af orkumálum. Skömmtun á rafmagni er mikið áhyggjuefni og getur í mörgum búgreinum haft alvarlegar afleiðingar. Raforkuverð til bænda hefur tvöfaldast á síðustu fjórum árum. Sem sagt hækkað um 25% á ári og þar af leiðandi eitt hundrað prósent á þessu tímabili. Spádómar um svipaðar hækkanir næstu fjögur árin bæta svo gráu ofan á svart svo ekki sé fastar að orði kveðið. Fyrir ylrækt garðyrkjubænda yrði það í raun rothögg.
Þess vegna lýsir Axel Sæland, formaður búgreinadeildar garðyrkjubænda, yfir áhyggjum sínum af því að brátt verði talað um íslenska garðyrkju í þátíð.

Stuðningur stjórnvalda við íslenskan landbúnað, tollverndin og nýir búvörusamningar sem taka eiga gildi árið 2027 voru bændum eðlilega líka ofarlega í huga. Við keppum við ríkisstyrktan landbúnað í öllum nágrannalöndum okkar og engum dettur í hug að við íslenskar aðstæður geti landbúnaður þrifist án sambærilegs stuðnings. Ekki endilega meiri stuðnings en hið minnsta álíka mikils enda þótt leiðirnar að þeirri niðurgreiðslu hins endanlega verðs til neytandans séu mismunandi. Ein leiðin í þessum efnum gæti verið tilslökun í því íþyngjandi regluverki sem búreksturinn lýtur og er oft og tíðum talsvert umfram það sem annars staðar gerist. Bændum er líka ljós þörfin fyrir eins mikla hagræðingu og frekast er unnt á vinnslustigi afurðanna.

Spjótin standa sem sagt á stjórnvöldum. Þau stærstu eru ákall um stefnu í rekstrarumhverfi landbúnaðarins og stefnu í nýtingu þess lands sem bændum hefur verið treyst fyrir. En það er líka ákall um kúvendingu í stefnu sem mörkuð var fyrir nokkrum árum og er einfaldlega vond. Reyndar stórhættuleg fyrir landbúnaðinn eins og rekstur svo margra smærri fyrirtækja í landinu. Þar á ég auðvitað við þá stefnu, og um leið það lögbundna hlutverk sem Landsvirkjun hefur, að selja íslenska raforku hverju sinni hæstbjóðanda og hámarka þannig arðgreiðslur sínar til eigandans.

Ný ríkisstjórn þarf einfaldlega að breyta þessari eigandastefnu sinni gagnvart Landsvirkjun. Það er a.m.k. algjörlega útilokað fyrir bændur í einstaklingsrekstri sínum og fjölskyldubúskap að keppa við álver og kísilverksmiðjur í raforkuverði. Gagnvart núverandi stöðu í raforkuverði og fyrirsjáanlegri þróun á næstu árum fallast mönnum einfaldlega hendur.

Græna raforkan er eitt af flaggskipum íslensks landbúnaðar. Hún skiptir gríðarlega miklu máli í ímynd matvælaframleiðslunnar. Það eru hins vegar takmörk fyrir því hve dýru verði hægt er að kaupa hana. Ég leyfi mér að fullyrða að við séum, að minnsta kosti hvað grænmetisræktun varðar, komin upp undir rjáfur og jafnvel rúmlega það. Í öðrum búrekstri er 100% hækkun síðastliðinna fjögurra ára auðvitað ekki bara íþyngjandi heldur óþolandi. Hér hafa stjórnvöld svo sannarlega verk að vinna. Tafarlaust þarf að grípa í taumana.

Margir þingmenn og frambjóðendur allra flokka sóttu bændafundina okkar og fengu þannig baráttumál bænda beint í æð. Eftir samtöl mín við það fólk og þá sem komið hafa til okkar í Borgartúnið síðustu dagana er ég sannfærður um að á málefnum landbúnaðarins er talsverð þekking og góður skilningur. Vonandi dugar það til þess að ný ríkisstjórn sýni það í verki að hún vilji grípa með bændum þau fjölmörgu nýju sóknarfæri sem blasa við íslenskum landbúnaði á komandi árum ef vel er á spilunum haldið.

Eru áhrif koltvísýrings á loftslagið ofmetin?
Lesendarýni 2. janúar 2025

Eru áhrif koltvísýrings á loftslagið ofmetin?

Viðurkennt er að koltvísýringur (CO2) getur fangað ákveðna tíðni varmaútgeisluna...

Sólarorka – fortíð, nútíð og framtíð
Lesendarýni 2. janúar 2025

Sólarorka – fortíð, nútíð og framtíð

Geislar sólarinnar voru í aldaraðir nýttir til beinnar upphitunar híbýla. Elstu ...

Er aukefnunum ofaukið?
Lesendarýni 30. desember 2024

Er aukefnunum ofaukið?

Ég (Anna María) bjó lengi í Danmörku, en eftir að hafa flutt til Íslands fór ég ...

Við áramót
Lesendarýni 30. desember 2024

Við áramót

Við áramót er gott tilefni til að hyggja að þeim atriðum sem hæst ber í blóðnytj...

Flekkur kom úr langferð á jólaföstu
Lesendarýni 27. desember 2024

Flekkur kom úr langferð á jólaföstu

Hér á bæ fæddist svartflekkóttur lambhrútur 14. maí 2021, fremur smár tvílembing...

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...