Gosi spýtustrákur
Eitt ástsælasta ævintýri allra tíma um spýtustrákinn Gosa mun gleðja vini og velunnara leikfélags Vestmannaeyja.
Leikritið var samið á sínum tíma upp úr hinni þekktu ítölsku sögu Carlo Gollodi sem var útgefin seint á 19. öld, þó fleiri kannist ef til vill við Gosa úr ævintýraheimi Disney.
Ævintýrið er þroskasaga, enda lærir Gosi ýmislegt af reynslunni á ferðum sínum áður en hann ratar aftur í fang föður síns. Eins og flestir vita er faðir hans trésmiður sem óskaði þess afar heitt að eignast son og útbjó sér þess í stað trébrúðu.
Óskin rætist með hjálp álfkonu nokkurrar og ganga þeir feðgar í gegnum ýmsar þrautir áður en þeir ná saman sem faðir og sonur. Svo stingur Gosi af að heiman ... svona eiginlega óvart.
Verður verkið frumsýnt þann 10. nóvember, miðasölusíminn 852-1940 opnar miðvikudaginn 8. nóvember kl. 16 og sýnt verður í Kviku við Heiðarveginn að vanda. Önnur og þriðja sýning verða 11. og 12. nóvember klukkan 15 og svo er um að gera að fylgjast með fleiri sýningum, en þær verða um helgar.