Sól í hjarta, sól í sinni
Nú þegar dagarnir hafa einkennst aðeins of lengi af gráma og rigningu gefur hver sólarglæta von um heitt og sólríkt sumar. Með það í huga er gott að rýna í dagskrá sumarsins og hlakka til betri tíðar.
Að venju eru sólstöðuhátíðir víðs vegar um landið og einhverjir velta sér í dögginni um Jónsmessuna. Bíladagar á Akureyri kitla aðra, þrjátíu ára afmæli Humarhátíðarinnar á Höfn ætti að verða lengi í manna minnum, Color Run hlaupið gleður marga – a.m.k. ef ekki rignir – og svo auðvitað hátíðir verslunar- mannahelgarinnar í bland við allar þær tónlistarhátíðir, Danska eða Franska daga, vökur og þess háttar sem fyrirfinnast.
Eitthvað er um réttindagöngur á borð við Druslugönguna í Reykjavík sem verður í ár haldin þann 23. júlí nk. Stendur Druslugangan fyrir því að færa ábyrgð kynferðisglæpa frá þolendum yfir á gerendur.
Gleðigangan er önnur vel þekkt og vel sótt réttinda- ganga hinsegin fólks, kröfuganga sem kallar eftir jafnrétti, vitundarvakningu og útrýmingu mismununar, en einnig til að fagna því sem hefur unnist í baráttunni. Er hún haldin í borgum víðs vegar um heim, þó ekki alltaf á sama tíma.
Á Íslandi hefur hún verið gengin í Reykjavík í ágústmánuði frá árinu 2000 sem hluti af Hinsegin dögum sem haldnir eru á sama tíma. Gleðigangan er að jafnaði gengin fyrsta laugardag eftir frídag verslunarmanna og upplagt að taka þátt í henni.
HÉR er svo örlítið yfirlit þess sem helst er á döfinni í júnímánuði hérlendis. Júlí og ágúst verða eðlilega næstir á dagskrá er líða tekur á sumarið og reynum við að fjalla um það helsta sem er á döfinni þá mánuði.
Þeir sem hafa upplýsingar um skemmtanir eða hátíðarhöld sem þeir vilja deila með öðrum mega hafa samband á netfangið sigrunpeturs@bondi.is.