EuroTier er haldin annað hvert ár og þykir eftirsóknarvert fyrir fyrirtæki í landbúnaði að hljóta verðlaun fyrir nýjungar á sýningunni.
EuroTier er haldin annað hvert ár og þykir eftirsóknarvert fyrir fyrirtæki í landbúnaði að hljóta verðlaun fyrir nýjungar á sýningunni.
Á faglegum nótum 22. nóvember 2024

214 heimsfrumsýningar á EuroTier

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Hin heimsfræga þýska landbúnaðarsýning, EuroTier, var haldin í síðustu viku, en þessi sýning er haldin annað hvert ár. Sýningin, sem er sérhæfð í búfjárrækt og þá sérstaklega í nautgripa-, svína- og alífuglarækt, er sú stærsta sinnar tegundar í heiminum. Þar er aðaláherslan lögð á tækni og þjónustu við fyrrnefndar búgreinar, en einnig eru haldnar hefðbundnar kynbótasýningar á sýningunni. Í ár voru 2.193 fyrirtæki, frá 51 mismunandi landi, á sýningunni að kynna vörur sínar og þjónustu.

EuroTier hefur þá sérstöðu meðal landbúnaðarsýninga að flest fyrirtæki í fyrrnefndum greinum landbúnaðarins reyna yfirleitt að nota sýninguna til þess að frumsýna nýjungar í von um að vinna til heiðursverðlauna sýningarinnar. Sýningin í ár stóð svo sannarlega undir því og var sérstök fyrir þær sakir að fjögur fyrirtæki fengu gullverðlaun sýningarinnar.

Sýninguna, sem stóð í fjóra daga, sóttu nærri 120 þúsund gestir frá 149 löndum. Í þessari grein verður fjallað sérstaklega um nokkrar af þeim nýjungum sem voru heimsfrumsýndar á sýningunni.

255 reyndu við verðlaunin

Í ár höfðu verið sendar inn 255 umsóknir um viðurkenningu EuroTier á nýjungum fyrirtækja og voru 214 þeirra metnar nógu miklar nýjungar til að fá nánari meðhöndlun dómnefndar. Þessar nýjungar komu frá ólíkum fyrirtækjum með starfsstöðvar í 22 mismunandi löndum.

Til þess að geta komið til greina til gullverðlauna þarf nýjungin að vera metin svo af dómnefnd að hún hafi verulega þýðingu fyrir bændur, hlúi að dýravelferð, dragi úr vinnuálagi og orkunotkun og hafi jákvæð áhrif á umhverfið. Eins og gefur að skilja ná ekki allar nýjungar í landbúnaði að uppfylla svona stíf skilyrði og á endanum hlutu s.s. eins og áður segir fjórar nýjungar gullverðlaun sem verður fjallað nánar um hér fyrir neðan.

Milligerði með blæstri

Fyrirtækið Cow-Welfare A/S var eitt af fjórum fyrirtækjum sem hlutu gullverðlaun en fyrirtækið hefur í áraraðir verið fremst meðal jafningja þegar kemur að lausnum til að bæta velferð nautgripa. Lausnin sem fyrirtækið fékk verðlaun fyrir kallast Flex Air Stall, sem þýða mætti sem „breytileg loftræsting í básum“ en tæknin byggir á því að dæla lofti í kringum kýr sem liggja á legubásum. Hitastreita í kúm er eitthvað sem kúabændur víða um heim hafa í auknum mæli verið að horfa til í þeim tilgangi að bæta árangur búa sinna enn frekar en beint neikvætt samhengi er á milli afurðasemi og hitastreitu í kúm, sé umhverfishitinn yfir 20 gráðum.

Hitastreita hjá kúm er vaxandi vandamál sem mögulega má leysa með því að blása lofti á kýrnar þar sem þær liggja í básum sínum.

Kýr sem eru afurðamiklar, umsetja mikið fóður og þegar það brotnar niður í vömb með gerjun verður til hiti sem kýrnar þurfa að losna við. Þetta er lítið mál fyrir þær sé kalt í veðri en þegar hlýnar þarf að hjálpa kúnum að losna við þennan aukahita, því ef það er ekki gert þá draga þær einfaldlega úr áti og þar með eigin hitaframleiðslu. Áhrifaríkasta leiðin til að hjálpa kúnum að gera þetta, þ.e. losna við umfram hitaorku, er að kæla þær með lofthreyfingu og oftast eru notaðar stórar viftur í þeim tilgangi. Flex Air Stall kerfið frá Cow-Welfare gerir hins vegar bændum kleift að beina fersku lofti beint inn á legusvæði kúnna í fyrsta skipti. Ferskt útiloft er sogað inn í eins konar slönguloftræstikerfi sem liggur um alla legubása fjóssins og er raunar hluti af innréttingum legubásanna. Loftinu er svo beint inn á legusvæðið úr fimm opum sem boruð eru í básaskiljuna, þ.e. rörið sem aðskilur einn legubás frá öðrum, og með því er hægt að skapa kúnum þægilegt og vel loftræst umhverfi í legubásnum sjálfum.

Gervigreind ber með sér ótal möguleika og nú er m.a. komin lausn fyrir kúabændur til að fylgjast enn betur með heilbrigði kálfanna með CalfGPT.
Gervigreind passar upp á kálfana

Fyrirtækið Förster-Technik GmbH hlaut ein af áðurnefndum fernum gullverðlaunum, en þeirra nýjung snýr að notkun gervigreindar til að bæta búskapinn með búnaði sem heitir CalfGPT. Dagleg umhirða kálfa krefst mikils tíma og athygli bænda enda eru kálfarnir framtíðarmjólkurkýr búsins. Hið stutta tímabil í lífi kálfsins, þegar hann fær mjólk að drekka fyrstu 7-8 vikur lífsins, skiptir sköpum fyrir síðari mjólkurframleiðslu enda mótast framtíð hverrar mjólkurkýr á fyrstu vikum lífsins, jafn merkilegt og það hljómar.

Til þess að létta sér vinnuna við kálfaeftirlit geta bændur í dag notað margs konar skynjara og sjálfvirka fóðrunartækni sem safna miklu magni gagna og upplýsinga um smákálfana, atferli þeirra og þrif. Þessar upplýsingar eru dýrmætar og hjálpa hverjum bónda að fylgjast með kálfunum og heilsu þeirra. Hins vegar þarf oft að sækja þessi gögn á ólíka staði og jafnvel að mata tölvur á upplýsingum o.s.frv. Með CalfGPT býður Förster-Technik upp á einkar áhugaverða lausn á þessu en fyrirtækið hefur þróað búnað sem byggir á hinu leiðandi gervigreindarkerfi frá OpenAI.

Þetta kerfi gerir í raun bóndanum kleift að gera frjálslega mótaðar fyrirspurnir um almennar aðstæður eða einstaka kálfa með því einu að nota raddtengingu í gegnum þráðlaust net og bóndinn fær svo að bragði sérstakar upplýsingar um kálfana og mögulega einnig viðvörun í farsíma eða spjaldtölvu ef á þarf að halda. Það sem er magnað við þetta kerfi er að fyrir fram ákveðnar skipanir eða stillingar eru ekki nauðsynlegar heldur getur kerfið einfaldlega skilið bóndann og með tengingu í öll tiltæk gögn bregst það við og svarar að bragði. Þá er hægt að nota kerfið einnig við skráningu, einfaldlega „tala“ við kerfið, t.d. með handfrjálsum búnaði, og „segja því“ hvað eigi að skrá eða gera og CalfGPT gerir stafrænt það sem um er beðið. Engin þörf á handvirkum skráningum eða notkun lyklaborðs, eiginlega hálf ótrúlegur búnaður sem fyrirtækið fékk réttilega gullverðlaun fyrir.

Plasmamítlagildra

Víða um heim eru sérstakir alifuglamítlar að valda usla í alifuglarækt og hafa bændur þurft að takast á við vandamálið með mismunandi efnum og lyfjum. Hingað til hafa ekki aðrar lausnir verið til staðar, en fyrirtækið Mik International GmbH & Co. leysti málið með því að búa til sérstakan búnað sem drepur mítla án þess að nota lyf eða efni. Fyrir þetta nýja tæki, sem fyrirtækið kallar plasmamítlagildru, fékk það réttilega gullverðlaun á EuroTier.

Þessir mítlar, sem fyrirfinnast í alifuglahúsum um nánast allan heim, og sér í lagi varphúsum, lifa og fjölga sér í næsta nágrenni við hænurnar og síga niður á þær í myrkri til að sjúga blóð þeirra. Ef mítlunum fjölgar mikið skerðist heilbrigði hænanna verulega sem og arðsemi framleiðslunnar. Þess vegna hafa bændur verið að nota alls konar aðferðir til þess að drepa þennan vágest og með nýju plasmamítlagildrunni ættu bændur ekki að þurfa að nota lyf eða einhver eiturefni í þessari baráttu sinni.

Kerfið virkar þannig að mítlarnir verða útsettir fyrir köldu andrúmsloftsþrýstingsplasma, sem myndast með sérstakri rafhleðslu í útblásturshólfinu á tækinu. Þetta plasma hefur áhrif á mítilinn sjálfan sem og mítlaegg en hefur engin neikvæð áhrif á hænurnar. Kerfinu er einfaldlega komið fyrir undir setprikum hænanna og vinnur þar vinnuna sína. Mítlarnir drepast og detta niður á gildruna sem er einnig búin sjálfvirku hreinsikerfi, sem ýtir dauðum mítlum ofan af gildrunni.

Mítlar valda víða usla í alifluglarækt og hafa bændur þurft að takast á við vandamálið með mismunandi efnum og lyfjum. Með nýju plasmamítlagildrunni er loks hægt að takast á við vandamálið án notkunar á efnum eða lyfjum.

Sjálfvirkur bólusetningarþjarki

Fjórðu og síðustu gullverðlaunin féllu svo Agri Advanced Technologies GmbH í skaut, en það fyrirtæki hefur þróað sérhæfðan þjarka sem bólusetur alifugla sjálfvirkt! Bólusetning alifugla er víða stunduð í þeim tilgangi að draga úr líkum á því að fuglarnir veikist af einhverjum pestum. Til þessa hefur þetta verið gert handvirkt og það hefur sýnt sig að þessi vinna getur falið í sér streitu og jafnvel sársauka fyrir alifuglana.

Agri Advanced Technologies hefur nú þróað fyrstu sjálfvirku aðferðina fyrir bólusetningu alifugla en aðferðin byggir á notkun þjarka sem getur bólusett af miklu öryggi hvern einasta fugl. Kerfið gerir kleift að sprauta allt að sex mismunandi bóluefnum samtímis með áður óþekktri nákvæmni og hraða. Kerfið vinnur þannig að hver fugl er settur handvirkt í sérhannað statíf sem er fest við færiband sem svo rennir fuglinum fram hjá þrívíddarskanna auk bæði innrauðrar og hefðbundinnar myndavélar. Öllum söfnuðum gögnum er hlaðið upp í forrit sem getur reiknað út á örskotsstundu hvernig viðkomandi fugl er byggður upp og hvar eigi að stinga nál með bóluefnum í bringuvöðva fuglsins. Fuglinn rennur svo áfram eftir færibandinu og sérstakur armur þjarksins sprautar bóluefninu í fuglinn af nákvæmni.

Talið er að þessi tækni muni leiða til umtalsverðrar aukningar á gæðum bólusetninga og auk þess að draga talsvert úr mögulegri streitu fuglanna. Kerfið bætir að auki bú- og vinnustjórnun með því að draga úr vinnuálagi.

Í alifuglarækt getur þurft að bólusetja fugla gegn sjúkdómum, sem er afar tímafrekt. Nú er hægt að gera þetta með alsjálfvirkum þjarka!

21 silfurverðlaun

Auk framangreindra gullverðlauna hlaut 21 nýjung silfurverðlaun en þessi verðlaun voru veitt nýjungum sem komust næst því að uppfylla skilyrði þess að hljóta gullverðlaun. Hér verður ekki farið nákvæmlega yfir lista allra þeirra sem fengu silfurverðlaun en meðal verðlauna voru fóðurbætandi efni fyrir nautgripi, ný og endurbætt háþrýstiþvottadæla sem dregur úr vinnuálagi þess sem notar hana, rafsótthreinsibúnaður fyrir frjóvguð egg, ný gólfgerð fyrir búfé sem dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda og fleira mætti nefna. Áhugasömum er bentáaðhægteraðlesasértilum allar nýjungar sem fengu verðlaun á EuroTier í ár á heimasíðu sýningarinnar: www.eurotier.com.

Í næsta Bændablaði verður haldið áfram umfjöllun um þessa mögnuðu landbúnaðarsýningu sem og tvær bændaheimsóknir rúmlega 50 manna hóps íslenskra bænda sem einnig sótti sýninguna heim.

Skylt efni: EuroTier

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...