Aðfangaverð í landbúnaði leitar niður á við
Hagstofur og bændasamtök ýmissa landa hafa tekið upp á því að mæla breytingar í aðfangaverði landbúnaðar og nota þær mælingar til að gera grein fyrir stöðu framleiðslugreinarinnar hverju sinni og hvernig ytri aðstæður hafa áhrif á rekstrarkostnað.
Rétt eins og með aðrar verðlagsmælingar er framsetningin yfirleitt í formi vísitölu. Hagstofa Evrópusambandsins, Eurostat, hefur verið framarlega í þessum greiningum en birtir niðurstöður sínar þó aðeins árlega og því nýtast þau gögn ekki alltaf vel. Svíþjóð, Írland og Slóvenía eru dæmi um þrjú ólík lönd sem hafa tekið upp á að birta aðfangavísitölu byggða á aðferðafræði Eurostat en þó birt sín gögn mánaðarlega.
Eins og fjallað hefur verið um margsinnis undanfarin misseri voru öfgakenndar hækkanir á aðfangaverði úti um allan heim í framhaldi af Úkraínustríðinu og heimsfaraldrinum. Þegar rýnt er í mælingarnar sést skýrt að þessi ólíku lönd, sem öll eru staðsett hvort á sínum enda Evrópu, eru á sama hagsvæði þegar kemur að landbúnaðaraðföngum. Til að mynda ná vísitölurnar þrjár lágpunkti sínum á nánast sama tíma og á það einnig við um hápunkt sinn. Leiðréttingin á verði frá þeirri skörpu hækkun sem byrjaði 2021 er þó komin mislangt hjá þeim. Í nýjustu mælingum, sem eru frá því í mars, er vísitalan í Svíþjóð búin að lækka um 9% frá sínum hæsta punkti en í Írlandi aðeins búin að lækka um 3%.
Samband aðfangaverðs og matvælaverðs er einnig sífellt til umræðu og sýna þessar töflur hvernig sambandið þar á milli hefur minnkað á undanförnum árum. Á árunum 2017 til 2020 hélst verðþróun aðfangaverðs í landbúnaði og matvælaverð nánast alveg hönd í hönd, mánuð eftir mánuð. Á árunum 2021 og 2022 jókst verðbólga í aðfangaverði umfram matvælaverð sem mánaðarlega nam 1,3% í Írlandi, 0,9% í Slóveníu og 0,8% í Svíþjóð. Nú þegar aðfangaverð eru farin að leita niður á við er áhugavert hvernig matvælaverð mun þróast á næstu tveim til þremur mánuðum.
Ekki er til aðfangavísitala fyrir íslenskan landbúnað en lögð hafa verið fram drög að þeirri vinnu. Í Verðlagsgrundvelli Kúabús, sú greining sem kemst næst því að vera aðfangavísitala íslensks landbúnaðar, var metið að breytilegur kostnaður þann 1. mars hafi verið 3% hærri en í desember árið á undan. Er það ekki í samræmi við þær breytingar sem farnar eru að sjást erlendis. Aðeins eru nokkrir dagar þar til að næsta útgáfa grundvallarins fær að líta dagsins ljós og vonandi verða betri fréttir í honum.