Árdagar rúlluverkunar
Rúlluvél af gerðinni Claas Rollant 44 var nýlega flutt á Landbúnaðarsafnið til varðveislu. Sú rúlluvél var tekin í notkun í lok sumars árið 1982 í Nesi í Reykholtsdal af feðgunum Bjarna Guðráðssyni og Sigurði Bjarnasyni.
Þetta eintak er fyrsta rúlluvélin sem tekin var í búvélaprófanir á Hvanneyri og önnur af tveimur fyrstu Claas rúlluvélum landsins. Umboðið fyrir Claas landbúnaðartæki var hjá Dráttarvélum hf., sem var dótturfyrirtæki SÍS. Gunnar Gunnarsson, þáverandi framkvæmdastjóri Dráttarvéla hf., man vel eftir því þegar Bjarni kom á skrifstofuna til sín með eintak af Norsk landbruk undir hendinni veturinn 1981- 1982. Í því blaði voru myndir af nýrri vél sem hafði reynst vel erlendis til að binda hey í rúllubagga og óskaði hann eftir því að Dráttarvélar hf. myndu útvega honum eina slíka.
Gunnar varð við þeirri ósk og í ágúst árið 1982 var rúlluvél komin í notkun í Nesi.
Þessi tiltekna vél var þó ekki fyrsta rúlluvélin á landinu, en í byrjun sumars sama ár höfðu nokkrar vélar (líklegast tvær eða þrjár) af gerðinni Krone farið til íslenskra bænda. Sú saga verður tekin fyrir síðar.
Afraksturinn tryggari
Gunnar segir að með þessum vélum og með rúllupökkuninni hafi orðið bylting í fóðurverkun hér, bæði er varðar magn og gæði. Um langt árabil höfðu bændur glímt við verkun heyja í alls konar turnum og gryfjum með misgóðum árangri. Því gátu oft fylgt vandamál – ef ekki tókst að fergja almennilega og loka fyrir aðgang súrefnis gat myndast hin fúla smjörsýrugerjun. „Því fylgdi vond lykt sem smaug í gegnum merg og bein og í sparifötin sem menn notuðu á laugardagsballinu. Þetta breyttist allt með rúllutækninni og líf elskenda fór að lagast í sveitunum,“ segir Gunnar, sem um árabil spilaði á sveitaböllum. Við verkun rúllubagga hafi afraksturinn verið miklu tryggari samanborið við þær aðferðir sem áður voru notaðar.
Sigurður Bjarnason segir vel hafi gengið að tileinka sér þessa tækni þar sem notkun rúlluvélarinnar úti á túni svipaði til vinnulags við notkun á sjálfhleðsluvagni. „Það var spennandi að taka þátt í þessari þróun og breyta heyskaparaðferðum til hins betra.“ Eftir þetta komu rúllurnar alfarið í staðinn fyrir votheyið á bænum, en laust þurrhey var áfram verkað samhliða.
Settar í poka
Á þessum árum áttu bændur hvorki rúllugreipar né plastpökkunarvélar eins og notaðar eru í dag, því hafi meðhöndlun rúllubagganna krafist öðruvísi vinnulags en tíðkast núna. Þegar búið var að binda baggana úti á túni þurfti að flytja þá heim sem fyrst og setja þá í þar til gerða plastpoka um leið og þeim var staflað í stæðu. Í Nesi var flatgryfjan notuð sem geymslustaður. Pökkunin gat verið þriggja manna verk, þar sem einn var á traktor og lyfti rúllunum með sérútbúnum tindi á ámoksturstækjunum og keyrði inn í hlöðu. Síðan voru tveir sem settu pokann yfir og bundu fyrir með teygjum útbúnum úr dekkjaslöngum. Rúllunum var staflað í þrjár til fjórar hæðir og voru ekki hreyfðar fyrr en kom að því að gefa þær. Þegar rúllurnar voru meðhöndlaðar fyrir gjafir að vetrinum var þeim lyft með sérstöku spjóti sem hengt var í rafmagnstalíu á hlaupaketti. Þar sem pokarnir voru gjarnan notaðir oftar en einu sinni þurfti að byrja á að leysa teygjuna áður en þeim var lyft og sekkurinn tekinn af.
Kippur fylgdi plastpökkunarvélunum
„Fyrstu árin voru menn spenntir fyrir þessu og ég var í tvö-þrjú ár að rúlla fyrir aðra bændur þangað til þeir voru búnir að fá sér rúlluvél sjálfir,“ segir Sigurður. Eftir fjögur ár var tæknin orðin útbreidd í sveitinni kringum hann. Þegar plastpökkunarvélar komu fram á sjónarsviðið kom mikill kippur í rúlluvæðinguna þar sem meðhöndlunin varð talsvert auðveldari. Rúlluvélin í Nesi var notuð þangað til Bjarni hætti í búskap árið 2001. Sigurður segir að vélin hafi verið áreiðanleg þar sem gangverkið var tiltölulega einfalt. Einstaka sinnum skemmdust legur, en að öðru leyti gekk notkunin klakklaust fyrir sig.