Enn einn plúsinn í kolefnisspori dilkakjöts
Ég hef á undanförnum árum skoðað plúsa og mínusa í kolefnisspori kindakjöts. Á eftir einn þátt í viðbót, ekki mjög stóran á hvert kg kjöts, en telur samt.
Fyrst er rétt að fara í sérstöðu íslenskrar sauðfjárræktar, en hún felst í því að við nýtum úthagabeit. Úthagabeitin er eingöngu með jákvætt kolefnisspor; Það er sólarorkan sem drífur hana, engir mínusar. Hins vegar gerist það, eins og alls staðar, að nýting beitarinnar eykur jákvæðu hliðarnar á tvo vegu:
- Uppskera eykst við beit á grónu landi, samanber grein mína í Bændablaðinu september 2024, þar sem vitnað er í niðurstöður beitartilrauna Önnu Guðrúnu Þórhallsdóttur (2021)
og Lárus Pétursson (2024). - Þegar beitt er, minnkar það gras sem eftir verður og minna gras, sina, sem rotnar.
Þetta er í samræmi við annað í náttúrunni; Nýting eykur kolefnisbindingu þegar á heildina er litið, og þegar litið er til langs tíma, samanber 100 ára viðmiðun Nýsjálendinga. Hvað gefur þessi liður stóran plús í íslenskri sauðfjárrækt?
Ef við notum x kg þurrefnis í úthagagróðri til að framleiða eitt kg dilkakjöts þá myndast enginn CO2 af því við rotnun. Ef við reiknum með að 10% af þessu þurrefni hefði rotnað (á næstu árum) ef ekki hefði verið beitt, þá liti dæmið svona út samkvæmt grein minni í Bændablaðinu 12. september sl.: Til að framleiða 20 kg eftir kindina þarf 331,2 kg þurrefnis í úthaga/20= 16,56 kg þurrefnis á kg kjöts. 1,0 kg þurrefnis í úthaga bindur 1,58 kg koltvísýrings.
Áhrif beitar vegna þess grass sem kindin bítur og leiðir til minni rotnunar beitargróðurs, er því: 16,56X0,1X 1,58 = 2,616 kg CO2 á hvert kg kindakjöts.
Hér að framan var reiknað með að hver vetrarfóðruð kind framleiði 20 kg kjöts, miðað við þær forsendur sem ég hefi notað. Þær kunna að vera misjafnar frá einum bónda til annars. Það eru fjölmörg atriði sem hafa áhrif, en verða ekki tíunduð hér. Þó skal tekið fram að beit þarf að vera langt yfir hóflegu mörkin til að beitarþungi hafi neikvæð áhrif á kolefnisbindingu beitarplantna á grónu landi!
Í grein í Bændablaðinu 12. september 2024 kom fram, að hvert kg kindakjöts bindi 26,56 kg CO2. Hér að ofan hefur verið bent á að vegna beitar sauðfjár rotni minna af grasvexti sumarsins. Hér er reiknað með að 10% af því grasi sem kindin og lömb hennar bíta hefði rotnað á næstu árum, hefði það ekki verið bitið. Þessi 10% samsvara því að rotnun hefði verið minni sem svarar til 2,62 kg á hvert framleitt kg kindakjöts. Samkvæmt þessu má bæta 2,62 kg við jákvætt kolefnisspor kindakjöts, eins og það er sett fram í grein í Bændablaðinu 12. september 2024.
Kolefnisspor kindakjöts er þá:
26,56 + 2,62 = 29,22 kg í plús.
Ég geng út frá að útreikningar mínir séu réttir. Kindin er þá að binda (fría) 600 kg af koltvísýringi á ári, ef hún framleiðir 20,5 kg kjöts á hverja kind!
Á það má benda, að fjárbóndinn getur með hliðarafurðum, aukið bindingu verulega. Til dæmis með framleiðslu sauðamjólkur og einhverjum verðmætum afurðum úr henni!
Það hafa ekki enn komið fram neinar athugasemdir frá sérfræðingum á þessu sviði sem hnekkja þeirri hugmyndafræði sem ég hef unnið eftir.