Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Á faglegum nótum 5. maí 2017
Höfundur: Snorri Sigurðsson, sns@seges.dk
Í tengslum við aðalfund Landssambands kúabænda, sem haldinn var í mars sl., var haldið hið árlega Fagþing nautgriparæktarinnar og var dagskrá þess hin veglegasta, með 11 faglegum erindum.
Reyndar setti ófærð strik í reikninginn og voru mörg af erindum fagþingsins flutt af öðrum en til stóð í upphafi eða flutt með fjarfundabúnaði. Allt gekk þetta þó stóráfallalaust fyrir sig og verður hér á eftir gerð stuttlega grein fyrir erindunum.
Besta nautið frá Birtingarholti IV
Fyrsta erindið var sett saman af Guðmundi Jóhannessyni, ráðunaut hjá RML, og sá Guðný Helga Björnsdóttir, formaður Fagráðs í nautgriparækt, um að flytja erindið í forföllum Guðmundar. Fjallaði erindið um nautaárganginn 2009, þar sem Bolti 09021 frá Birtingarholti IV stóð uppúr en Bolti þessi á ættir að rekja til margra þekktra kynbótanauta íslenskrar ræktunarsögu. Fram kom í erindinu að dætur Bolta eru afurðakýr með hlutföll verðefna í meðallagi en stórar með sterklega fætur, háfættar og með mikla boldýpt og útlögur. Þá prýðir dætur Bolta úrvalsgóð spena- og júgurgerð. Júgrin eru vel löguð, ákaflega vel borin með bæði mikla festu og sterkt júgurband og þá eru spenar dætra Bolta hæfilega stuttir, grannir og vel settir. Þegar horft er til kynbótamatsins sjálfs fær Bolti 121 í einkunn fyrir afurðir en þó ekki nema 93 fyrir fitu en hins vegar 104 fyrir prótein. Gildin fyrir frjósemi og frumutölu eru heldur lág en útlitseiginleikar fá háa einkunn. Í heildina fær Botli 117 í kynbóta-einkunn.
Erfðamengisúrval er að bresta á
Næsta erindi flutti Baldur Helgi Benjamínsson, verkefnisstjóri hjá BÍ, en hann fjallaði um stöðu verkefnisins sem snýr að erfðamengisúrvali, en verkefnið snýr að innleiðingu úrvals á grunni erfða-mengis í kynbótastarf nautgriparæktarinnar og byggir m.a. á því að láta greina arfgerð helstu ætt-feðra íslenska kúastofnsins en af mörgum kostum erfðamengisúrvals má nefna að ættliðabil verður mun styttra, kostnaður minni þegar til lengdar lætur, framfarir verða hraðari og þá er hægt að stýra betur þróun skyldleika en nú er. Til stendur að greina arfgerð 48 nauta og skoða um leið skyldleika þeirra við önnur kúakyn því ef hann er til staðar má etv. samnýta upplýsingar. Tekin verða sæðissýni á Nautastöðinni á Hesti og send til greininga í Danmörku. Þá verður farið í að safna DNA sýnum úr fimm þúsund kúm að lágmarki til þess að afla nægra upplýsinga í gagnagrunn kerfisins. Einungis verður safnað sýnum á þeim búum þar sem er traust skýrsluhald, þar sem innlegg afurða hefur verið á bilinu 90,0-99,9% síðustu 3 árin og þar sem að lágmarki 75% af ásettum kvígum á sama árabili eru undan sæðingarnautum.
Anguskálfarnir fæðast næsta vor
Sigurður Loftsson, stjórnarformaður Nautgriparæktarmiðstöðvar Íslands ehf., tók saman erindi um stöðu innflutnings erfðaefnis holdagripa og sá Baldur Helgi um að flytja það í forföllum Sigurðar.
Verkefnið er nú komið það langt að nú í byrjun maí verða teknir 40 Angus fósturvísar í Noregi. Angus varð fyrir valinu þar sem það holdanautakyn er bæði þekkt fyrir að vera harðgert en um leið með afar gott skap, góð beitardýr og kýrnar bæði mjólkurlagnar og hafa léttan burð. Þá er auðvitað það sem mestu skiptir, að Angus er með rómuð kjötgæði. Þessir fósturvísar verða undan 10 Angus kvígum og fjórum Angus kynbótanautum, þar af verða fjórar af kvígunum sæddar með sæði úr kyn-bótanautinu „Li‘s Great Tigre 74039“. Naut þetta er fætt árið 2011 og er hæst dæmda norska Angus nautið núna með 122 í heildar kynbótaeinkunn. Eftir einangrun verða fósturvísarnir svo settir í kýr á Stóra-Ármóti í haust og ættu kýrnar þá að bera næsta vor. Um það bil ári síðar, vorið 2019, ætti þá að vera hægt að bjóða upp á nýtt Angussæði hér á landi. Vorið 2020 ættu því fyrstu kálfarnir að koma í heiminn hjá kúabændum landsins og má þá búast við því að kjöt af þessum gripum geti borist íslenskum neytendum síðla árs 2021 eða í byrjun árs 2022. Þessi tímalína setur vel í samhengi hve gríðarlega langur ferill þetta er og má hverjum vera ljóst að margt getur gerst í markaðsmálum hér á landi á tæplega fimm árum.
Minni strá en betri
Næsta erindi, sem var flutt af Þorsteini Ólafssyni dýralækni með fjarfundarbúnaði, snéri að nýjungum hjá Nautastöðinni á Hesti. Þar á bæ hefur til að mynda verið tekinn í notkun nýr búnaður sem gerir það að verkum að hægt var að minnka stráin sem notuð eru. Áður var skammtastærðin 0,53 ml með 30 milljón frumum í en nú, eftir breytingarnar, er skammtastærðin 0,23 ml með 25 milljón frumum í. Að sögn Þorsteins hefur gengið afar vel að taka hina nýju tækni í notkun og hafa orðið lítil afföll af sæði.
Þá ræddi Þorsteinn einnig aðferðina SpermVital, sem er norsk aðferð og einkar áhugaverð sem tekin verður upp hér á land á næstunni. Með þessari aðferð má lengja verulega líftíma sæðis eftir að búið er að sæða kúna, þ.e. úr 18-30 klukkustundum upp í 48 klukkustundir. Þetta gerir það að verkum að líkur á því að kýrin festi fang aukast verulega og er mælt með því að nota þessa gerð af sæði á kýr sem beiða reglulega upp. Sæði þetta er töluvert dýrara í Noregi og verður það ef til vill hér á landi einnig en þar sem verðlagning á sæðingum er afar misjöfn á milli svæða á eftir að finna endanlega leið sem notuð verður.
Margt í deiglunni
Guðmundur Jóhannesson, ráðunautur hjá RML, hafði tekið saman erindi með yfirlit yfir helstu verkefni sem hlotið hafa styrki úr Þróunarsjóði nautgriparæktarinnar og eru í vinnslu.
Í forföllum Guðmundar flutti starfssystir hans, Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir, þetta erindi. Svo virðist sem töluverður uppgangstími sé kominn á ný þegar horft er til rannsókna í nautgriparækt. Þannig er t.d. verið að vinna við uppgjör verkefnis sem snéri að því að safna gögnum á seinni hluta mjaltaskeiðs og hins vegar að afla gagna um át við mismunandi fóðrunaraðstæður sem algengar eru í dag á íslenskum kúabúum.
Annað verkefni snýr að því að efla nautakjötsframleiðslu sem búgrein, bæði rekstarlega og faglega og þá er verið að leggja lokahönd á skýrslu verkefnis sem snéri að því að meta hámarksvaxta-rgetu íslenskra nauta til kjötframleiðslu.
Mörg önnur verkefni mætti tína hér til, en alls voru 16 mismunandi verkefni tilgreind. Auk þess eru fjórir háskólanemar að vinna að rannsóknaverkefnum á sviði nautgriparæktar.
Heymetisturnarnir að koma aftur?
Sigtryggur Veigar Herbertsson, bútækniráðunautur hjá RML, flutti áhugavert erindi um nýjungar í bútækni og um möguleika kúabænda á breytingum. Margar áhugaverðar nýjungar eru í boði nú til dags og nýting margskonar upplýsingatækni bæði utan sem innan fjóss virðist vera nauðsynlegur þáttur í kúabúskap framtíðarinnar.
Í dag er t.d. hægt að fá afar góðar sjálfvirkar uppskerumælingar, bæði með vélbúnaði á jörðu niðri sem og með gervihnöttum, en gögn sem þessi nýtast til þess að mæla bæði uppskeruna en einnig til þess að aðlaga ólíka áburðargjöf að þörfum landsins hverju sinni.
Sigtryggur velti því einnig fyrir sér hvort breytingar séu framundan þegar horft sé til hönnunar fjósa og tók sem dæmi að víða eru haughús bönnuð vegna meiri losunar gróðurhúsalofttegunda frá slíkum geymslum en öðrum, þó til sé tækni í dag sem dregur verulega úr framangreindri losun haughúsa sem gæti verið lausn á málinu.
Þá sé dagljóst að rúlluplast geti vart annað en hækkað í framtíðinni og velti fyrir sér hvort framtíðin beri í skauti sér að fara aftur til fortíðar með því að verka þurrhey eða setja fóður í nútíma heymetisturna, sem vel að merkja eru allt öðruvísi og betur hannaðir í dag en þeir sem hér voru reistir á sínum tíma.
Horfur í framleiðslumálum
Þeir félagar Ágúst Andrésson, formaður Landssamtaka sláturleyfishafa, og Bjarni Brynjólfsson, skrifstofustjóri Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði, fjölluðu um stöðu og horfur í framleiðslu-málum búgreinarinnar. Þar sem þeir voru báðir veðurtepptir, eins og svo margir aðrir, fluttu þeir erindi sín um fjarfundabúnað.
Bjarni hafði tekið saman afar greinargott yfirlit um fjölda mjólkurkúa hér á landi og um helstu áhrifaþætti á mjólkurframleiðsluna en ýmis teikn eru á lofti sem benda til þess að dregið gæti úr mjólkurframleiðslu á næstunni. Um það sé þó erfitt að spá í raun, enda hafa kúabændur landsins áður sýnt að hægt er að auka framleiðsluna verulega á stuttum tíma. Tölurnar tala þó sínu máli og t.d. var förgun mjólkurkúa meiri árið 2016 en verið hefur frá árinu 2012 og þá var kvíguförgun meiri árið 2016 en árin 2014 og 2015.
Framleiðendum fækkaði einnig nokkuð hratt árið 2016 en á móti hafi komið góð nytaukning sem hafi skilað góðri mjólkurframleiðslu árið 2016.
Ágúst fór m.a. í máli sínu yfir stöðuna á nautakjötsmarkaðinum en við blasa bæði ógnanir sem bregðast þarf við en einnig tækifæri sem grípa þarf í þágu greinarinar. Nýr tollasamningur við Evrópusambandið og styrking krónunnar hefur gert samkeppnisstöðuna erfiðari og því blasir við að grípa þurfi til aðgerða s.s. með fækkun afurðastöðva, en KS hefur riðið á vaðið með því að fækka stórgripasláturhúsum sínum úr þremur í tvö. Fyrir vikið skapast um leið tækifæri við bætta nýtingu hliðarafurða, sem eykur verðmætasköpun búgreinarinnar. Þá gat hann þess að bæta þurfi upplýsinga-öflun frá bændum svo hægt sé að viðhafa betri stjórn á atriðum eins og þörf fyrir slátrun svo dæmi sé tekið. Hann ræddi einnig nýja EUROP kjötmatið en upptaka á því ætti að leiða til betri ávinnings fyrir búgreinina. Í fyrstu er fyrirséð að ákveðinn vandi er að útbúa sanngjarna verðskrá sem hefur eðlilega tengingu við gamla kjötmatskerfið en það sé allt á réttri leið.
Fjármögnun og arðsemi kúabúa
Runólfur Sigursveinsson, fagstjóri rekstrar hjá RML, flutti tvö erindi á fagþinginu og snéru þau annars vegar að fjármögnun framkvæmda og hins vegar að arðsemi og möguleikum til hagræðingar við mjólkurframleiðsluna. Fór hann m.a. sérstaklega yfir forsendur sem gerðar eru við lána-fyrirgreiðslu þar sem fjármögnunaraðilar leggja m.a. töluvert upp úr því að fyrir liggi bæði fjár-festingar- og rekstaráætlun. Þá útskýrði hann helstu lykilhugtök þegar lán eru rædd og fór yfir helstu kosti og galla ólíkra gerða af lánum s.s. lán með jöfnum afborgunum, jafngreiðslulán og sk. kúlulán. Ennfremur velti hann fyrir sér hvort ástæða sé til þess að hugsa um fjármögnun með nýjum hætti hér á landi og nefndi sem dæmi um nýja nálgun hvernig danski lífeyrissjóðurinn AP pension hefur komið inn í þarlendan landbúnað með nýjan lánaflokk.
Í hinu erindinu kom hann m.a. inn á það hvernig arðsemi er metin í kúabúskap en hægt er að notast við margar ólíkar aðferðir s.s. með því að skoða EBITDA búsins, þ.e. hagnað fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta. Almennt er hún hér á landi frá 10–35% og framlegðarstig búanna frá 40 og upp í tæp 70%. Til þess að geta metið almennilega eigin rekstur er afar mikilvægt að geta borið sínar niður-stöður saman við niðurstöður annarra í búgreininni en til þess þarf að samnýta upplýsingar úr gagnagrunnum. Það krefst hins vegar samþykkis notenda og því miður hafi allt of fáir gefið samþykkti sitt fyrir slíkri notkun. Þá kom Runólfur með sláandi dæmi um tekjumun á sambærilegum búum, með 200 þúsund lítra ársframleiðslu, upp á hvorki meira né minna en 1,6 milljónir króna á ári vegna ólíks efnainnihalds mjólkur! Hreint ótrúlegt að einhver hafi efni á því að missa af þessum árstekjum. Enn fremur hefur í samanburði Runólfs komið fram mikill munur á gjaldahlið búanna sem bendi til þess að hægt sé að bæta verulega úr.
Ala nautin hratt og vel
Síðasta erindið fagþingsins flutti Sigríður Ólafsdóttir, ráðunautur RML, og fjallaði það um arðsemi og möguleika til hagræðingar við nautakjötsframleiðslu en hún kom með dæmi, sem ættu að vekja alla framleiðendur á nautakjöti til umhugsunar, um gríðarlega ólíkar tekjur af sambærilegum nautum. Þannig væri hægt að fá 250 kílóa fall á 19 mánuðum og fá 103 þúsund í framlegð af framleiðslunni, sem væri nákvæmlega sama framlegðin og fengist af því að ala naut í 24 mánuði með fallþunga upp á 295 kíló! Þá væri ennfremur, með lélegri fóðrun, hægt að tapa verulegum fjármunum í samanburði við framangreint dæmi, en sé knapt fóðrað og fallið ekki nema 185 kíló við 24 mánaða aldur þá fæst ekki nema 11 þúsund í framlegð af gripum, munar þar um heilar 92 þúsund á þessum sambærilegu gripum!
Eins og áður segir er hér einungis um stuttlega lýsingu að ræða en hafi umfjöllunin vakið spurningar eða frekari áhuga skal enn bent á að hægt er að skoða flest erindin, þ.e. glærurnar, á vef Landssambands kúabænda: www.naut.is og þá eru einnig til upptökur af fluttum erindum á Facebook síðu-samtakanna.
Snorri Sigurðsson
sns@seges.dk
Á faglegum nótum 9. janúar 2023
„Spjallað“ við kýr
Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...
Á faglegum nótum 5. janúar 2023
Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...
Á faglegum nótum 5. janúar 2023
Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...
Á faglegum nótum 3. janúar 2023
Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...
Á faglegum nótum 2. janúar 2023
Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherranefndin heldur utan ...
Á faglegum nótum 30. desember 2022
Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...
Á faglegum nótum 28. desember 2022
Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...
Á faglegum nótum 27. desember 2022
Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...
24. nóvember 2020
Daði Már settur aðstoðarrektor Landbúnaðarháskóla Íslands
12. desember 2024
Verðhækkun á grænmeti mun fylgja hækkun á raforkuverði
21. desember 2022
Skötuilmur & íslensk gleði
19. desember 2016
Ofnsteikt appelsínuönd
20. desember 2024