Frábær aðsókn á fræðsludag Reiðmannsins
Laugardaginn 4. nóvember var fræðsludagur Reiðmannsins haldinn hjá Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri og má segja að það hafi verið fullt út úr dyrum.
Rúmlega 150 nemendur á fyrsta, öðru og þriðja ári tóku þátt og dagskráin var fjölbreytt og fróðleg.
Fróðlegir fyrirlestrar og sýnikennsla
Ein þeirra sem sótti fræðsludaginn er Margrét Lára Eðvarðsdóttir, hestakona frá barnsaldri og nemandi í Reiðmanninum I hjá hestamanna- félaginu Herði í Mosfellsbæ. Að hennar sögn var virkilega gaman að hitta nemendur í Reiðmanninum og spjalla um sameiginlegt áhugamál, hestana, heyra reynslusögur og skiptast á fróðleiksmolum úr náminu. „Fyrirlestrarnir voru mjög áhugaverðir og fjölbreyttir, allt frá almennri fræðslu um hesta, leiðtogahlutverkið, þjálfun og tamningar, en einnig um fóður, næringarþarfir, anatómíu hestsins og hrossasjúkdóma. Kennararnir voru sérstaklega vel undirbúnir og buðu upp á áhugaverða fyrirlestra og líflegar umræður og t.d. var Brúnki hennar Sonju Líndal eftirminnilegur og kenndi okkur mikið um uppbyggingu fóta, sinaskil og þreifingu kvíslbanda,“ segir Margrét. „Ég mæli svo sannarlega með námi í Reiðmanninum, þetta er það besta sem ég hef gert fyrir mína hestamennsku.“
Sýnikennsla fór fram í reiðhöllinni á Mið-Fossum eftir hádegi þar sem fjórir reiðkennarar Reiðmannsins fóru yfir ólíka þætti eins og notkun brokkspíra, tamningahross, leiðtogaþjálfun og fjölbreyttar þjálfunaraðferðir keppnishrossa. „Reiðkennararnir höfðu margt fram að færa og það bættist margt í verkfærakistuna mína þessa helgi. Ég mun treysta mér betur að meta hvenær er mikilvægt að gefa ormalyf, þreifa kvíslbönd ef ég verð vör við helti og nýta mér brokkspírur í þjálfun. Ég er einnig öruggari í að meta fóðurþarfir hestanna minna, vera leiðtogi og fá hrossin til að elta leiðandi taum. Auk þess mun ég eflaust kaupa mér tamningarbeisli á næstu dögum og prófa kannski að ríða stökk eins og „kúreki norðursins“.
Heppin að vera í kennarahópnum
Inga María S. Jónínudóttir er ein af reiðkennurum námsins og segir hún Reiðmannsnámið vera frábæra viðbót við það sem er í boði annars staðar. „Þetta er mestmegnis áhugafólk á öllum aldri sem þyrstir í að læra meira og er því fullt af áhuga og gleði yfir að vera komið inn í þetta nám. Ég get ekki annað sagt en að þetta sé það skemmtilegasta sem ég hef kennt og mér finnst ég vera svo heppin að hafa komist inn sem reiðkennari fyrir þremur árum,“ segir Inga María. „Randi Holaker er sú sem heldur utan um námið og veitir okkur kennurunum upplýsingar og utanumhald ásamt öllu bóklegu til nemendanna, hún er frábær í því. Við reiðkennararnir kennum svo uppsett námsefni á verklegum helgum með okkar áherslum hvert og eitt og gerum kennsluna eins einstaklingsmiðaða og kostur er. Fyrir okkur reiðkennarana er afar hvetjandi að sjá breytingar sem verða á hestum og knöpum því þegar reiðnemendur finna hvað þau geta haft mikil áhrif á hestinn til batnaðar og á þau sjálf sem knapa gerast ótrúlegir hlutir hjá þeim. Ég fæ svo aukinn kraft og gleði við kennsluna þegar nemandinn verður svona áhugasamur og sáttur með þetta. Nemendurnir eru langoftast að fylgjast með hver öðrum alla helgina og það myndast skemmtileg stemning í hópunum.“
Henna Johanna Sirén, reiðkennari og tamningamaður, er ein þeirra sem var með sýnikennslu og sýndi hún hvernig hægt er að nota brokkspírur í þjálfun til að gera hestinn flinkari á fótunum og til að hafa meiri áhrif á fætur hestsins, þ.e. „skrefin og hvert og hvernig hann stígur niður. Hún segir notkun brokkspíra í þjálfun vera skemmtilega tilbreytingu en einnig styrkjandi og liðkandi fyrir hestinn, og að rétt notkun þeirra geti haft jákvæð áhrif á líkamsbeitingu hans. „Með því að nota brokkspírur í þjálfun er hægt að hafa áhrif á skreflengd, auka bakhreyfingu og bakvirkni, styrkja vöðvana í framhluta hestsins sem og kviðvöðva. Brokkspírur geta einnig aukið einbeitingu hestsins þar sem hann þarf að einbeita sér að því hvar hann stígur niður og lyfta fótunum. Fræðsludagurinn var skemmtilegur og vel heppnaður og fyrir mig er frábært tækifæri að vera hluti af reiðkennurum námsins, fá að kynnast vel uppsettu námsefni og kenna eftir því,“ segir Henna Johanna að lokum.
„Ég get ekki mælt nógu mikið með þessu námi!“
„Eftir langa umhugsun ákváðum ég og maðurinn minn að skrá okkur í Reiðmanninn á síðasta ári og erum við nú á öðru ári. Það er ákvörðun sem ég sé svo sannarlega ekki eftir enda hefur námið umturnað minni hestamennsku,“ segir Tinna Dögg Kjartansdóttir, nemandi í Reiðmanninum II í Spretti í Kópavogi. „Námið er krefjandi en alveg hrikalega skemmtilegt og vinnuhelgarnar, sem haldnar eru einu sinni í mánuði, eru hápunktur hvers mánaðar.
„Ég hef verið í hestum frá því ég var barn og hélt að ég væri nú bara hinn fínasti reiðmaður, en svo kom í ljós að ég var að gera ansi margt vitlaust. Reiðmannsnámið hefur hjálpað mér mikið við að ná fram því besta í hestinum og það er líka frábært að yfirfæra það sem við lærum í náminu yfir á aðra hesta og finna hvernig þeir bæta sig með réttum ábendingum. Námið hefur opnað fyrir mér nýjan heim og nýtt hugarfar, þ.e., ég sem knapi þarf að taka ábyrgð og hugsa um hvað það er sem ég er að gera rangt ef hesturinn gerir eitthvað óæskilegt. Hlutirnir eru nefnilega aldrei hestinum að kenna,“ segir Tinna Dögg.
Um Reiðmanninn
Reiðmaðurinn er einingabært nám á vegum Endurmenntunar Landbúnaðarháskóla Íslands og eru þrjár námsleiðir í boði – Reiðmaðurinn I, Reiðmaðurinn II og Reiðmaðurinn III. Í janúar 2024 bætist fjórða námsleiðin við, Keppnisnám Reiðmannsins og er að verða uppselt í það nám. Randi Holaker er verkefnastjóri Reiðmannsins og hefur umsjón með náminu. Í dag eru rétt um 200 nemendur sem stunda nú nám í Reiðmanninum í 13 reiðmannshópum á 10 stöðum hringinn í kringum landið.
„Aðsókn í námið hefur tvöfaldast á síðastliðnum tveimur árum og virkilega ánægjulegt fyrir okkur sem komum að skipulagningu og umsjón námsins að finna þennan vaxandi áhuga,“ segir Áshildur Bragadóttir endurmenntunarstjóri. „Randi hefur mikla reynslu sem reiðkennari, tamningamaður, keppnisknapi, gæðingadómari og íþróttadómari og reynsla hennar og þekking hefur að mínu mati ýtt undir þennan mikla áhuga auk þess sem við erum með frábæran hóp reiðkennara sem eru meðal þeirra fremstu á landinu í dag,“ segir Áshildur að lokum.