Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Blandskógur þar sem uppistaðan er lerki og ösp.
Blandskógur þar sem uppistaðan er lerki og ösp.
Á faglegum nótum 23. október 2019

Fróðleiksþyrstir skógarbændur í Jótlandsferð

Höfundur: Hlynur Gauti Sigurðsson
Um mánaðamótin síðustu lögðu 36 skógarbændur land undir fót og ferðuðust til Jótlands í Danmörku. Ferðin var yfir fjóra sólríka daga og var ferðast og fræðst um skóg­rækt á Jótlandi vítt og breitt. 
 
Íslenski hópurinn lenti að kvöldi 23. ágúst í Billund með góða „kolefnis­samvisku“. Einhver hafði reiknað það út að einungis þyrfti hver og einn ferðalangur að hafa gróðursett 4 tré í sumar til að kolefnisjafna alla ferðina. Frá Billund var keyrt til Skive, en náttstaður ferðarinnar var allar nætur á Standhótelinu þar. 
 
Jótland
 
Jótland var ekki fyrir mjög mörgum áratugum í svipuðum sporum og Ísland. Vindarnir úr vestri blésu harðir og kaldir látlaust yfir harðbýlt landið. „Heiðarnar á Jótlandi“ er hugtak sem margir þekkja en áður fyrr var þar lítill skógur og lítil byggð, ólíkt því sem þekktist á eyjunum Fjóni og Sjálandi. Kotbændur Jótlands tóku sig á og ræktuðu skjólbelti í gríð og erg, um allar strendur og alla grundu. Sagan er vissulega lengri en þetta samstarf fyrr á tíð skilaði því að nú, um rúmri öld síðar, er búsældarlegt um allt Jótland að líta og fjölbreyttur landbúnaður þrífst vel. 
 
Það er gaman að rækta jólatré, en það krefst mikillar vinnu. Hér er verið að bera hormón á toppana til að trén verði sem formfegurst. Mynd / MJ
 
Dagur 1: Jólin koma
 
Christen Nørgård vinnur hjá Hede Danmark og var leiðsögumaður í ferðinni. Hann er öllum hnútum kunnugur um skóga Jótlands og það fengu ferðalangar svo sannarlega að kynnast. Auk þess skildi hann nokkuð í íslensku en gestgjafar töluðu alla jafna dönsku, að beiðni Íslendinganna. Stundum þótti danskan erfið og þá brá Jóhanna Sigurðardóttir sér í hlutverk túlks og þýddi hún allt sem fór fram, veldig godt, reyndar alla ferðina.
 
Skive sveitarfélagið hefur mikinn metnað fyrir fallegu, heilnæmu og náttúrulegu umhverfi. Við skoðuðum dæmi af skógarfurugróðursetningu á hálfum hektara. Í jaðri svæðisins er lagt kapp á falleg lauftré og runnagróður, þar sem allt er morandi í blómum og berjum. Þetta er fyrir íbúa að njóta og nýta, eftir þörfum. Einnig mun reiturinn laða að villt dýr, bæði fugla og ferfætlinga.  
 
Nærri bænum Herning hittum við hjú sem höfðu verið bændur í yfir hálfa öld. Áður voru þau með mjólkurbú en nú er lögð mest stund á skógrækt. Jörðin er 60 hektarar. Flestar jarðir í kring eru töluvert stærri og hafa megin lifibrauð sitt af kartöflurækt eða álíka.  Á bænum bar fyrir augum stór haugur af trjám sem höfðu verið felld fyrir ári síðan. Bóndinn sagði að þessi tré væru meira og minna ónýt til gagnviðar eftir stormfall og hefðu því verið dregin úr skóginum til að kurla í brenni fyrir sveitarfélagið. Áður en langt um líður mun stór kurlari, leigður út frá Hede Danmark, koma og kurla hauginn. Smærri trén kurla þau sjálf og nýta til að kynda sín eigin húsakynni.  
 
Lokaheimsókn þessa dags var hjá bónda sem hefur áratuga reynslu af jólatrjáarækt. Það var þó ekki fyrr en hann komst á eftir­laun að hann gat sinnt þessu áhugamáli sínu af fullum krafti. Hann ræktar mestmegnis Normansþin og lítilræði af glæsiþin og rauðgreni. Jörðin er alsett fallegum skjólbeltum og ýmiss konar skógarlundum. Það er að mörgu að hyggja þegar kemur að ræktun jólatrjáa ef þau eiga að falla í hæsta verðflokk. Trén þurfa að vera með staðlað vaxtarlag. Til þess að ná því þarf að beita klippum, hormónum og jafnvel eitri. Það þarf að huga að jarðvegsgerð og endurnýjun hans, passa illgresi og plágur og allt eftir kúnstarinnar reglum. Þetta finnst bóndanum greinilega mjög skemmtileg iðja og fyrir vikið fær hann mikla hreyfingu og útiveru. Uppskerutími er vanalega 5 ár og til að fá uppskeru árlega ræktar hann í nokkrum hólfum sem eru ýmist í ræktun eða í hvíld.
 
Í ríkisskóginum í Feldsborg er stunduð síþekjuskógrækt en þarna mun beykið í botninum einn daginn verða aðaltegundin á svæðinu. Mynd / MJ
 
Dagur 2: Hringrás skóga
 
Í Feldsborg er merkilegur skógur í eigu hins opinbera. Þar fór Jens Peter Clausen skógarvörður með okkur á söguslóðir skógræktar. Fyrir um tveimur öldum var allt kapp lagt á að rækta eik og notuðust menn við sáningu. Þegar þeir fóru að nota berrótaplöntur í hestdregin plógför var sáningu alfarið hætt. Í dag, og síðustu áratugi, hefur kerfi skógræktar einkum verið á formi „síþekjuskógræktar“. Þá er venjulega inngrip í skóginn á um það bil 10 ára fresti og gætt vel að því að hringrás skógarins sé ekki rofin. Það þýðir að hin „fornkveðna“ vaxtarlota, þar sem skógur er gróðursettur, látinn vaxa og loks rjóðurfelldur við uppskeru, er ekki viðhöfð. Það er margt sem kemur til. Oft er farið inn í skóginn til að grisja, en þá er grisjað lítið og hraustlegum trjám gefið meira vaxtarrými bæði vegna faraldra ýmiss konar og ofsaveðra. Stormar og þurrkar eru orðnir mun algengari en var hér fyrr á öldum. Þá eru gjarnan gróðursettar trjátegundir eins og eik, beyki og þinur undir skerm stórra trjáa og loks þegar ungu trén eru orðin hærri en 5 metrar er oftast lítið eftir af þeim trjám sem stóðu þar áður. Það má því segja að hvert inngrip í skóginn styður bæði við uppskeru og nýræktun. 
 
Eftir hádegi fórum við á veiði­lendur vestur í Ulfborg. Þar, á beitilyngsbreiðum, hefði verið hægt að sjá alls kyns dádýr að leik ef ekki væri fyrir ofsahita sólarinnar þessa vikuna. Við sáum því engin villt dýr. En stundum fengum við flugur í höfuðið.
 
Dagur 3: Litla gula hænan fann fræ 
 
Í Tvillum er fræhús Hede Danmark, en þar var einnig hænsnakofi. Hvort kom á undan, eggið eða hænan? Það má sjálfsagt snúa þessu upp á trén líka, en það er stórbrotin list að örva fræ til að spíra. Örvun felur í sér rakastig, hitastig og hreyfingu á loftinu. Fræin eru viðkvæm og því má ekkert út af bregða. Sem dæmi þarf kalt loft og kyrrt til að örva beyki og sumar tegundir af þin. En það er ekki nóg að hafa fræ, það þarf líka að vera gott og komið af góðum foreldrum. Í Tvillum eru líka frægarðar af ólíkum trjáa- og runnategundum. Að öðrum tegundum ólöstuðum fékk sifjalerki-frægarðurinn drjúga athygli. Sifjalerki (Larix x marschlinsii) er blendingur af Evrópulerki (L.decidua)  sem er faðirinn í blöndunni og Japanslerki (L.kaempferi) í hlutverki móður. Könglunum er safnað af Japanslerkinu því fræin passa í þau fræhulstur, en könglarnir á Evrópulerkinu eru of smáir fyrir fræin og eru ónothæf. 
 
Á gróðrarstöðinni í Hjorthede snæddum við smørrebrød í hádeginu. Gróðrarstöðin telur 70 hektara og landslagið er hæðótt og nýtist það vel til plöntuframleiðslunnar. Árlega eru framleiddar 7 milljón plöntur á stöðinni og eru þær allar berróta. Stærsti kaupandinn er Hede Danmark en skógarbændur og sveitafélög eru einnig stórir kaupendur. Mikið er framleitt af Normansþin og glæsiþin í jólatrjáarækt og fjallaþinur er ræktaður fyrir skrautgreinar, eða „klippegrønt“ eins og þeir vilja nefna það. Sifjalerki er einnig mjög mikið ræktað. Athygli vakti Alaskaasparræktunin (populus trichocarpa) á stöðinni. Sá klónn sem þeir nota vex um eina mannhæð á fyrsta sumri á gróðrarstöðinni. Alaskaöspin er eingöngu notuð í akurskógrækt og er lotan yfirleitt ekki lengri en 10 ár. 
 
Loksins komust ferðalangar í dótabúð. Hede Denmark starfrækir mjög vinsæla netþjónustu á heima­síðunni HD2412.dk. Þar er megin­áhersla á vörur í tengslum við ræktun jólatrjáa. Í birgðastöð HD2412 er einnig lítil búð þar sem hægt er að skoða helstu vörurnar. 
 
Dagur 4: Tæki og tól
 
Skive er skemmtilegur lítill bær sem gaman er að skoða, en flestir fóru í skoðunarferð um bæinn þennan morguninn. Eftir hádegið var lagt af stað sem leið lá á flugvöllinn í Billund, með nokkrum stoppum á leiðinni. Fyrsta stopp var í Herning og stór Ponsse skógarhöggsvél, í eigu Heda Danmark, skoðuð við grisjun í blandskógi. Þarna höfðu nýir eigendur jarðarinnar ákveðið að fella skóginn, sem var blandskógur af lerki og ösp. Ætlunin var að skipta því út fyrir eik. Þótt vöxtuleg tré hafi leynst innan um, sem vel hefði mátt selja sem timbur, þá svaraði það ekki kostnaði vegna blöndunarinnar. 
 
Skammt frá var verið að kurla við úr fyrir slóð. Í Danmörku tíðkast að saga úr fyrir slóðum þegar trén eru um 5 metra há. Efnið er látið liggja í slóðinni og að ári liðnu er það kurlað og sett í brenni. Nokkru síðar eru slóðirnar notaðar til að komast um með tæki til að grisja skóginn í heild. 
 
TP kurlaraverksmiðjurnar eru í Vejle, skammt frá Billund. Hópnum var boðið upp á veitingar og sagt frá því hvað felst í góðum kurlara. TP eru mjög framarlega á sínu sviði og selja vörur sínar aðallega til Þýskalands og Bretlands, auk Skandinavíu auðvitað. Nýjustu fréttir í kurlheiminum eru rafdrifnir kurlarar, en þeir eru að koma með einn slíkan á markað. Verksmiðjan hafði tvo tæknilega róbóta við vinnsluna sem eykur afkastagetuna verulega. 
 
Steinsnar frá TP kurlurunum var önnur verksmiðja. Þar voru framleiddir stubbatætarar. Þetta er verksmiðja sem hefur vaxið hratt og eru tækin þeirra mjög vinsæl, sérstaklega í Þýskalandi. Þeir voru til af nokkrum stærðum en áttu það allir sammerkt að tæta í sundur eftirstandandi trjástubba og rætur af felldum trjám. Ásafl er fyrirtæki á Íslandi sem hefur umboð fyrir bæði stubbatætarana og TP kurlarana. 
Dagur var að kveldi kominn og næsta stopp var í flugstöðinni á Billund. Nú beið bara flug heim til Íslands eftir vel heppnaða ferð til Jótlands. 
 
Föruneytið var skipað eftir­farandi: Gissur Pétursson, Arnheiður Gígja Guðmundsdóttir, Bjarni Björgvinsson, Ólöf Guðmundsdóttir, Óskar M. Alfreðsson, Einar Zophoníusarson, Jón Júlíusson, Jónína Zophoníusardóttir, Jóhann Gísli Jóhannsson, Ólöf Ólafs­dóttir, Maríanna Jóhannsdóttir, Óskar Bjarnason, Hörður Harðarson, María Guðný Guðnadóttir, Arngrímur Baldursson, Svana Halldórsdóttir, Lára María Ellingssen, Ólöf Hörn Erlings­dóttir, Sigurður Hólm Sæmundsson, Jón Zimsen, Jóhanna H. Sigurðardóttir, Guðmundur H. Gunnarsson, Þórhildur Sigurbjörnsdóttir, Ragnheiður Jóhannesdóttir, Stefán Ólafsson, Gunnar Ingi Gunnarsson, Vigdís Hallgrímsdóttir, Kristín Álfheiður Arnórsdóttir, Sighvatur Jón Þórarinsson, Guðmundur Albert Birgisson, Reynir Ásgeirsson, Hoby Tibo Chrisansen, Böðvar Jónsson, Októ Einarsson, Hraundís Guðmundsdóttir og Hlynur Gauti Sigurðsson. Fararstjórn og skipulag var í höndum Christen Nørgård og Örnu Jóhannsdóttur.
 
Hlynur Gauti Sigurðsson

12 myndir:

Skylt efni: skógarbændur

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...