Jurtir Karlamagnúsar – gúrkur og annað skylt – fyrri hluti
Karlamagnús kannaðist við gúrkur, melónur og kalabass. Auðvitað vildi hann ekki vera án þeirra í görðunum sínum. Gúrkur og melónur eru af sömu ættkvísl. En kalabass eða flöskualdin af annarri. Allar þessar tegundir tilheyra Graskersætt (Cucurbitaceae) og hafa verið í ræktun frá upphafi ræktunarsögunnar.
Svo lengi að eiginlega er ekkert vitað um hinn eiginlega uppruna þeirra. Rökréttar getgátur eru samt um að uppruna þeirra megi rekja til suður- og suðausturhluta Asíu. En í árþúsunda gamalli og samfelldri ræktunarsögu hafa þær tekið svo miklum breytingum að ekki hafa fundist tegundir sem þær gætu verið komnar af. Engin þeirra spjarar sig án aðstoðar manna.
Gúrkur – Cucumis sativus
Ættkvíslarheitið er komið frá rómverska söguritaranum Plíníusi og þýðir bara gúrka en viðurnefnið er dregið af latnesku sögninni yfir sáningu. Við þekkjum það aftur í heiti Satúrnusar – hins forna guðs sáningarinnar.
Í Evrópu hafa gúrkur verið ræktaðar frá því að söguritun hófst og vegsummerki um ræktun þeirra hafa fundist við fornleifauppgröft í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs. Þeirra er getið í grískum og rómverskum heimildum og voru vel þekktar í Egyptalandi á dögum Faraóanna. Gúrkur þess tíma voru nokkuð grófari en gróðurhúsagúrkurnar okkar og hafa líklega verið líkari því sem við köllum nú reitagúrkur eða pækilgúrkur. Sennilega komnar austan úr Persíu. Þar eru enn ræktaðar gúrkur sem eru gildari og matarmeiri en þær gúrkur sem við þekkjum best nú. Annars er gúrkum skipt upp í nokkra hópa eftir útliti og eiginleikum.
Eplagúrkur
Fyrsti hópurinn kallast eplagúrkur eða asíugúrkur. Þær eru þybbnar og þéttar, ná 15–30cm lengd og með ljóst og slétt, en þykkt hýði. Aldinkjöt þeirra er þétt og undir tönn minnir það á epli. Þær mynda fræ og eru teknar áður en þær ná fullum þroska. Þetta eru gúrkurnar sem við kaupum sem „asíur“. Afhýddar og langskornar, innlagðar í edikslög. Svo vill til að eitt helsta afbrigði eplagúrkna er danskt og kallast 'LANGELANDS KÆMPE‘ og er til komið sem úrval af gúrkum sem hafa verið ræktaðar á dönskum ökrum og görðum í aldaraðir.
Reitagúrkur
Annan hópinn skipa svo hinar svokölluðu reita- eða pækilgúrkur. Þær eru stuttar, með dökkgrænt, dálítið hrufótt hýði. Fullsprottnar verða þær um 15 cm langar og u.þ.b. tvöfalt gildari um sig en bananar. Ef þær ná að þroska fræ verður hýðið gult og seigt. En það kemur ekki að sök vegna þess að reitagúrkurnar eru teknar óþroskaðar þegar þær hafa náð 8–10 cm lengd. Það er hægt að sneiða þær niður í hrásalöt á því skeiði og nota eins og gróðurhúsagúrkur. Reitagúrkur eru ræktaðar á beðum og lítið er gert til að stjórna vexti þeirra, heldur fá þær að breiða úr sér að vild. Hér á landi þekkjum við reitagúrkur helst sem „pikklisgúrkurnar“ sem fást í matvörubúðum, ýmist niðursneiddar eða heilar í glerkrukkum með söltum edikslegi eða bara í saltpækli. Reitagúrkur eru einu gúrkurnar sem hægt er að rækta utanhúss á Íslandi. En þá þarf að viðra vel og þær verður að hafa undir plastbogaskýli eða í köldu gróðurhúsi. Norðlægu yrkin 'VÄSTERÅSGURKA‘ og 'RHENSK DRUV‘ hafa reynst sæmilega. Helsta vandamálið er skortur á humlum og býflugum til að frjóvga blómin, án frjóvgunar koma engar gúrkur. Langir og kaldir rigningakaflar geta líka sett strik í reikninginn.
Slöngugúrkur eða agúrkur, gróðurhúsagúrkan
Í þriðja hópnum eru svo okkar venjulegu gúrkur, agúrkurnar eða slöngugúrkurnar sem við ræktum hér í gróðurhúsum árið um kring. Í hagskýrslum eru þær í þriðja efsta sæti af þeim jarðargróða sem ræktaður er hér til manneldis. Næstar á eftir kartöflum og byggi. Samkvæmt því hesthúsar hver Íslendingur um 4,5 kílógrömm af agúrkum árlega. Það er allnokkuð! Gróðurhúsagúrkan, sem við köllum, kom nokkuð seint til evrópskra byggða. Líklega ekki fyrr en nokkuð var liðið frá landnámi Íslands. Talið er að hún hafi borist frá Indlandi til Ítalíu í upphafi elleftu aldar. Hún er hitakræfari en gúrkurnar í hópunum hér á undan og dafnar best á hitabilinu 21-29 °C en þolir ögn lægri hita ef hann fer aldrei niður fyrir 18°C. Og ekki má skorta birtuna. Í ræktun eru þær bundnar upp og allir hliðarsprotar teknir burt, bara toppsprotinn látinn halda sér. Eftir því sem plönturnar hækka er þeim slakað niður eftir ákveðnu kerfi. Gróðurhúsagúrkur eru langar og sívalar, með þunnu hýði. Oftast 30-35cm á lengd. Gróðurhúsagúrkur nútímans eru yfirleitt fyrstukynslóðar blendingar (F1-sortir) sem mynda frælausar gúrkur eftir blómgunina og allar í stöðluðum gæðum. Fræfyrirtækin sjá til þess. Það er hægt að rækta þær í heimahúsum, ýmist í björtum og rúmgóðum gluggum eða í smágróðurhúsum sem halda 18 stiga hita á næturnar. Í hobbýrækt heima við hefur gefist vel að nota yrkin 'BALI-F1‘ sem er algjör „kvensort“ og hið ríflega aldargamla enska yrki 'TELEGRAPH‘ sem kemur með bæði karl- og kvenblóm. Kvenblómin frjóvgast ekki nema að meðvitað sé unnið í því, en mynda samt góðar og safaríkar gúrkur.
Snægúrkur
Í fjórða hópnum sem hér verður talinn upp eru gúrkur sem hafa mjallahvítt hýði. En við sjáum þær sjaldan hér á landi nema innlagðar eins og „asíur“. Snægúrkurnar eru um flest eins og reitagúrkurnar hvað ræktunina varðar, en eru mun hitakræfari. Gúrkurnar eru um 15cm langar og nokkuð gildar, fastar fyrir og frísklega sætar á bragðið. Þær eru vinsælar í sumarsalöt og innlagnir. Ræktun þeirra fer mest fram þar sem sumur eru hlý og sólrík eins og t.d. í Kaliforníu, Mexíkó og ekki síst á Ítalíu. Þaðan kemur yrkið 'MEZZO LUNGO BIANCO‘ sem hefur skilað ágætum árangri í Danmörku og á Skáni ef það er ræktað undir gróðurdúk. Hér ætti að vera auðvelt að rækta snægúrkur í plastbogahúsum án upphitunar.
Almennt um gúrkurækt
Gúrkur eru einærar jurtir. Blöðin eru breið, skert í nokkra tungulaga sepa á jöðrunum, hrjúfhærð og stakstæð á nokkuð strendum stöngli. Klifurþræðir og blóm myndast við blaðfestingarnar. Þeim er eðlilegt að klifra upp eftir neti eða öðrum jurtum sem þær ná að festa sig í. Blómin eru samkrýnd, skærgul og ýmist kvenkyns eða karlkyns. Bæði kynin samt á hverri plöntu. En helstu ræktunaryrki gróðurhúsagúrkurnar, F1-sortirnar, eru handgerð með samfrjóvgun foreldra sem geta af sér plöntur sem einvörðugu blómgast kvenblómum og þroska aldin án undangenginnar frjóvgunar. Gúrkur þurfa frjóan, loftríkan og jafnrakan jarðveg. Þær vaxa hratt og eru þurftafrekar á birtu og yl. Þrífast best þar sem sól skín á þær daglangt og dafna illa ef hitinn fer niður fyrir 18 °C. Reitagúrkur spjara sig þó ef þær búa við 15-18 °C meðalhita og geta staðið af sér nótt og nótt þótt næturhitinn geti dottið niður í 12 °C. Gúrkuplöntur sem ræktaðar eru í reitum eða utanhúss þurfa 1-2 femetra vaxtarrými. En gróðurhúsagúrkur eru settar í raðir með 80-100cm millibili og haft um 50-60cm milli plantna í röð. Aldinin eru tilbúin í uppskeru þegar gúrkurnar eru orðnar því sem næst jafngildar enda á milli. Þroski frá blómgun í fullvaxið aldin tekur viku til tíu daga. Gúrkum er sáð, 1-2 fræ í 10cm potta, um 4-5 vikum fyrir áætlaða útplöntun. Fræin eru hulin um 1cm með sáðmoldinni og sáðílátið haft á björtum stað við góðan stofuhita meðan á spírun stendur. Uppeldi svo við 20-25 °C og dreifplantað þegar komin eru tvö blöð ofan kímblaðanna. Blómgunar má vænta af 45-60 daga gömlum plöntum við eðlilegar aðstæður. Ef gúrkur eru ræktaðar í pottum, þarf potturinn að rúma 7,5-10 lítra af góðri gróðurmold og nauðsynlegt er að gefa daufa áburðarlausn (tómatáburður eða ígildi hans) einu sinni í viku. Til að koma í veg fyrir vatnsskort og vaxtartruflanir er gott að láta pottana standa á fati með hreinu vatni. Bætt á eftir þörfum daglega, þannig að alltaf sé vatnslögg undir pottinum. En áburðarvatnið er alltaf sett yfir moldina.
Ein skrýtin að lokum
Á undanförnum árum hefur okkur áður óþekkt gúrkutegund skotið upp kollinum í aldinborðum stórmarkaðanna. Það er horngúrkan, Cucumis metuliferus. Og eins og viðurnefnið gefur til kynna er hún ógnvekjandi, öll sett göddum eða hornum líkt og eitthvert skrímsli frá Risaeðlutímanum. En það er bara utan á rauðgullnu yfirborðinu. Innan í er grængult, fremur glært og slímkennt aldinkjöt utan um urmul af fræjum. Bragðið er frískandi sætsúrt og gefur framandi, en afar viðkunnanlegt bragð í salöt af ýmsu tagi og jafnvel bara eitt og sér með hverju sem er. Gúrkurnar eru skornar langsum eftir endilöngu og innvolsið skafið úr með skeið. Fræin látin fara með. Uppruni horngúrkunnar er í löndunum sunnan Sahara þar sem hún hefur tilheyrt matarmenningunni um aldaraðir. En ræktun á henni í stórum stíl til útflutnings er fyrst og fremst í Ísrael og á Nýja-Sjálandi. Í þeim löndum kunna menn á heimsmarkaðinn og kúnstina við að svala eftirspurn hins óseðjandi neyslusamfélags. Horngúrkan ber hið alþjóðlega og dularfulla söluheiti KIWANO, sem við getum svosem tekið okkur í munn og borið fram „kívanó“.