Mitsubishi – japanska kastaníutréð
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Mitsubishi Agricultural Machinery Co., Ltd. (MAM) var stofnað sem deild í Mitsubishi Group árið 1980. Það er með höfuðstöðvar í Higashiizumo, Shimane í Japan.
Grunnurinn að fyrirtækinu var Mitsubishi zaibatsu sem stofnað var 1870 og starfaði til 1947 þegar því var lokað við hernám Japans. Upphaflega var fyrirtækið stofnað sem skipafélag af stofnandanum Yatarō Iwasaki.
Kastaníutréð
Nafn fyrirtækisins er samsett úr tveim orðum „mitsu“, sem merkir tré og „hishi“ sem seinna breyttist í „bishi“ og merkir vatna-kastanía. Þannig mætti alveg útleggja nafnið á íslensku sem kastaníutré.
Fyrirtækið komst aftur á skrið með sitt fræga merki eftir seinna stríð og framleiðir dótturfélagið Mitsubishi Agricultural Machinery Co. dráttarvélar og ýmiss konar uppskerutæki og tól til jarðvinnslu.
Mitsubishi Agricultural Machinery Co. varð til við samruna Mitsubishi Machinery Co., Ltd. og japanska landbúnaðarvélafyrirtækisins Satoh (Agricultural Machinery Mfg. Co., Ltd.) sem stofnað var í júní árið 1914.
Kemur víða við
Mitsubishi Group kemur hins vegar víðar við í sinni iðnaðarframleiðslu og eru margar aflvélar raforkuvera á Íslandi t.d. smíðaðar þar. Má þar t.d. nefna vélar í Reykjanesvirkjun. Þá framleiðir þessi iðnaðarrisi líka bíla eins og Íslendingar þekkja vel, einnig þotur og rekur stærsta bankann í Japan (The Bank of Tokyo-Mitsubishi UFJ), svo eitthvað sé nefnt.
Seldar í Bandaríkjunum og Bretlandi
Hið sameinaða fyrirtæki framleiddi m.a. dráttarvélar fyrir Ameríkumarkað og hafa þær verið seldar í gegnum indverska stórfyrirtækið Mahindra Group. Þá hafa dráttarvélar fyrirtækisins einnig verið seldar í Bretlandi undir Mitsubishi-nafninu. Í Japan hafa vélar fyrirtækisins líka verið seldar undir nöfnunum Kumiai, Suzue og Zen-Noh, sem eru allt nöfn í eigu samvinnufélaga bænda.
Framleiddar víða með og án leyfis
Mitsubishi er með samstarfssamning um framleiðslu á sínum dráttarvélum við LS Tractors í Suður-Kóreu sem er deild í LS Cable. Einnig er samningur við VST Tillers í Indlandi, en Mitsubishi Heavy Industries á jafnframt 3% í því félagi. Nákvæmlega eins vélar hafa verið framleiddar undir nafninu Shenniu í Kína, en eitthvað er óljóst með hvort það fyrirtæki er með framleiðsluleyfi eða hefur einfaldlega smíðað nákvæmar eftirlíkingar af Mitsubishi-traktorum.
Að 33% hluta í eigu Mahindra & Mahindra
Þegar mikið endurskipulagningarferli hófst hjá Mitsubishi 2013 var nafnið ASUMA (Agri SUpport Machinery) yfirtekið. Árið 2015 var svo 33,33% hlutur seldur indverska stórfyrirtækinu Mahindra & Mahindra. Mitsubishi Agricultural Machinery Co. er því nú að stærstum hluta í eigu Mitsubishi Group og Mahindra & Mahindra.