Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Kýrin Gullbrá á Hóli við Dalvík. Hún hefur borið 10 sinnum á sinni ævi og heldur sér ótrúlega vel en hún er með mestar æviafurðir núlifandi kúa.
Kýrin Gullbrá á Hóli við Dalvík. Hún hefur borið 10 sinnum á sinni ævi og heldur sér ótrúlega vel en hún er með mestar æviafurðir núlifandi kúa.
Mynd / Karl Vernharð Þorleifsson, fjósameistari á Hvanneyri
Á faglegum nótum 31. janúar 2022

Niðurstöður skýrsluhalds mjólkurframleiðenda árið 2021

Höfundur: Sigurður Kristjánsson, skýrsluhald og prófarkalestur, og Guðmundur Jóhannesson ráðunautur í nautgriparækt

Niðurstöður skýrsluhaldsins í mjólkurframleiðslunni árið 2021 hafa verið reiknaðar og birtar á vef Ráðgjafarmiðstöðvar land­búnaðarins, www.rml.is. Hér verður farið yfir helstu tölur úr uppgjörinu.

Þeir framleiðendur sem skiluðu einhverjum, en þó mismiklum upplýsingum um afurðir kúa sinna á nýliðnu ári voru 517 en á árinu 2020 voru þeir 541. Niðurstöðurnar eru þær helstar að 25.382,8 árskýr skiluðu 6.336 kg nyt að meðaltali. Það er lækkun um 48 kg/árskú frá árinu 2020 en þá skiluðu 25.649,0 árskýr meðalnyt upp á 6.384 kg.

Þetta eru þó einar mestu meðalafurðir frá upphafi vega og sjötta árið í röð sem þær ná yfir 6.000 kg eftir árskú. Umreiknaðar í orkuleiðrétta mjólk (OLM) eru meðalafurðir síðasta árs 6.544 kg/árskú.

Meðalbústærð reiknaðist 50,0 árskýr á árinu 2021 en sam­bærileg tala var 48,4 árið á undan. Meðalbústærð reiknuð í skýrslufærðum kúm var nú 66,8 kýr en 2020 reiknuðust þær 64,1. Samtals voru skýrslufærðar kýr á árinu 34.553 talsins samanborið við 34.696 árið áður.

Mestar meðalafurðir á Austurlandi

Svæðaskipting fylgir að segja má kjördæmum. Á árinu voru mestar meðalafurðir á Norðurlandi eystra, 6.454 kg, og síðan kemur Austur­land með 6.420 kg.
Stærst eru búin að meðaltali á Austurlandi, 51,9 árskýr, en næst­stærst eru þau á Suðurlandi, 51,8 árskýr.

Meðalbúið stækkar aðeins

Meðalbúið stækkaði milli ára þrátt fyrir samdrátt í innleggi mjólkur en í takti við fækkun innleggsbúa. Meðalinnlegg á bú með innlegg allt árið nam 288.088 lítrum samanborið við 284.363 lítra á árinu 2020. Á sama tíma fækkaði innleggsbúum mjólkur um sextán og voru kúabú í framleiðslu 517 talsins nú um áramótin 2021/22.

Gríðarleg vanhöld á kálfum

Vanhöld kálfa eru mikil og skýrast að stærstum hluta af gríðarlegum fjölda dauðfæddra kálfa við fyrsta burð. Meira en fjórði hver kálfur undan 1. kálfs kvígum fæðist dauður en slíkt ástand hlýtur að flokkast sem algjörlega óviðunandi. Þrátt fyrir rannsóknir og athuganir á orsökum þessa hefur engin ein ástæða fundist. Samkvæmt könnun RML sem lokið var við á síðasta ári er einhvern hluta ástæðnanna að finna í bústjórnarþáttum eins og fóðrun fyrir burð, tilfærslu gripa eftir að burður hefst og óþekktri væntanlegri burðardagsetningu.

Við ætlum seint að læra af reynslunni. Enn stundar töluverður hluti bænda þá búskaparhætti að gera kvígurnar nánast að kúm fyrir fyrsta burð sökum aldurs. Þó mjakast þau mál til betri vegar og á síðasta ári var meðalaldur við 1. burð 27,3 mánuðir sem er 0,2 mánuðum lægri aldur en árið áður. Þessum þætti þarf að gefa meiri gaum í bústjórninni en allt bendir í þá átt að stefna eigi að því að kvígurnar beri 22-24 mánaða gamlar. Þarna munar því um hálfu ári með tilheyrandi rýmiskröfum og auknum uppeldiskostnaði.

Fyrir meira en sextíu árum uppgötvuðu forfeður okkar að það væri bæði betra og þægilegra að sæða kýrnar en að halda þarfanaut. Þessari þekkingu gengur illa að miðla milli kynslóða því um 34% allra fæddra kálfa eru undan þarfanautum. Auðvitað hamla aðstæður því víða að hægt sé að sæða kvígurnar en það verður þó ekki horft framhjá því að sá kostnaður sem hlýst af þessu fyrir greinina í heild er gríðarlegur. Hann felst meðal annars í töpuðum kynbótaframförum og fleiri dauðf­æddum kálfum.

Mestar meðalafurðir á Búrfelli í Svarfaðardal

Annað árið í röð reyndist mest meðalnyt eftir árskú vera hjá Guðr­únu Marinósdóttur og Gunnari Þór Þórissyni á Búrfelli í Svarfaðardal. Nyt eftir árskú endaði þar í 8.908 kg á árinu 2021 sem er aukning um 329 kg frá fyrra ári. Á Búrfelli er að finna legubásafjós með mjaltaþjóni sem tekið var í notkun vorið 2018. Frá þeim tíma hafa afurðir aukist jafnt og þétt og sér í raun ekki fyrir endann á því.

Annað í röð afurðahæstu búa landsins er kunnuglegt á þeim lista en þar er um að ræða bú þeirra Guðlaugar Sigurðardóttur og Jóhannesar Eybergs Ragnarssonar á Hraunhálsi í Helgafellssveit á norðanverðu Snæfellsnesi. Árin 2018-2020 var þetta bú með þriðju mestu afurðir eftir árskú á landinu en færist nú í annað sætið. Þar á bæ mjólkaði meðalárskýrin 8.664 kg sem er aukning um 307 kg. Fjósið á Hraunhálsi er básafjós með rörmjaltakerfi og öll umgengni og snyrtimennska utan dyra sem innan til algjörrar fyrirmyndar.

Þriðja afurðahæsta bú ársins 2021 er bú Guðjóns Björnssonar og Helgu Bjargar Helgadóttur á Syðri-Hömrum 3 í Ása­hreppi en þar reyndust afurðir kúnna nema 8.446 kg mjólkur eftir hverja árskú. Á Syðri-Hömrum er legubásafjós með mjaltaþjóni og síðan það var tekið í notkun hafa afurðir tekið stórstígum breytingum.

Í fjórða sæti varð búið í Dalbæ í Hruna­mannahreppi en þar er félagið Dalbær 1 ehf. skráð fyrir rekstri. Kýrnar í Dalbæ skiluðu 8.342 kg/árskú á nýliðnu ári. Þar er að finna legubásafjós með mjaltabás. Fimmta búið í röð afurðahæstu búa er bú Hákonar Bjarka Harðarsonar og Þorbjargar Helgu Konráðsdóttur á Svertingsstöðum 2 í Kaupangssveit Eyjafirði en þar skiluðu kýrnar 8.337 kg/árskú. Á Svertingsstöðum er legubásafjós með mjaltaþjóni. Sjötta afurðahæsta bú ársins 2021 var svo bú Gísla Haukssonar og Jónínu Einarsdóttur á Stóru-Reykjum í fyrrum Hraungerðishreppi í Flóa. Kýrnar þar skiluðu 8.321 kg/árskú en á búinu er nýlegt legubásafjós með mjaltaþjóni.

Þessum búum til viðbótar náðu ellefu bú yfir 8.000 kg meðal­afurðum eftir árskú eins og sjá má í meðfylgjandi töflu. Það er þremur búum fleira með yfir 8 þús. kg meðalafurðir en á árinu 2020.

Skör 1003 í Hvammi í Ölfusi mjólkaði mest

Nythæsta kýrin á landinu árið 2021 var Skör 1003 í Hvammi í Ölfusi, undan Flekk 08029 og móðurfaðir hennar er Flói 02029. Skör mjólkaði 13.760 kg með 3,87% fitu og 3,28% próteini. Burðartími hennar féll ágætlega að almanaksárinu en hún bar sínum þriðja kálfi 21. janúar 2021. Hæsta dagsnyt Skarar á nýliðnu ári var 52,9 kg og hún var í yfir 40 kg dagsnyt þar til sumri tók að halla eða fram í ágúst. Skör er fædd í júní 2016 og bar fyrsta kálfi 28. september 2019. Skráðar æviafurðir hennar voru 32.587 kg um síðustu áramót og á yfirstandandi mjólkurskeiði eru afurðir hinar sömu og ársafurðirnar eða 13.760 kg mjólkur.

Önnur í röðinni árið 2021 var Ríkey 691 í Stóra-Dunhaga í Hörgár­sveit, undan Bingó 1524151-0607 Bambasyni 08049 og hálfbróður Jónka 16036 að móðurinni til.

Móðurfaðir Ríkeyjar var Afli 11010 en því miður féll hún frá nú rétt fyrir síðustu jól. Ríkey mjólkaði 13.612 kg með 3,54% fitu og 3,32% próteini en sínum öðrum kálfi bar hún 12. febrúar 2021. Hún fór hæst í 52,6 kg dagsnyt á árinu 2021 en skráðar æviafurðir hennar eru 23.427 kg.

Þriðja nythæsta kýrin var Bára 523 í Flatey á Mýrum við Hornafjörð. Bára er fædd á Hala í Suðursveit en flutti sig um set við lok mjólkurframleiðslu þar og bar sínum fyrsta kálfi í Flatey í nóvember 2017 og sínum fjórða kálfi bar hún 18. febrúar á nýliðnu ári. Nyt hennar á árinu var 13.517 kg með 3,92% fitu og 3,30% próteini. Bára er dóttir Sands 07014, fór hæst í 54,2 kg dagsnyt og skráðar æviafurðir hennar eru 44.569 kg.

Fjórða í röðinni var Snúra 546 í Dalbæ í Hrunamannahreppi, dóttir Dúllara 07024 en móðurfaðir var Skortur 1667351-0304 sonur Skurðs 02012. Hún mjólkaði 13.293 kg með 3,81% fitu og 3,25% próteini. Hún bar fjórða sinni 19. maí 2021, fór hæst í 57,5 kg dagsnyt á árinu og skráðar æviafurðir eru 50.126 kg. Það sem gerir afurðir Snúru sérstakar í þessum afurðaháa hópi er að hún ber í maí og því er í raun um 10-11 mánaða afurðir að ræða því hún stóð geld í apríl og fram í maí.

Fimmta í röðinni var Ljúfa 1311 á Skálda­búðum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, nánar tiltekið Eystrihreppi eins og heimamönnum er tamt að kalla Gnúpverjahrepp hinn forna. Hún er dóttir Skells 11054 og móðurfaðir er Lykill 02003. Hún bar fjórða kálfi sínum 2. janúar 2021 og fór hæst í 48,6 kg dagsnyt en hún skilaði samtals 13.138 kg á árinu með 4,25% fitu og 3,50% próteini. Skráðar æviafurðir eru 49.704 kg.

Alls skiluðu 143 kýr afurðum yfir 11.000 kg og þar af 38 yfir 12.000 kg. Árið 2020 náðu 126 kýr nyt yfir 11.000 kg.

Gullbrá 357 á Hóli við Dalvík með mestar æviafurðir

Af núlifandi kúm stendur Gullbrá 357 á Hóli við Dalvík efst allra kúa í æviafurðum en hún er fædd á Hrafnsstöðum í Svarfaðardal í apríl 2004 en seld að Hóli sem smákálfur. Þessi kýr er dóttir Hvítings 96032 og móðurfaðir er Klinton 1513611-0921 sonur Búanda 95027. Gullbrá bar fyrst í október 2006 og síðast í desember 2020 en samtals hefur hún á 10 mjólkurskeiðum mjólkað 96.385 kg. Hún er ákaflega sterkbyggð og endingargóð kýr og hlaut á sínum tíma 85 stig í útlitsdómi. Eins og meðfylgjandi mynd sýnir heldur Gullbrá sér ótrúlega vel og á tal núna í júní næstkomandi en hún var sædd í september með sæði úr Mikka 15043. Það væri ekki ónýtt að fá kvígu undan þessari endingargóðu myndarkú og því afbragðsnauti.

Önnur í röð núlifandi kúa með mestar æviafurðir er Bleik 995 á Gautsstöðum á Svalbarðsströnd, fædd 14. ágúst 2009 undan Grána 1528871-0890 Hersissyni 97033 og Stássu 873 Stássadóttur 04024. Bleik hefur þegar þetta er ritað borið níu sinnum, síðast í nóvember 2020 en hún á tal núna í lok janúar. Um nýliðin áramót hafði Bleik mjólkað samtals 90.371 kg mjólkur.

Núverandi Íslandsmet í æviaf­urðum á Mókolla 230, dóttir Snarfara 93018, á Kirkjulæk 2 í Fljótshlíð, 114.635 kg.

Mjólkurframleiðendum öllum, en ekki síst ábúendum á Búrfelli í Svarfaðardal og Hvammi í Ölfusi, óskum við til hamingju með glæsi­legan árangur og þökkum gott samstarf á nýliðnu ári.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...