Ný reynd naut í Nautastöð BÍ
Höfundur: Guðmundur Jóhannsson ábyrgðarmaður í nautgriparækt
Fagráð í nautgriparækt ákvað á fundi sínum þann 13. júní sl. að alls verða 17 reynd naut í dreifingu í sumar. Áfram verða í dreifingu; Logi 06019, Rjómi 07017, Keipur 07054, Blámi 07058, Blómi 08017, Þáttur 08021, Flekkur 08029, Gói 08037, Gustur 09003, Bolti 09021, Gæi 09047, Ferill 09070 og Dráttur 09081.
Ný naut í notkun
Þau naut sem koma ný til notkunar eru úr 2010 árgangnum. Þetta eru: Strákur 10011 frá Naustum í Eyrarsveit undan Pontíusi 02028, mf. Kaðall 94017, Drangi 10031 frá Bakka í Öxnadal undan Glæði 02001, mf. Ás 02048, Fossdal 10040 frá Merkigili í Eyjafirði undan Glæði 02001, mf. Hamar 94009, og Bætir 10086 frá Núpsúni í Hrunamannahreppi undan Síríusi 02032, mf. Stöðull 05001. Hér verður gerð aðeins nánari grein fyrir þeim.
Strákur 10011.
Strákur 10011
Dætur Stráks eru miklar mjólkurkýr með efnahlutföll í mjólk um meðallag. Þetta er fremur stórar og háfættar kýr, boldýpt og útlögur eru í minna lagi en yfirlína mjög sterk. Malirnar eru grannar, nokkuð beinar og flatar. Fótstaða er bein og sterk. Júgurgerðin er góð, festa um meðallag en júgurband nokkuð áberandi og júgrin vel borin. Spenar eru vel gerðir, hæfilega stuttir og grannir en eilítið gleitt settir. Mjaltir eru úrvalsgóðar, lítið um galla í mjöltum og skapið er í meðallagi. Mikill meirihluti afkvæma Stráks er einlitur og af grunnlitum eru bröndóttir litir mest áberandi en allir grunnlitir nema gráir koma fyrir. Af tvílitum kemur huppóttur oftast fyrir. Undan Stráki geta komið hyrndir gripir.
Drangi 10031
Dætur Dranga eru í góðu meðallagi mjólkurlagnar og próteinhlutfall um meðalal en fituhlutfall lágt. Þetta eru fremur stórar og háfættar kýr, boldýpt og útlögur eru í meðallagi en yfirlína mjög sterk. Malirnar eru meðalbreiðar, beinar en aðeins þaklaga. Fótstaða er bein, aðeins þröng og hallandi um klaufir. Júgurgerðin er mjög góð, júgurfesta mikil, júgurband mjög áberandi og júgrin vel borin. Spenar eru prýðilega gerðir, aðeins langir og þykkir og eilítið gleitt settir. Mjaltir eru um meðallag, lítið um galla í mjöltum og skapið er gott. Um þriðjungur afkvæma Dranga er tvílitur og ber mest á huppóttum. Af grunnlitum eru bröndóttir litir mest áberandi en allir grunnlitir nema gráir koma fyrir. Undan Dranga geta komið hyrndir gripir.
Fossdal 10040
Dætur Fossdals eru mjólkurlagnar með próteinhlutfall í mjólk í góðu meðallagi en fituhlutfall fremur lágt. Þetta eru stórar og háfættar kýr, boldýpt og útlögur eru í meðallagi en yfirlína aðeins veik. Malirnar eru meðalbreiðar, nokkuð beinar og flatar. Fótstaða er bein og sterkleg en aðeins þröng. Júgurgerðin er úrvalsgóð, júgurfesta gríðarlega mikil, júgurband mjög áberandi og júgrin sérlega vel borin. Spenar eru mjög vel gerðir, hæfilega grannir og stuttir og ákaflega vel settir. Mjaltir eru í tæpu meðallagi og lítið er um galla í mjöltum. Skapið er gott. Um helmingur afkvæma Fossdals er tvílitur og ber mest á skjöldóttum. Af grunnlitum eru rauðir litir mest áberandi en allir grunnlitir koma fyrir. Undan Fossdal geta komið hyrndir gripir.
Bætir 10086
Dætur Bætis eru mjólkurlagnar með próteinhlutfall í mjólk meðallagi og fituhlutfall fremur hátt. Þetta eru meðalstórar og nokkuð háfættar kýr, boldýpt og útlögur eru í tæpu meðallagi og yfirlína aðeins veik. Malirnar eru meðalbreiðar, nokkuð beinar og flatar. Fótstaða er bein og sterkleg og fremur gleið. Júgurgerðin er mjög góð, júgurfesta mikil, júgurband áberandi og júgrin mjög vel borin. Spenar eru vel gerðir, hæfilega grannir og stuttir og prýðilega settir. Mjaltir eru mjög góðar og lítið er um galla í mjöltum. Skapið er úrvalsgott. Um þriðjungur afkvæma Bætis er tvílitur og ber mest á huppóttum. Af grunnlitum eru rauðir litir mest áberandi en allir grunnlitir koma fyrir. Undan Bæti geta komið hyrndir gripir.
Nautsfeður
Nautsfeður verða; Keipur 07054, Gustur 09003, Bolti 09021, Strákur 10011 og Fossdal 10040.
Naut sem falla úr notkun
Þau naut sem tekin verða úr notkun eru Kraki 09002, vegna lágra efnahlutfalla og lítillar notkunar, Þytur 09078, vegna mjög lágra efnahlutfalla, og Brúnó 09088, vegna lækkunar í mati þar sem hann er kominn niður í 100 í heildareinkunn. Fagráði þótti ekki stætt á því að hafa Þyt 09078 áfram í dreifingu vegna hinna mjög lágu efnahlutfalla í mjólk dætra þrátt fyrir að hann standi með 113 í heildareinkunn.
Nánari upplýsingar um þessi naut er að finna á nautaskra.net. Þau munu koma til dreifingar á næstu vikum eða við næstu sæðisáfyllingar í kútum frjótækna. Þá hefur kynbótamat allra gripa verið uppfært í Huppu en það var keyrt núna í júní. Í samræmi við það hafa orðið breytingar á skrám yfir nautsmæður og efnilegar kvígur sem menn eru beðnir að veita sérstaka athygli. Við óskum eins og áður eftir því að kýr og efnilegar kvígur með flagg í Huppu verði sæddar með nautsfeðrum með það í huga að bjóða kálfinn á stöð fæðist nautkálfur í fyllingu tímans.