Nýr og breyttur Suzuki Ignis
Höfundur: Hjörtur L. Jónsson
Fyrir nokkru kom í sölu Suzuki Ignis frá Suzuki bílum í Skeifunni, en lítið mál var að fá bílinn lánaðan yfir rigningarhelgina miklu um mánaðamótin síðustu.
Suzuki Ignis er fjórhjóladrifinn, beinskiptur og með 90 hestafla 1242cc. bensínvél.
Ótrúlega mikið pláss inni í litlum bíl
Í þessa tvo daga sem ég hafði bílinn notaði ég fyrri daginn í innanbæjarakstur. Það fyrsta sem ég hjó eftir voru lítil og mjó dekkin, en á skemmdum götum borgarinnar var lítill belgur dekkjanna ekki að gefa mikla fjöðrun, en smæstu holur lömdu upp í bílinn.
Mér lék því forvitni á að vita hvernig bíllinn væri með tvo farþega í aftursætunum á holóttum vegum borgarinnar og bauð tveim yfirvigtarmönnum að sitja aftur í bílnum á meðan ég valdi verstu vegi borgarinnar. Útkoman var ekkert spennandi, lítil fjöðrun og hörð skemmti ekki farþegunum. Hins vegar hældu þeir plássinu sem var aftur í bílnum og að sætin væru þægileg svo lengi sem ég færi ekki í holur eða yfir hraðahindranir.
Sparneytinn í innanbæjarakstrinum
Eftir að hafa ekið innanbæjar í rúma eina og hálfa klukkustund á meðalhraða upp á 38 km á klukkustund var ég að eyða 5,7 lítrum á hundraðið en var samt ekkert að spara eldsneytisgjöfina. Úti var rok og rigning sem ekki er vænlegt til sparaksturs. Þess má geta að uppgefin eyðsla í blönduðum akstri er 5 lítrar á hundraðið.
Daginn eftir var enn meira rok og rigningin heldur blautari en daginn áður. Enda 1. maí og „árleg kröfugönguvökvun í gangi“.
Ákvað ég að prófa bílinn í stuttri keyrslu á 90 vegi. Núllstillti eyðslumælinn í Kollafirði og ók fyrir Kjalarnesið. Við Kiðagil skoðaði ég eyðsluna og það kom mér á óvart að eyðslan í rokinu og rigningunni var ekki nema 4,6 lítrar á hundraðið eftir 21 km akstur. Það væri gaman að prófa aftur við kjörskilyrði.
Á sléttu malbiki er bíllinn hreint ótrúlega stöðugur
Að vera á litlum og léttum fjórhjóladrifnum bíl lék mér forvitni á að vita hvernig hann væri í beygjum. Ég fór því á autt bílaplan og prófaði að taka hressilega á bílnum. Það kom mér verulega á óvart hversu hratt var hægt að fara í beygjum á honum, bíllinn virtist hreinlega vera límdur við malbikið.
Ég prófaði líka að taka vel á bílnum í beygju á sléttu malarplani og þar var sama sagan. Ótrúlega gott grip á sléttri mölinni, en þegar ég kom í holu á mölinni í beygjunni hoppaði bíllinn og missti grip.
Miðað við þessar prófanir er greinilega of lítil fjöðrun að koma frá dekkjunum. Skynsamlegt væri að setja minni 14 tommu felgur og fá belgmeiri dekk. Við svoleiðis breytingu væri IGNIS sannkallaður „malarvegaskelfir“ og örugglega frábær á malarvegum og holóttum götum Reykjavíkur.
Ekki kraftmesti fjórhjóladrifni smábíllinn, en góður
Margir góðir punktar eru í bílnum svo sem bæði baksýnisspegillinn inni í bílnum og hliðarspeglar, bakkmyndavél á stórum skjá.
Þó svo að bíllinn sé ekki með varadekk í sýningarsal Suzuki bíla þá er sett varadekk í alla bíla hjá Suzuki. Suzuki Ignis er mjög fljótur að hitna að innan, sætishitararnir eru einhverjir fljótustu hitarar sem ég hef kynnst. Var sitjandinn orðinn full heitur eftir eina mínútu svo ég þurfti að slökkva á hitaranum.
Mjög gott útsýni er fram fyrir bílinn og framsætin þægileg í að sitja. Verðið er ekki nema 2.480.000 kr. Lokaorð er að sem borgarbíll er hann að mínu mati vænlegur kostur, en ef á að ferðast mikið á honum og keyra á malarvegum þarf að fá betri fjöðrun út úr dekkjunum.
Helstu mál og upplýsingar:
Þyngd 870 kg
Hæð 1.595 mm
Breidd 1.690 mm
Lengd 3.700 mm