Óhefðbundnar leiðir við dreifingu á íslensku grænmeti
Grænmetisframleiðsla á sér bjarta framtíð hér á landi. Eins og staðan er núna þarf að auka ræktun íslensks grænmetis, bæði þess sem ræktað er í gróðurhúsum og á garðlöndum.
Gæðin eru þekkt meðal neytenda og vitneskja um kosti þess að neyta innlendra matvæla umfram þeirra innfluttu er augljós.
Dreifing grænmetisins til verslana hefur að miklu leyti verið á höndum nokkurra heildsala sem sækja vöruna til framleiðanda og koma henni í verslanir eins fljótt og hægt er.
Dreifingaraðilarnir sjá þá um alla vinnuþætti að lokinni framleiðslunni sjálfri, t.d. innheimtu og umbúðamál. Á síðustu árum hafa í auknum mæli þróast nokkrar nýstárlegar leiðir og áhersla verið lögð á dreifingu beint til neytenda.
Netverslun með grænmeti
Nokkrir framleiðendur hafa komið sinni vöru á framfæri á netinu, bæði í gegnum eigin heimasíður eða með tilstilli netfyrirtækja sem sinna dreifingu á afurðum bænda. Oftast er þá boðið upp á að varan sé sótt á tiltekna staði á fyrirfram ákveðnum tímum eða jafnvel heimakstur.
Þetta er nýlunda sem hefur verið vel tekið. Sumar netsölur selja aðeins eigin afurðir en aðrar taka til dreifingar vörur frá nokkrum framleiðendum og einnig erlenda vöru, einkum þá í lífræna geiranum.
Nefna má fyrirtækin Matland, Vallanes, Austurland Food Coop og Frú Laugu sem dæmi um netsölu með þessum hætti. Sambærileg netverslun færist einnig í aukana í kjötvörum og öðrum matvælum.
Heimasala
Líklega stunda flestir smærri ræktendur heimasölu afurða sinna í nokkrum mæli og sumir að mestu leyti. Heimasala hefur raunar verið stunduð allt frá því að markaðsframleiðsla hófst fyrir einni öld eða svo.
Nokkrir nýta sér fleiri dreifileiðir, t.d. þjóna þeir ákveðnum verslunum, veitinga- húsum og öðrum stærri notendum og eru þá í beinu sambandi við dreifingaraðilana. Þannig geta þeir sinnt neytendum sem best og jafnvel sérframleitt grænmeti sem væri vandkvæðum bundið að framleiða án fyrirfram umsaminnar dreifingar.
Smáframleiðendur matvæla sýna hugvitssemi við úrvinnslu og dreifingu
Samtakamáttur smáframleiðenda um allt land hefur leitt til þess að vara þeirra er nú sýnilegri og aðgengilegri en áður. Með náinni samvinnu, td. í gegnum Samtök smáframleiðenda matvæla (SSFM), hafa þeir náð að dreifa fersku grænmeti og öðrum ræktuðum afurðum til neytenda og einnig opnað fyrir nýjar leiðir í virðisaukningu á vörum sínum með úrvinnslu og sameiginlegri dreifingu. Samvinna þeirra hefur treyst rekstrargrundvöll fyrirtækjanna, aukið skilvirkni í rekstri þeirra og eflt þekkingarlegan grundvöll í framleiðslu, úrvinnslu og markaðssetningu.
Nýjar tegundir í ræktun, smærri framleiðendur draga vagninn
Smærri framleiðendur hafa oft nýtt sér þá leið að auka fjölbreytni í ræktun fremur en að beina allri athyglinni að einni eða fáum tegundum. Þar má sjá tegundir til sölu sem varla sjást í stórmörkuðum úr íslenskri ræktun, eins og radísur, næpur, toppkál, nýstárlegar grænkálstegundir, spírur og sprettur, hvítlauk, chilialdin í ólíkum styrkleikum, kryddjurtir og salattegundir, kúrbít, eggaldin og ertur svo dæmi séu tekin. Nú má sjá í verslunum hampte úr útiræktuðum íslenskum hampi sem ekki þekktist sem söluvara fyrir fáeinum árum.
Á þann hátt hafa smærri ræktendur í gegnum tíðina með seiglunni opnað leiðir inn á almennan markað fyrir fáséðar tegundir sem síðar verða eftirsóttari. Það krefst þrautseigju að koma nýjum tegundum á markað en ánægjan er þeim mun meiri þegar því marki er náð að mæta kröfum og þörfum markaðarins.