Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Pálmaolía – blessun eða bölvun?
Á faglegum nótum 24. september 2015

Pálmaolía – blessun eða bölvun?

Höfundur: Vilmundur Hansen

Pálmaolía sem unnin er úr aldinum olíupálma er ein af helstu orsökum skógareyðingar í hitabeltinu. Á sama tíma er ræktun plöntunnar helsta lífsafkoma milljóna smábænda í Suðaustur-Asíu.

Olíuna er að finna í fjölda vöruflokka og ekki síst í matvælum. Markaðshlutdeild pálmaolíu er 56% af allri verslun á jurtaolíu í heiminum.

Pálmaolía er ódýrasta jurtaolían á markaðinum og að finna í einni af hverjum sex tilbúnum matvörum sem framleiddar eru. Hana er meðal annars að finna í súkkulaði, kexi, laufabrauði, rískökum, flögum, pitsudeigi, kökum, frosnu grænmeti, hnetusmjöri, núðlum, morgunkorni, þurrkuðum ávöxtum, smjörlíki og barnamat. Auk þess sem pálmaolía er notuð í sleipiefni, sápur, kerti, sjampó, þvottaefni og snyrtivörur eins og tannkrem, varasalva, varalit og í framleiðslu á lífdísil.

Heimsframleiðslan 61 milljón tonn

Áætluð heimsframleiðsla á pálmaolíu í heiminum 2014 var rúmlega 61 milljón tonn en einungis 16% þeirrar framleiðslu er sögð sjálfbær. Áætlanir fyrir 2015 gera ráð fyrir að framleiðslan verði 65,1 milljón tonn.

Indónesía er langstærsti framleiðandinn, um 35 milljón tonn, Malasía er annar stærsti framleiðandinn og framleiðir tæp 21 milljón. Taílendingar, sem eru í þriðja sæti, framleiða ekki nema tvö milljón tonn, þarnæst kemur Kólumbía sem framleiðir rétt rúm milljón tonn. Í kjölfarið koma lönd eins og Nígería, Papúa Nýja-Gínea, Ekvador, Gana og Gvatemala þar sem framleiðslan er frá tæpum 700 þúsund tonnum og niður í 400 þúsund.

Talið er að heimsframleiðslan fari yfir 240 milljón tonn á ári fyrir árið 2050 haldist aukning í eftirspurn svipuð undanfarna áratugi og að land undir ræktunina verði um 25 milljón hektarar. Mest mun ræktunin aukast í Suður-Ameríku og Afríku.

Eins og gefur að skilja flytja Indónesía og Malasía mest út af pálmaolíu, 23,5 og 17 milljón tonn. Papúa Nýja-Gínea var þriðji stærsti útflytjandinn og flutti út 640 þúsund tonn árið 2014. Fjórðu og fimmtu stærstu útflytjendurnir voru Benin og Gvatemala, 450 og rétt rúm 400 þúsund tonn.

Indverjar flytja inn þjóða mest af pálmaolíu, tæp 9 milljón tonn, ríki Evrópusambandsins flytja samanlagt inn 6,8 milljón tonn, Kína 5,7 og Pakistan 2,7 milljón tonn. Bangladesh og Egyptaland flytja inn um 1,2 milljón tonn hvort land og Bandaríkin 1,1 milljón tonn.

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands nam innflutningur Íslendinga á pálmaolíu tæpum 370 tonnum árið 2014 sem skiptist í hráa pálmaolíu til matvælaframleiðslu, önnur hrá pálmaolía og önnur pálmaolía til matvælaframleiðslu. Innflutningurinn er mestur frá Danmörku og Noregi. Inni í þessari tölu er ekki pálmaolía sem flutt er inn í tilbúnum matvælum, snyrtivörum eða annarri framleiðslu.

Gengur undir mörgum heitum

Markaðshlutdeild pálmaolíu er 55% af allri verslun á jurtaolíu í heiminum. Þar sem pálmaolía hefur víða á sér slæmt orð er hennar ekki alltaf getið í innihaldslýsingum á umbúðum þrátt fyrir að slíkt sé víða skylt eins og til dæmis í löndum Evrópusambandsins. Í staðinn er hún kölluð nöfnum eins og vegetable oil, vegetable fat, palm kernel, palm kernel oil, palm fruit oil, palmate, palmitate, palmolein, glyceryl, stearate, stearic acid, elaeis guineensis, palmitic acid, palm stearine, palmitoyl oxostearamide, palmitoyl tetrapeptide-3, sodium laureth sulfate, sodium lauryl sulfate, sodium kernelate, sodium palm kernelate, sodium lauryl, lactylate/sulphate, hyrated palm glycerides, etyl palmitate, octyl palmitate og palmityl alcohol svo dæmi séu tekin.

Kostir og gallar

Kostir olíupálma eru að þeir framleiða hátt í tíu sinnum meira af jurtaolíu á hektara en aðrar plöntutegundir sem ræktaðar eru til framleiðslu á jurtaolíu. Pálmaolía er hörð við stofuhita og hentar því vel í matvælaframleiðslu, hún geymist vel og hefur því langan líftíma í hillum verslana og hún er óerfðabreytt.

Um 259 milljón hektarar lands eru nýttir til framleiðslu á jurtaolíu í heiminum í dag, þar af eru rúmlega 14 milljón hektarar notaðir undir framleiðslu á pálmaolíu.

Það sem framleiðslunni er helst fundið til foráttu er að langstærstur hluti hennar fer fram í tveimur löndum, Indónesíu og Malasíu, þar sem líffræðilegur fjölbreytileiki skóga er mikill og skógareyðing þar vegna ræktunar á olíupálmum gríðarleg. Samtímis skógareyðingunni hafa búsvæði dýra eins og fíla, tígrisdýra, nashyrninga og órangúta svo dæmi séu tekin verið eyðilögð. Auk þess sem ættbálkar innfæddra hafa verið neyddir burt af landi sínu.

Haldi eyðilegging frumskóga í Indónesíu áfram með sama hraða og undanfarin ár verða 90% þeirra felldir fyrir árið 2025.

Árið 2010 veittu Norðmenn Indónesíu fjárhagsaðstoð upp á milljarð Bandaríkjadala til að draga úr skógareyðingu sem þrátt fyrir það virðist ekkert lát á.

Eyðingin í Malasíu er hægari en búast má við að hún aukist þar á næstu árum og einnig í löndum eins og Taílandi, Kólumbíu, Nígeríu og fleirum sem vilja auka framleiðslu sína í takt við vaxandi eftirspurn.

Afleiðing eyðingar frumskógahitabeltisins til að planta olíupálmum felast ekki bara í því að tré séu felld og öðrum plantað í staðinn. Eyðingin veldur því að líffræðileg fjölbreytni minnkar, jarðvegur eyðist, búsvæði frumbyggja hverfa og magn koltvísýrings í andrúmslofti eykst þegar jarðvegur er unninn.

Magn gróðurhúsalofttegunda sem sleppa út í andrúmsloftið við framleiðslu á einu tonni af pálmaolíu eru áætluð frá  2,3 til 19,7 tonnum sem telst ríflegt framlag til hækkunar lofthita á jörðinni.

Grasafræði og útbreiðsla

Olíupálmar, Elaeis guineensis, geta náð um 25 ára aldri og 25 metra hæð en eru sjaldnast yfir 10 metrar í ræktun. Einkímblöðungar, með trefjarót sem liggur grunnt í jarðvegi.

Vaxtarbroddur pálma er á toppi þeirra þannig að sé stofninn felldur drepst plantan. Blöðin stór og allt að sjö metrar á lengd og margskipt. Olíupálmar bera blóm af báðum kynjum, blómin nokkur hundruð saman í hnapp. Eftir frjóvgun myndast steinaldin, tveir til fjórir sentímetrar að lengd, með þykkri og olíuríkri húð sem er græn í fyrstu en verða appelsínugul við aukinn þroska. Olíuinnihald hvers aldins er 30 til 35% þyngd þess. Kvenkynsklasarnir geta borið 200 til 300 þroskuð aldin hver fimm mánuðum eftir frjóvgun.

Náttúruleg útbreiðsla olíupálma er mest að 10° norðan og sunnan við miðbaug og þar dafnar plantan vel í margs konar jarðvegi og við sýrustig milli pH 4 til 7. Í ræktun vex planta ágætlega að 20° suðlægrar breiddar í Mið- og Austur-Asíu og á Madagaskar. Þrátt fyrir að olíupálmar þoli tímabundin flóð þrífast þeir best í rökum en vel framræstum jarðvegi. Kjörhitastig er 29,5° á Celsíus.

Olíupálmum er fjölgað með fræjum og gefur plantan af sér um 40 kíló af pálmaolíu og rúmt tonn af hrati eftir tvö og hálft ár til þrjú ár. Tré á besta aldri gefa af sér aldin á tveggja vikna fresti allan ársins hring. Hratið er notað sem dýrafóður, til pappírsgerðar og sem áburður.

Meðaluppskera af olíu af einum olíupálma er um þrjú tonn af aldinum á ári. Þar sem olíupálmar eru ræktaðir í stórum stíl er mikið notað af varnaefnum eins og í annarri stórræktun og eiturefnin enda að lokum í náttúrunni. Uppskera og söfnun á aldininu er víðast unnin með höndum.

Uppruni og saga

Talið er að nytjar á pálmaolíu hafi þekkst í að minnsta kosti 5.000 ár fyrir upphaf okkar tímatals. Fornleifarannsóknir benda til að Egyptar til forna hafi neytt og verslað með pálmaolíu árið 3000 fyrir Krist og fundist hafa leifar olíunnar í grafhýsum þar í landi.

Fyrstu rituðu heimildir um pálmaolíu er að finna í dagbókum og ferðasögum Evrópumanna frá Vestur-Afríku um miðja 15. öld. Samkvæmt þeim segir að olían hafi meðal annars verið notuð í súpur, sósur, sem steikingarfeiti, við bakstur og til lækninga. Úr blöðunum var unninn þráður til spuna og vefnaðar.

Olíupálmar eru upprunnir í vestanverðri Afríku en voru fluttir til Suðaustur-Asíu í upphafi 20. aldar sem ræktunarplanta.

Á tímum iðnbyltingarinnar í Bretlandi var eftirspurn eftir ódýrri og hentugri jurtaolíu til að búa til sápur og kerti mikil og pálmaolía hentaði fullkomlega í slíka framleiðslu þar sem hún er föst við stofuhita. Pálmaolía var einnig notuð sem smurolía á vélar.

Vinsældir pálmaolíu sem íblöndunarefni jukust mikið á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar og í kjölfar hennar. Heimsverslun með pálmaolíu óx á árunum frá 1962 til 1982 úr 500 þúsund tonnum í 2,4 milljón tonn.

Indónesía stærsti framleiðandinn

Malasía varð snemma stærsti framleiðandi pálmaolíu í heiminum og hélt því sæti fram á sjöunda áratug síðustu aldar þegar Indónesía skaust fram úr og er í dag langstærsti framleiðandinn. Stjórnvöld í Indónesíu sáu að með því að rækta olíupálma í stórum stíl var hægt að sjá fjölda landsmanna fyrir atvinnu. Árið 2014 var áætlað að hátt í tvær milljónir smábænda og fjölskyldur þeirra í Indónesíu hafi framfæri af ræktun olíupálma en um 28 milljónir íbúa í landinu lifa undir fátæktarmörkum.

Afleiðing aukningarinnar er sú að í dag er Indónesía efst á lista yfir lönd þar sem skógareyðing er mest í heiminum. Skógar eru brenndir og felldir á stórum svæðum til að fá ræktarland fyrir olíupálma. Samanburður á gervihnattamyndum frá 2000 og 2012 sýnir að gríðarlega mikið skóglendi hefur verið rutt og að um 40% af því er innan friðaðra svæða.

Talið er að rúmlega sex milljón hektarar af skóglendi hafi verið felldir á þessum tólf árum. Samanburður á gervihnattamyndunum sýnir einnig að landsvæðin sem eru rudd hafa verið að stækka ár frá ári.

Áætlanir um stórfellda ræktun í Perú

Skógareyðing í Indónesíu og Malasíu vegna framleiðslu á pálmaolíu er ekki einsdæmi. Fyrir skömmu fékk matarolíuframleiðandi í Perú leyfi yfirvalda þar í landi til að fella 23.000 hektara af skóglendi í norðurhluta Amason-skógarins til að rækta olíupálma.
Skógarnir sem á að fella eru 85% frumskógar. Til skamms tíma hefur framleiðsla á pálmaolíu verið minni í Perú en í nágrannaríkjunum, Ekvador og Kólumbíu. Aukningin undanfarin ár er þó umtalsverð og útlit fyrir að pálmaolía verði ræktuð á 1,5 milljón hekturum lands í Perú eftir nokkur ár.

Samkvæmt lögum í Perú eru frumskógar Amason friðaðir en þrátt fyrir það eru þeir felldir á báða bóga og segja skógfriðunarsinnar að matvælafyrirtæki notfæri sér göt í lögum og mútur til að ná sínu fram.

Bandaríska bananaræktandinn United Fruit Company, ChiquitaFyffes í dag, mun hafa flutt fyrstu fræ olíupálma til Suður-Ameríku árið 1920. Fyrst til Gvatemala en síðan Panama og Hondúras. Fyrirtækið ætlaði sér út í stórframleiðslu á pálmaolíu eftir að sveppasýking lék bananaframleiðsluna illa. Fyrstu árin gekk treglega að finna hentug ræktunarsvæði fyrir pálmann og þeir viðkvæmir fyrir sjúkdómum.

Spilling í útgáfu vottorða

Stórfyrirtæki í matvæla- og snyrtivöruiðnaði eins og Unilever, Cargill, Procter & Gamble, Nestle, Kraft og Burger King, hafa síðustu ár mætt vaxandi gagnrýni fyrir óhóflega notkun á pálmaolíu við framleiðslu sína og ýta þannig undir skógareyðingu. Sum fyrirtækjanna hétu því fyrir nokkrum árum að hætta að nota pálmaolíu sem ekki fylgir vottorð um sjálfbæra ræktun fyrir árið 2015.

Mörg þessara fyrirtækja reiða sig á samtök sem kallast Roundtable on Sustainable Palm Oil þegar kemur að vottun olíunnar en samtökin hafa þráfaldlega verið sökuð um að gefa út fölsuð vottorð.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...