Ryðsveppir og áburður að hausti
Ryðsveppir eru sníkjusveppir sem lifa á laufblöðum trjáa. Skemmdir af þeirra völdum eru vegna gróbletta sem myndast á blöðunum og valda kali á greinum.
Skemmdirnar verða minni eftir því sem trén sýkjast seinna að sumri og sýkingar eru skæðari í rökum sumrum en þurrum.
Lífsferill ryðsveppa er flókinn og felur oft í sér tvær ólíkar hýsiltegundir. Sum stig sveppanna finnast á jurtkenndum gróðri en önnur á trjám eða runnum. Einnig þekkjast hýsilskipti á milli barrtrjáa og lauftrjáa eða runna.
Ryðsveppur á gljávíði víxlar á milli lerkis og gljávíðis. Sveppurinn virðist þó geta lifað eingöngu á víðinum ef lerki er ekki til staðar og tjón af hans völdum á lerki er nánast ekkert.
Skaðinn á víði felst í því að sveppurinn hindrar að brumin nái að þroskast fyrir veturinn og það veldur kali. Margar víðitegundir eru viðkvæmar gagnvart sýkingu af völdum ryðsvepps og eykur sýking stórlega hættu á kali.
Asparryð barst til landsins skömmu fyrir síðust aldamót og er ryð í öspum oft áberandi og veldur víða tjóni.
Asparryð kemur fram á neðra borði laufblaða alaskaaspar um mitt sumar. Gró sveppsins berast með vindi á næstu blöð eða blöð annarra trjáa og sýkja þau. Á haustin myndast dvalargró sem lifa veturinn á föllnu laufi.
Smitið byrjar á lerkitrjám á vorin og verður ösp sem stendur nálægt því oft illa úti. Skaðinn á öspinni kemur fram sem visnuð blöð og eins dregur úr vexti. Kalhætta er einnig meiri hjá ösp sem er smituð af ryði. Asparklónar eru misþolnir fyrir ryði.
Ekki eru til neinar varnir gegn ryðsveppi en gott er að gefa trjánum kálísúlfat seinni hluta sumars þar sem það dregur úr líkum á kali.
Áhrifamesta vörnin gegn ryðsvepp felst í því að gróðursetja ekki lerki nálægt víði eða ösp. Þá getur verið gott að fjarlægja tré eða runna til að draga úr líkum á smiti.
Með því að klippa burt sýktar greinar að vori má fjarlægja mikið af smitefnunum sem eru í dvala í brumunum. Klippa þarf allan ársvöxtinn í burtu. Nýtt brum sem vex að vori er laust við smit og myndar heilbrigða sprota. Fjarlægja þarf allt lauf og greinar úr beðunum ef í því skyldi leynast smit sem gæti lifað af veturinn og dreift sér.
Kalí-áburður er nauðsynlegt við ljóstillífun sem er undirstaðan í lífstarfsemi plantnanna. Kalí eykur frostþol og mótstöðu gegn þurrki og sveppasjúkdómum. Skortur á kalí lýsir sér meðal annars í að ung blöð verða gul og visna, einkum á blaðjöðrunum. Þannig að gott er að bera á kalíríkan áburð í byrjun ágúst til að draga úr líkum á kali.
Einnig er gott að gefa fosfóráburð í lok ágúst til að styrkja rótarvöxt plantnanna sem er mikill á haustin eftir að ofanjarðarvexti lýkur og plönturnar fella lauf.