Samkeppnisstaða sjávarútvegsins
Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki eiga í harðri samkeppni á markaði við fiskframleiðendur í öðrum löndum. Mikil hagræðing og tæknivæðing síðustu áratuga hefur skapað þeim sterka stöðu í þessari samkeppni. Athyglisverð er sú staðreynd að Ísland skuli vera eina ríkið innan OECD þar sem sjávarútvegurinn borgar meira til hins opinbera en hann fær greitt úr opinberum sjóðum, hvaða skoðun sem menn svo hafa á því hvort greinin greiði „réttlátt og sanngjarnt“ veiðigjald fyrir afnot af auðlindinni eða ekki.
Síðastliðið vor kom út yfirgripsmikil skýrsla á vegum sjávarútvegsráðuneytisins um stöðu og horfur í íslenskum sjávarútvegi og fiskeldi. Höfundar hennar eru Sveinn Agnarsson prófessor (ritstjóri), Sigurjón Arason prófessor, dr. Hörður G. Kristinsson og dr. Gunnar Haraldsson. Í skýrslunni er m.a. fjallað um samkeppishæfni sjávarútvegsins gagnvart sjávarútvegi í helstu samkeppnislöndum okkar. Það sem hér fer á eftir er byggt á því sem fram kemur í skýrslunni.
Norðmenn helstu keppinautarnir
Norðmenn eru helstu keppinautar Íslendinga á markaði fyrir sjávarafurðir enda er Noregur nágrannaland okkar og tegundasamsetning í afla ekki ósvipuð því sem þekkist hérlendis. Norðmenn voru árið 2018 tíunda aflahæsta þjóð heims með 2,7 milljónir tonna úr veiðum (tvöfalt meira en Íslendingar) og að auki 1,4 milljónir tonna úr fiskeldi, eða samtals liðlega 4 milljónir tonna af fiski. Hlutfall eldisfisksins er 45% af heildarmagni útflutts sjávarfangs en hlutfallið er ríflega 70% mælt í verðmætum.
Helmingur þorsksins óunninn úr landi
Norðmenn flytja mest út til landa Evrópusambandsins eins og Íslendingar og þjóðirnar tvær eiga í harðri samkeppni í sölu á þorski inn á þennan mikilvæga markað. Samsetningur á útflutningi þorskafurða er þó harla ólíkur í löndunum tveimur. Íslendingar fullvinna þorskinn í mun ríkara mæli en Norðmenn, sem selja stóran hluta aflans úr landi til frekari vinnslu erlendis. Á árinu 2020 nam útflutningur á heilum eða frosnum heilum þorski 51% í Noregi en 12% á Íslandi. Fersk flök voru þá 1,8% af útflutningi Norðmanna en 19,6% af útflutningi Íslendinga. Útflutningur á hliðarafurðum er mun meiri frá Íslandi en Noregi.
Veiðar og vinnsla aðskilin
Sú staðreynd að liðlega helmingur af þorskútflutningi Norðmanna er óunninn fiskur, þ.e. ferskur eða heilfrystur, á rætur sínar að rekja til fiskveiðistjórnunarkerfisins þar í landi. Veiðar og vinnsla eru aðskilin lögum samkvæmt og því kemur meirihluti aflans á land á vertíðartímanum fyrri hluta árs þegar auðveldast er að veiða þorskinn en þá er ekki nægileg afkastageta í fiskvinnsluhúsunum til að anna þeim afla sem á land berst. Á Íslandi eru veiðar og vinnsla samþætt að stórum hluta og hægt að stýra dreifingu aflans meira yfir árið eftir því sem hagstæðast þykir með tilliti til vinnslu og markaða.
Samanburður á afurðaverði
Í skýrslunni kemur fram að samanburður á útflutningi á þorskafurðum landanna árið 2015 hafi leitt í ljós að íslensk fyrirtæki hafi fengið hærra verð en norsk fyrirtæki fyrir alla afurðaflokka nema heilan þorsk og saltfisk. Árið 2020 hafi dæmið aftur á móti snúist við. Þá fengu norsku fyrirtækin hærra verð fyrir allar afurðir nema fersk flök. Meðalverð á hvert kíló fyrir allar afurðir var þó hærra hjá Íslendingum vegna þess hve Íslendingar flytja mikið út af ferskum flökum sem seljast á hæsta verði allra afurða.
Samkeppnisstaðan gæti breyst
Bent er á í skýrslunni að eins og þessi samanburður beri með sér sé verð ólíkt milli ára. Eigi að síður virðist sem norsk fyrirtæki séu að fá hærra verð en Íslendingar fyrir þann óunna fisk sem fluttur sé úr landi, sem og fryst flök og saltfisk. Íslendingar hafi enn sem komið er ekki getað selt fersku þorskflökin á hærra verði en Norðmenn. Eftir því sem fleiri fiskvinnslufyrirtæki í Noregi tileinki sér nýjustu tækni, m.a. með því að kaupa tæki og búnað af íslenskum framleiðendum, geti sú staða hæglega breyst og Íslendingar þá hugsanlega þurft að sætta sig við að fá lægra meðalverð en Norðmenn fyrir allar þorskafurðir. Nái norsk fyrirtæki að vanda hráefnismeðferð frá veiðum til vinnslu og að nýta hráefnið betur eins og Íslendingar hafi gert, gæti samkeppnisstað íslenskra fyrirtækja versnað enn frekar, segir í skýrslunni.
Færeyingar í náðinni hjá Rússum
Færeyingar eru einnig keppinautar Íslendinga á markaði fyrir sjávarafurðir þótt í minna mæli sé. Miklar breytingar hafa átt sér stað í færeyskum sjávarútvegi á síðustu áratugum. Áður voru veiðar á hvítfiski fyrirferðarmestar en nú er svo komið að fiskeldi hefur tekið við sem mikilvægasta útflutningsafurð Færeyinga. Þá hefur sú breyting orðið í seinni tíð að Rússland er orðið langþýðingarmesta útflutningsland Færeyinga. Það á sér þær skýringar að þegar flestar aðrar fiskveiðiþjóðir í Evrópu og Ameríku beittu Rússland viðskiptaþvingunum vegna ástandsins í Úkraínu brugðust Rússar við með því að loka markaði sínum fyrir sjávarfang frá þessum löndum að mestu leyti, þeirra á meðal frá Íslandi. Færeyingar tók ekki þátt í refsiaðgerðunum gagnvart Rússum og hafa notið þess. Við lokun Rússlandsmarkaðar misstu Íslendingar sinn besta markað fyrir meðal annars makríl og hafa orðið að sætta sig við lakara verð á öðrum mörkuðum fyrir makrílafurðir.
Afli ESB-landa 3 milljónir tonna
Evrópusambandið er mikilvægasta markaðssvæði Íslendinga fyrir sjávarafurðir en jafnframt eru fiskveiðiþjóðirnar innan þess að sjálfsögðu samkeppnisaðilar okkar á markaði. Heildarafli ESB-landanna á árinu 2019 nam um 3 milljónum tonna sem er talsvert minna en árin á undan. Til samanburðar má nefna að heildarafli Íslendinga hefur verið 1,1-1,3 milljónir tonna síðustu árin en fór yfir 2 milljónir tonna í kringum aldamótin í góðum loðnuárum. Langstærsti hluti afla ESB-ríkjanna veiddur í Norðaustur-Atlantshafi og er Spánn alla jafnan stærsta fiskveiðiþjóðin en Danmörk, Frakkland og Holland fylgja þar á eftir. Það sem helst skekkir samkeppnisstöðu Íslands gagnvart ESB-löndunum er yfirgripsmiklir styrkir til sjávarútvegs í þessum löndum. Fiskveiðar nema aðeins um 1% af vergri landsframleiðslu ESB-landanna allra en mikilvægi þeirra er mjög mismunandi eftir löndum og landssvæðum.
1.167 milljarða styrktarsjóður
Evrópusambandið hefur sett á fót sérstakan sjóð til að styðja við fiskveiðar og sjávartengda starfsemi. Á árunum 2014-2020 var heildarfjárhæð sjóðsins ríflega 7,8 milljarðar evra eða jafnvirði 1.167 milljarða íslenskra króna. Það gerir tæpir 200 milljarðar íslenskra króna á hverju ári en til samanburðar má nefna að aflaverðmæti íslenskra skipa á árinu 2019 nam 145 milljörðum króna. Meðal markmiða sjóðsins er að auka fjölbreytni atvinnulífs í sjávarbyggðum og auðvelda aðgengi smárra fyrirtækja að fjármagni. Í skýrslunni segir að breytingar séu að eiga sér stað varðandi styrki til sjávarútvegs í Evrópusambandinu í átt til stuðnings við brothættar byggðir og atvinnustarfsemi frekar en að verið sé að styrkja hefðbundnar veiðar og vinnslur.
Rússar styrkja skipasmíðar
Víða þekkjast þó dæmi um styrki til fjárfestinga, jafnt í skipum sem vinnslum. Rússar keppast nú t.d. við að endurnýja fiskveiðiflota sinn. Í Rússlandi hafa verið teknir upp sérstakir fjárfestingarkvótar sem nema 20% af heildarkvóta og er úthlutað til þeirra fyrirtækja sem skuldbinda sig til þess að láta smíða ný skip í Rússlandi frekar en í útlöndum. Þess má geta að Rússar eru keppinautar Íslendinga á mörkuðum fyrir botnfiskafurðir úr Barentshafi rétt eins og Norðmenn.
Ísland sker sig úr
Styrkir til sjávarútvegs er hin almenna regla meðal nágrannaþjóða okkar og þótt víðar væri leitað. Samkvæmt nýjustu tölum OECD (Efnahags- og framfarastofnunarinnar) sker Ísland sig sérstaklega úr hvað varðar greiðslur fyrirtækja í greininni fyrir aðgang að auðlindinni. Ísland er eina landið innan OECD þar sem sjávarútvegurinn borgar meira til hins opinbera en hann fær greitt úr opinberum sjóðum. „Sú staðreynd að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki geta staðist samkeppnina jafn vel og raun ber vitni er annars vegar merki um góða fiskveiðistjórnun og fjárhagslegan styrk sjávarútvegsins á Íslandi en einnig um bágt ástand í fiskveiðum annars staðar,“ segir í skýrslunni sem hér er vitnað til.