Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 mánaða.
Sjálfbær landnýting
Á faglegum nótum 6. mars 2024

Sjálfbær landnýting

Höfundur: Bryndís Marteinsdóttir, sviðsstjóri á sviði sjálfbærrar landnýtingar

Í hugum margra eru gróður og jarðvegur svo sjálfsögð fyrirbæri að við áttum okkur ekki á því að þetta eru meðal okkar allra mikilvægustu auðlinda – auðlindir sem allt okkar líf byggir á.

Þessar auðlindir eru grunnurinn að lífsnauðsynlegum vistkerfisferlum og þjónustum s.s. kolefnisbindingu, matvælaframleiðslu, vatns- og næringarefnahringrásinni og frumframleiðni. Líkt og með aðrar auðlindir eru þær takmarkaðar og við þurfum að hugsa vel um þær.

Í samráðsgátt stjórnvalda liggja nú fyrir drög að reglugerð um sjálfbæra landnýtingu, drög sem hafa það m.a. að markmiði að tryggja sjálfbæra nýtingu þeirra auðlinda sem liggja í gróðri og jarðvegi. Þessi reglugerð snýr ekki einungis að þeirri nýtingu sem fellur undir landbúnað, heldur einnig nýtingu vegna umferðar fólks og ökutækja og vegna framkvæmda. Við mat á því hvort auðlindanýting er sjálfbær, út frá umhverfislegu sjónarhorni, er oftast horft til tveggja þátta. Í fyrsta lagi að auðlindin sé í því ástandi að hún sé hæf til nýtingar og í öðru lagi að nýtingin gangi ekki á auðlindina og tryggt sé að komandi kynslóðir geti notið hennar.

Það er alþekkt þegar kemur að nýtingu sjávarauðlinda að þegar stofnstærð fiska fer niður fyrir ákveðin mörk, er engin veiði leyfð, óháð því hvort stofnstærðin er að aukast eða minnka. Unnið er að stjórnunar- og verndaráætlunum fleiri tegunda og auðlinda, t.d. rjúpunnar, þar sem sömu skilgreiningu á sjálfbærri auðlindanýtingu er fylgt.

Það er í þessum anda sem reglugerðin um sjálfbæra landnýtingu er gerð. Ef ástand gróðurauðlindarinnar fer niður fyrir ákveðin mörk, er ekki hægt að nýta hana á sjálfbæran hátt, jafnvel þó að vistkerfið sé í framför.

Þegar kemur að mati á ástandi auðlindar og áhrifum beitarnýtingar á hana er byggt á nálgun sem er viðurkennd í dag og m.a. notuð í Bandaríkjunum, Nýja-Sjálandi og Mongólíu. Þar er ástand lands metið út frá því hversu mikil frávik það sýnir frá sambærilegu svæði í góðu ástandi. Þannig er hægt að meta ástandið, út frá fyrir fram gefnum mælibreytum og fylgjast með því hvernig það er að breytast. Nýtingin er svo aðlöguð að ástandi hvers tíma með það að markmiði að hámarka afköst beitarlandsins.

Ljóst er að margar nýjar áskoranir felast í þessari reglugerð. Það er einmitt eitt af hlutverkum Lands og skógar, í samvinnu við heimafólk, landeigendur, notendur auðlindanna og aðra, að takast á við þessar áskoranir á farsælan hátt. Miklir möguleikar felast í landbótaáætlunum og hægt er að útfæra þær með ýmsum hætti, jafnvel gjörólíkt því sem áður hefur tíðkast.

Þegar öllu er á botninn hvolft erum við öll að stefna að því sama. Við viljum tryggja blómlega byggð á öllu landinu sem byggir á sjálfbærri auðlindanýtingu, virðingu við hefðir og sátt við fólk og náttúru.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...