Stór bíll með 1,2 l vél sem skilar 130 hestöflum
Höfundur: Hjörtur L. Jónsson
Fyrir nokkru frumsýndi Bílabúð Benna Opel Grandland sem fæst í þrem mismunandi útfærslum. Ég tók prufuakstur á Opel Grandland X Innovation sem er dýrasti bíllinn af Grandland. Það sem í upphafi átti að vera 50 til 100 km prufurúntur endaði í tæpum 300 km. Það var einfaldlega svo gott að keyra bílinn að ég endaði í Þjórsárdal og til baka.
Í fyrstu byrjaði ég á innanbæjarakstri í tæpa 30 km og samkvæmt aksturstölvunni var ég að eyða um 10 l af bensíni í innanbæjarakstrinum. Næst var það langkeyrsla sem var í Þjórsárdal og til baka en sú leið er um 250 km. Eftir þann akstur sagði aksturstölvan mér að mín eyðsla hafi verið 7,2 l á hundraðið. Ekki slæmt þar sem ég er aldrei í neinum sparakstri við mínar prufukeyrslur. Uppgefin eyðsla á þessum bíl er 5,2 lítrar á hundraðið af bensíni í blönduðum akstri.
Þótt vélin sé ekki nema 1,2 l er hún spræk
Þótt vélin sé ekki nema 1,2 l turbo bensínvél skilar hún 130 hestöflum. Miðað við stærð og þyngd bílsins eru þessir 130 hestar að skila bílnum vel áfram, svo vel að margsinnis hrökk ég upp við að ég sá hraðamælisnálina vera komna vel hægra megin við fyrstu þriggja stafa töluna og varð að slá af svo að ökuskírteinið væri ekki í hættu. Bíllinn sem ég prófaði var með sex gíra sjálfskiptingu, en hinir tveir ódýrari bílarnir eru með fimm gíra skiptingu.
Hljóðlát vél og góður á möl
Að keyra bílinn er mjög gott, sætin hreint út sagt frábær, nánast hljóðlaus bensínvél og fótarými gott. Mikið er lagt upp úr öryggi og þægindum, s.s. hiti í stýri, akreinalesari, blindhornsvari, fjarlægðarskynjari, bakkmyndavél og margt fleira.
Þessi bíll býður upp á þann möguleika að þegar sett er í bakkgír fara hliðarspeglarnir sjálfkrafa niður og sýna ökumanni jörðina rétt fyrir aftan bílinn hvort sínum megin (mér leiðist þessi búnaður og slekk strax á þessu ef það er í boði og bakka eftir speglunum eins og ég hef vanist hingað til). Hins vegar er þetta mjög gott fyrir þá sem bakka með aðstoð bakkmyndavélarinnar.
Það kom mér á óvart hversu hljóðlátur bíllinn var á malarvegi, en mjög lítið heyrðist undir bílnum í steinum sem ég samt fann að voru að berja undir bílinn.
Fann aðeins eitt að bílnum sem mér mislíkar og annað sem mætti bæta
Grandland er nánast gallalaus bíll á góðu verði, en frumsýningartilboðið á bílunum þrem er frá 3.790.000 upp í 4.190.000. Það er eitthvað með að sitja undir stýri á Opel sem gerir það að manni líður vel, ökumannssætið er eitthvað svo undra þægilegt (næstum of þægilegt).
Oft er ég spurður um það sem mér mislíkar við bíla, fremur en það góða í bílunum, en þessi er nánast gallalaus. Það eina sem mér mislíkaði er felgustærðin á bílnum, en ég vil hafa felgur undir bílum eins litlar og mögulegt er til að fá meira gúmmí í fjöðrunina, sérstaklega á malarvegi. Þess vegna hefði ég viljað vera á 17 eða 16 tommu felgum undir þessum bíl þar sem bíllinn er hár undir lægsta punkt og hentar vel til aksturs á malarslóðum fyrir utan að vera á þessum lágu dekkjum (samkvæmt sölubæklingi er hægt að fá bílinn á bæði 16 og 17 tommu felgum). Hinn gallinn er að varadekkið er það sem ég kalla „aumingi“ (mjótt og væskilslegt).
Lokaorð, góður bíll á góðu verði
Grandland lítur út eins og jepplingur, hátt undir lægsta punkt og hentar vel til malarvegaaksturs, stöðugur og hljóðlátur, en það vantar í hann fjórhjóladrifið.
Hljómtækin eru mjög góð og nánast ekkert sem truflar góðan hljómburð nema veghljóð frá hjólbörðunum. Á skjánum (bakkmyndavélin) fyrir miðju mælaborðinu er hægt að fá upp ýmsar stillingar og tengja símann við það (hins vegar er ég svo heftur í svona tölvu- og símatækni að mér dugðu ekki tveir dagar til að átta mig á allri þessari tækni).
Sé einhver í hugleiðingum að fá sér svona bíl þá er frumsýningartilboðið mjög gott, en ekki hef ég upplýsingar um hvenær því lýkur. Allar nánari upplýsingar um bílinn má finna á vefsíðunni www.benni.is eða hjá sölumönnum í Bílabúð Benna.
Helstu mál og upplýsingar:
Þyngd 1.319 kg
Hæð 1.811 mm
Breidd 1.811 mm
Lengd 4.477 mm